miðvikudagur, 17. desember 2008

Hvedebrødsdage

Við hjónin erum mætt til København, bara svona að láta vita af því.

Höfum svosum ekki mikið gert ennþá en þó búið að hjóla nokkra kílómetra, baka bæði eplaköku og bananabrauð, drekka 3 rauðvínsflöskur, búin að fá frábæru nágrannana okkar tvisvar í kaffi, sofa af okkur einn jarðskjálfta og vera neitað um gömlu vinnuna vegna vesens útaf "finans krisen".

Uppfærsla:
Hér má sjá örlítið meira um það sem gerðist áður en við fluttum okkur suður um höf.

sunnudagur, 16. nóvember 2008

Menning

Ég hvet alla til að kíkja í Listasafn ASÍ fyrir 23. nóvember nk. til þess að sjá yfirlitssýningu yfir verk Gylfa Gíslasonar heitins. Frábær sýning!

(Myndskreyting eftir Gylfa Gíslason sem prýðir forsíðu Þjóðviljans þann 10. desember árið 1978. Smellið á myndina til að stækka hana)


Einnig mæli ég sterklega með því að kíkja í Sundhöll Reykjavíkur snemma á sunnudagsmorgni. Ég held að fátt gefi manni meiri kraft til þess að nýta daginn.

sunnudagur, 9. nóvember 2008

sunnudagur, 2. nóvember 2008

Nú líður mér betur...

af því að við eigum one-way ticket til Kaupmannahafnar. Við flytjum þangað 14. des.

Helgin fór í það að vera fárveikur og á meðan að skrifa gríðar skemmtilega heimildaritgerð um Aristóteles. Hóstaköst, hitasveiflur og snýtingar passa ekki vel við heimildaleit, ritgerðarskrif og tímaþröng. Náði þó að skila ca. 25 mín. áður en fresturinn rann út.

mánudagur, 30. júní 2008

Köben, Berlín, Seltjarnarnes... nei, ég meina Snæfellsnes.

Þegar fólk sækir um vinnu eða skráir sig í eitthvað félagsstarf þá er það yfirleitt spurt um áhugamál og oftar en ekki skrifar það "Ferðalög" í þann dálk ásamt kannski "Tónlist, kvikmyndir, hitta vinina". Eins skemmtilegt og það er þá sameinuðum við allt þetta síðustu tvær vikurnar.

Köben og Berlín eru eins og þær eru alltaf, svakalega ljúfar og propfullar af menningu og lífi. Og vegna þess að enginn kemst utan vegna kreppu þá ætla ég ekkert frekar útí þá sálma.

Núna um helgina nutum við hinsvegar íslenskrar menningar. Fórum að sjá tvær íslenskar bíómyndir, Heiðina og Kjötborg. Hvor um sig mjög áhugaverð en ég var mun hrifnari af Kjötborg þar sem ég styð alla kaupmenn á hornum.
Litum svo við á Náttúrutónleikum, hlustuðum samt bara á Björk. Þar byrjaði náttúran að trufla mig með frjóofnæminu skemmtilega.

Sunnudagurinn fór svo í að skoða gjörsamlega nýjan stað fyrir mér, Snæfellsnesið. Þar hef ég aldrei komið áður svo ég muni. Glæsilegur landshluti og svo hef ég líka heyrt því fleygt að þar sé að finna allar íslenskar bergtegundir.
Fórum með Agli og Hildi þangað og fiskisúpa, djúpalónsperlur, tjill við Dritvík og hamborgari á Hótel Hellissandi yfir úrslitum EM í knattspyrnu er það sem stendur uppúr í þessum yndislega dagstúr um nesið.
Svo má þar að auki benda á Skallagrímsgarð, flottan lystigarð í Borgarnesi sem að Egill sýndi okkur.

Frábært sumarfrí og þakkir til allra sem komu að því!

Uppfærsla: Og já... nýjar myndir á www.thoriringvarsson.com

fimmtudagur, 29. maí 2008

Hamingjan er...

Ég held því fram að hamingjan sé fólgin í því að eiga ónotaðan flugmiða og hamingjukúrvan fer bara uppávið eftir því sem styttist í brottför (sjá "Graf 1").

Graf 1.

Því má segja að við Júlía höfum verið að fjárfesta í fyrradag þegar við pöntuðum far til Kaupmannahafnar. Við fljúgum frá KEF til CPH þann 13. júní og ætlum að tjilla í Køben í ca. viku. Svo ætlum við að skjótast með lest til Berlínar að æfa okkur í þýskunni og heimsækja Rut, Stebba og Úlf í leiðinni. Komum heim þann 24.

