mánudagur, 1. júní 2009

Afsakið hlé...

Það hefur sko margt gerst síðan 8. maí, það skal ég segja ykkur.

Ef við vinnum okkur aftur þá kláraði ég skólaönnina á föstudaginn. Því var að sjálfsögðu fagnað með látum. Bekkurinn skellti sér á Café IDA og borðaði hádegismat í boði skólans . Eftir matinn var svo var sest á grasblett á Íslandsbryggju og spjallað um framtíðina (og hversu kennararnir væru gagnslausir). Nokkrum tímum og þremur kössum af bjór síðar enduðu svo nokkrir í grilli í bakgarðinum hjá okkur. Pulsur í forrétt og lax, nýjar kartöflur frá Mallorca og heimalagað pestó í aðalrétt. Öllu skolað niður með Dansk Pilsner úr Fakta(1,95 DKK pr.stk. / 58,5 DKK pr.kasse)
Eftir þessa veislu drifum við okkur svo á karnival í Fælledparken. Ekkert lítið fjör að klára 5 mánaða skólatörn! (Afrakstur annarinnar má sjá hér)

Í síðustu viku fórum við á þrenna tónleika. Emilíana Torrini í Koncerthuset (4/5), A Hawk and a Hacksaw á Vega (2/5) og Torsdagskoncert með DR SymphoniOrkestret í Koncerthuset (4/5). Bara gaman.

Við kíktum líka á opnun ljósmyndasýningar færeysk-sænska ljósmyndarans Maria Olsen á Nordatlantens Brygge. Áhugaverðar myndir sem fjalla um fiskveiðar og -verkun í Norður-Atlantshafinu. Meira um það hér.
Eftir sýninguna vorum við orðin svo sólgin í fisk að við brunuðum í gegnum hellidembu og þrumuveður á uppáhalds sushi staðinn okkar og borðuðum yfir okkur af Unagi Nigiri, California rúllum og fleira góðgæti.

Um síðustu helgi kíkti Óli í smá heimsókn frá Prag og tók Eduardo vin sinn með sér. Við fengum okkur að sjálfsögðu nokkra Ale Nr. 16 og spjölluðum um þjóðaríþrótt Colombiu.

Hún Halldóra vinkona okkar bauð okkur í mat fyrir ekki svo löngu. Það var gríðarfjör enda fullt hús af gestum. Hún eldaði líka dýrindis mat sem að ég á eftir að fá uppskriftir að. Góður kokkur og gestgjafi hún Halldóra. Við spjölluðum um heima og geima og hún benti okkur meðal annars á þessa stórskemmtilegu grein um nýjustu bók Haruki Murakami, "What I Talk About When I Talk About Running".

Við fórum einungis einusinni í bíó í maí. Sáum hina geisiáhugaverðu "Der Baader-Meinhof Komplex" (4/5). Það þarf varla að útskýra fyrir neinum um hvað hún fjallar.
Ég náði svo að lesa tvær skáldsögur með þessu öllu. Nýjasta bók Nick Hornby, "Slam", og fyrstu skáldsöguna hans Aravind Adiga, "The White Tiger".
Önnur fjallar um Sam, 16 ára gamlan skeitara, sem býr einn með mömmu sinni sem var 16 ára þegar hún eignaðist hann og hversu lífið getur verið erfitt á þeim aldri.
Hin fjallar um uppvöxt, þroska og athafnamennsku Balrams Halwai, klárasta stráksins í litlu þorpi á Indlandi.

En nú ætla ég að lesa yfir ritgerðina hennar Júlíu, sem að hún ætlar að skila um þetta leiti á morgun.