Svo er líklega best að kaupa sér annan miða áður en maður leggur af stað í þessa ferð til þess að viðhalda hamingjunni (sjá "Graf 2").

Graf 2.

Heyrumst...

miðvikudagur, 28. maí 2008

Arbejd, arbejd...

Jæja... enn einum 7:30-20:30 vinnudeginum lokið. Sæji það fyrir mér í dönsku þjóðfélagi.
Svo heyrði ég þessa skítugu setningu útundan mér rétt áður en ég steig útúr yðrum tölvuskáps sem ég er að tengja.
"Einn brandara svona í lokin, þá getur dagurinn klárast. Hann má vera um útlendinga!"
Eru allir Íslendingar að breytast í asna eða eru það bara verkamenn?

Við eyddum síðustu tveimur helgum í heimsóknir á Sauðárkrók og Flateyri. Góð bæjarfélög það og mjög ljúft að kíkja á stemmninguna þar. Takk fyrir okkur Gógó, Pétur, Margrét og Bergljót á Króknum og allir á Flateyri.

Svo er 100 ára afmæli Hafnarfjarðarbæjar um helgina. Dagskráin (sem er sko ekki af verri endanum) hefst á morgun og stendur fram á sunnudagskvöld svo endilega kíkið við. Ef þið komið að tómu húsi þá bara hringið þið því ég held að við förum ekkert út fyrir bæjarmörkin um helgina.

Sjáumst.

sunnudagur, 11. maí 2008

Sunnudagur

Ég fór í Kolaportið um daginn og rakst á þetta póstkort.


Frekar skemmtilegt að myndin er tekin af honum Birni Inga tengdapabba og stelpan sem situr fyrir er Júlía.

Eru ekki allir hressir annars?

sunnudagur, 4. maí 2008

Stolt og grams.

Ég er ótrúlega stoltur af hundinum okkar, henni Perlu (Tunnan fyrir þá sem þekkja hana undir því dulnefni). Nú hefur hún alla sína hundatíð farið með M&P í vinnuna hjá Í Réttum Ramma og lagt sitt af mörkum. En fyrir u.þ.b. ári skipti Perla um vinnustað.
Frá síðasta sumri hefur hún mætt til vinnu einu húsi frá gamla vinnustaðnum, þ.e.a.s. hjá Tæknivörum, mætir þar samviskusamlega klukkan 9:00 á morgnana og skokkar svo yfir til M&P nokkrum mínútum fyrir fimm til að fá far heim með þeim.
Ég dáist að þessu framtaki hennar.

Annars hef ég lítið gert um helgina. Var aðeins að gramsa í gömlum myndum og fann þessar hérna:

Siggi T og Óli Jóns á Valmuevej.

Langaði í tilefni af því að þakka ykkur strákunum fyrir frábæra sambúð í Danmörku á síðastliðnum árum. Góðar minningar þaðan.

Tschüss

sunnudagur, 27. apríl 2008

Frí, frí, frí og aftur frí.

Það er svo undarlegt með þessa fjölmörgu stöku frídaga á vorin. Það verða allir fimmtudagar eins og sunnudagar með laugardags ívafi og allir föstudagar eins og mánudagar. Svo loksins þegar helgarfríið byrjar heldur maður bara áfram að vakna klukkan hálf sjö á morgnana (sem er meira að segja korteri fyrr en ég vakna á virkum dögum).

En eftir þessa skrítnu semi-löngu helgi þá erum við margsfróðari um miðbæ Hafnarfjarðar þökk sé Jónatani Garðarssyni og sögugöngunni hans. Fórum líka í leikhús að tjékka á Engispettum. Held að flestir fjölskyldumeðlimir hafi verið sáttir við þá sýningu, sérstaklega þegar við vorum búin að lesa viðtalið við hana Þórhildi Þorleifsdóttur, leikstjóra, því eins og hún segir þar þá erum við (allavega ég) ekki nógu æfð í að lesa í allskonar táknmyndir og skilja þegar talað er undir rós.

Eftir vinnu á föstudaginn trítluðum við um miðbæ Reykjavíkur, rýndum í portrettmyndir í Fótógrafí, spíssuðum Eldsmiðju pizzu (sími 562-3838), splæstum í sumargjafir í Mál & Menningu og skoðuðum kósý hús með huggulegar svalir við Válastíg, Nönnugötu, Bragagötu og Kárastíg svo eitthvað sé nefnt. Tókum svo strætó heim í Fjörðinn.
Semsagt, við erum fáránlega menningarleg, hip og kúl!

En núna erum við algjölega eftir okkur því í gærkvöld fórum við í sitthvort matarboðið (Takk fyrir okkur!) og svo hittumst við á Dillon með alla vinina í eftirdragi.

Á morgun byrjar svo næsta vinnuvika með tilheyrandi fimmtudagsfríi og svoleiðis ruglingi.
Auf Wiedersehen.

fimmtudagur, 3. apríl 2008

Ég kann ekki...

að blogga á Íslandi! Hvort er það vegna þess að ég er latur eða af því að það er mikið að gera?

Ég held að ég hafi ekki átt óskipulagt kvöld í ca. 3 vikur. Kannski maður neyðist til að kaupa sér kalander og bóka partý, bíóferðir og frjáls kvöld með nokkurra vikna (eða jafnvel mánaða) fyrirvara eins og hinir drepleiðinlegu Danir gera?

Páskar á Flateyri, afmæli Júlíu, mála vinnuherbergið okkar, hanga í umferðarteppu og að hjálpa MoP að gera upp húsið er meðal þess sem á daga mína hefur drifið undanfarið. Svo sæki ég Óla og danska vini hans á flugvöllinn í kvöld því þeir eru að koma í helgarferð hingað á blogglausann Ísklumpinn.

Svo held ég að helgin fari að mestu leyti í menningu, vellystingar og kannski smá útivist. Opnun á nýrri sýningu í Fótógrafí, matarboð hjá Agli og Hildi, listasýning GetRVK.com, hitta danska vini og fleira gott.

Svo langar mig að minna á að það eru til betri netþjónustufyrirtæki en það íslensku. Júlía var nefnilega að fá ávísun uppá $20 Bandaríkjadali í endurgreiðslu frá Shaw Internet fyrir það að við skiluðum módeminu okkar. Þar með held ég að við höfum fengið endurgreidda alla þá summu sem við borguðum fyrir þriggja mánaða internetþjónustu í Calgary. Ég vildi að við gætum verslað við þá hérna á Skerinu.

GO SHAW INTERNET!

fimmtudagur, 13. mars 2008

Vá...

hvað það er gott að hætta bara einum tíma fyrr í vinnunni. Gerði það bæði í gær og í dag.
Í gær var það reyndar af því að við áttum leikhúsmiða. Fengum M&P með okkur að sjá Ivanov sem okkur þótti öllum mjög skemmtileg sýning. Nú erum við búin að sjá bæði bíómyndina og leikritið eins og við ákváðum þegar við heyrðum af þessu í útvarpinu yfir morgunverðarborðinu einhvern daginn á meðan við vorum í Calgary.

Í dag áttum við hinsvegar ekki leikhúsmiða. Vinnuvélin sem ég var að nota í vinnunni í dag varð bara rafmagnslaus og þessvegna ekki mikið hægt að halda áfram, svo ég dreif mig bara á Súfistann í einn bjór með Júlíu.
Ég er búinn að vera að vinna í að setja upp vinnulýsingu á risastórum vörulager þessa vikuna. Stend einn á vinnulyftu sem fer upp ca. 10 metra og vaggar svolítið við hverja hreyfingu mína. Þar dreg ég út rör og kapla, skrúfa tengla á stálbitana sem halda uppi þakinu og virði fyrir mér fólkið sem er að vinna lagerstörfin, taka saman pantanir, ganga frá vörum og spjalla við kúnnana.

Bless.

sunnudagur, 9. mars 2008

Vikan í stuttu máli

Fyrir viku máluðum við herbergið okkar í kjallaranum á Hverfisgötunni. Þvílík breyting þegar dökkrauðu veggirnir höfðu verið málaðir marmarahvítir og sjálfstæðisbláa steingólfið var falið með mjúku beigelituðu teppi.
Næst verða það páskagula vinnuherbergið og mosagræna forstofan sem fá að finna fyrir penslunum og rúllunum!

(Júlía mokar stéttina á milli málningarumferða og borðar svo smá snjó til að kæla sig niður.)

Svo hefur vikan liðið hjá með tilheyrandi vinnu á daginn og skemmtilegheitum á kvöldin. T.d. fórum við í dyrabjölluviðgerðarleiðangur til hennar Margrétar sem er leiðbeinandinn hennar Júlíu í háskólanum. Eftir að dyrasíminn hafði verið tengdur að flestu leyti (bjallan virkaði, það er hægt að hleypa fólki inn auk þess að geta hlustað á gestina á meðan þeir bíða fyrir utan í umferðarniðinum á Hringbrautinni en það er ekki hægt að spjalla við neitt við þá í gegnum tólið því míkrafónninn virkar ekki) og að launum fengum við pastarétt með spínati og LAUK auk þess að fá að slappa af í þessarri líka yndislegu íbúð sem hún var að fjárfesta í.

(Þriðja neðsta dyrabjallan með frábærum texta og dyrasíminn góði á milli þeirra Margrétar og Júlíu. Smellið á myndina til að stækka hana.)


(Viðfangsefni vikunnar í vinnunni var þessi tölvuskápur.)

Á þriðjudaginn kíktum við í lókal bíóið okkar, Bæjarbíó, þar sem Kvikmyndasafn Íslands er með sýningar tvisvar í viku. Sáum Benjamín Dúfu og okkur vöknaði báðum um augun þrátt fyrir fremur slappan leik á köflum. En frábært bíó og það verður sko heimsótt aftur bráðlega.
Við fórum líka að sjá aðra íslenska mynd í vikunni en það er Brúðguminn þeirra Tsjekhovs og Baltasars. Mælum með henni en við ætlum líka að reyna að ná að sjá Ivanov í Þjóðleikhúsinu áður en hún rennur sitt skeið.

Gummi átti afmæli í gær, 25 ára. Til lykke enn og aftur Gömme minn. Megir þú lifa og dafna í marga aldarfjórðunga enn! Fórum með honum og mörgum öðrum á veitingastað sem hvorugt okkar hefur komið á áður, Austur Indía Fjelagid, en Harrison Ford mælir eindregið með og segir að sé besti indverski veitingastaður sem hann hefur farið á um ævina.

Svo í kvöld, viku eftir herbergismálun, fórum við í fyrsta skipti á uppboð hjá Gallerý Fold og ekki nóg með það heldur keyptum við líka mynd þar! Teikningu eftir Halldór Pétursson, fyrrverandi skólastjóra Myndlista- og handíðaskóla Íslands og hönnuð af merkjum Reykjavíkurborgar, Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Flugfélags Íslands.

("Mannspilin og Ásinn" eftir Halldór Pétursson.)

En nú er ég farinn að sofa því það er vinna í Turninum á milli kl. 7:30 og 18:30 á morgun.

Auf wiedersehen!

mánudagur, 25. febrúar 2008

Verktakapólitík og súrmatur

Nú er ég búinn að vera á Íslandi í 2 vikur og þegar búinn að vinna í 10 daga af þeim. Er farinn að vinna sem rafvirki hjá Rafmiðlun og þessa dagana er ég að vinna á 17. hæð í nýja Turninum í Kópavogi. Þessir fyrstu dagar hafa verið fjandi hressir með 11 tíma vinnudegi og mikilli innanhúss pólitík um vörulyftunotkun.

Eftir langa vinnudaga er lítið gert en þó höfum við náð að fara á fjölskylduþorrablót (þar sem ég borðaði súrmat í fyrsta skipti) og einnig á svona útálandi-sveitaskemmtun í boði DV á Selfossi og svo í síðbúinn kvöldmat á Ránargrund (lærissneiðar í raspi, ekkert slor það!).

Svo var hún Linda Lundbergsdóttir að útskrifast úr dönskunni í HÍ í gær og við mættum hress í útskriftarveislu til hennar og sögðum "Til lykke!" áður en við gæddum okkur á yndislegum kræsingum. Drukkum svo með henni bjór frameftir kvöldi og horfðum á Laugardagslögin sem hafa verið að kvelja landann síðasta misserið. Renndum við á Dillon til að kíkja á Gumma, Andra og Diðrik áður en sá síðastnefndi skutlaði okkur heim í Hfj.
Til hamingju Linda!

Í dag, fyrsta frídaginn minn þessa vikuna, vorum við Júlía svo þunn til skiptis og sváfum eiginlega allan daginn. Akkúrat það sem við ákváðum í gær að ætti ekki að gerast. Fengum svo lambalæri í kvöldmat (mmm) og eftir það var sett um bráðabirgða símasamband við svefnherbergið í risinu svo M&P geti nú horft á sjónvarp án þess að ryðjast inná á fólkið í kjallaranum. Skrítið að þurfa alltíeinu internet tengingu til þess að horfa á sjónvarpið (dagskráin á þessu heimilinu samanstendur af Fréttum og danska sunnudagsþættinum Forbrydelsen).

På gensyn.

fimmtudagur, 14. febrúar 2008

Sama gamla farið...

Af hverju hættir fólk alltaf að blogga þegar það flytur aftur til Íslands? Ég er greinilega engin undantekning. Hef varla skrifað heila málsgrein síðan ég lenti á litla ísklumpnum.
Er þetta vegna þess að það gerist ekkert markverk hérna? Eða er þetta gráa skammdegi svo hryllilegt að það deyfir alla sköpunargáfu og lífsgleði?
Það er nú það.

Ég hef varla hitt neinn síðan á mánudag. Ég býst við því að það sé bein afleiðing af því að búa ekki í póstnúmeri 101, 105 eða 107. Ég bý nefnilega í 220. Það er þó skárra en að búa í 270 eins og ég gerði um árabil.

Annars er Hafnarfjörðurinn bara temmilega ágætur. Ég hef kjallaraherbergi í gömlu bárujárnsklæddu timburhúsi sem er í næsta nágrenni við Súfistann, Bæjarbíó, A. Hansen, Ríkið, bakaríið og pulsuvagninn. Ikke så slemt.

Svo kemur Júlía fljúgandi hress í kvöld og við skellum okkur í sveitasæluna á Eyrarbakka yfir helgina. Og kannski í sund á Stokkseyri...

Hej då.

mánudagur, 11. febrúar 2008

Á eyjunni fögru...

Ég er semsagt mættur til Íslands. Er ennþá með gamla góða númerið ef þið viljið spjalla. Ef þið munið það ekki þá getið þið bara flett mér upp í símaskránni!

föstudagur, 8. febrúar 2008

Flug, flug, flug og aftur flug...

Ég eyddi gærkvöldinu á Kastrup. Það var ekki gaman. Ég átti að fljúga klukkan 20:40 en þegar hún var orðin ellefu og hverfandi líkur á að vélin legði af stað fyrir fjögur um nóttina þá ákvað ég að fá miðanum mínum breytt og fór heim að sofa. Þannig að nú á ég flug á sunnudagskvöldið klukkan 20:40 og vona að veðrinu lægi á Íslandi.

Ætli ég sé ekki búinn að eyða ca. 3 sólarhringum í flugvallahangs, transit og flug síðustu vikuna. San Francisco - Calgary - Frankfurt - København og svo vonandi Ísland á sunnudaginn.

Annars er búið að vera fínt í DK þessa vikuna. Sáum Mugison á laugardaginn. Virkilega góðir tónleikar og ég held að allir þeir sem ég þekki í Køben hafi mætt. Svo sendum við draslið okkar með skipi á miðvikudaginn og fögnuðum því á hverfispöbbnum Sommersted um kvöldið, eftir að Júlía hafði boðið mér, Ingu Rún og Braga út að borða.

Ég hef svo helgina til þess að bæta au pair skorið okkar Júlíu. Ég held að aldrei hafi verri gestir gist á B6. Ætli ég eldi ekki í kvöld, reddi hádegismat á morgun og skelli svo í eins og eina eplaköku við gott tækifæri.

Tchüssi

fimmtudagur, 31. janúar 2008

Öryggi?

Já. Núna erum við loksins komin í gegnum klukkutíma prósessinn sem að fylgir því að komast inn á amerískan flugvöll.

Við eyddum öllu gærkvöldinu í að pakka. Skutumst í mexíkanahverfið í gær og keyptum hræódýra tösku í kínabúð. Þegar við vorum svo búin að pakka vel í hana þá langaði Júlíu að taka aðeins í hana til að finna hversu þung hún væri. Hún var búin að lyfta henni u.þ.b. 13 cm þegar saumurinn á annarri hliðinni gaf sig og dótið flæddi út. Svitinn spratt framm og við sáum frammá að skilja allt draslið eftir því að klukkan var tíu og hvergi töskubúð opin á þeim tíma. Það eina sem okkur datt í hug var að fixa þessa töskudruslu hvað sem það kostaði.
Stukkum útí súpermarkað að versla viðgerðarefni... nál, ofur-tvinna, Duct tape, töskubönd og sourcream & onion Pringles. Allt þetta kostaði náttúrulega helmingi meira en töskufjandinn.
Tveim tímum síðar var hálf teiprúllan komin á töskuna og búið að sauma botninn með áttföldum ofur-tvinna og við gátum farið að stafla aftur í helvítið.

Þegar við komum á flugvöllinn klukkan sjö í morgun (níu tímum eftir töskusjokkið) var einungis boðið uppá sjálfsþjónustu innritun en þó með aðstoð starfsfólks. Þegar kom að því að vigta töskurnar flaug 70 lítra bakpokinn okkar í gegn en nýja Mexíkó/Kína/Duct-tape taskan stoppaði á viktinni tíu kílóum of þung. Þá var um tvennt að velja; borga ofurháa sekt fyrir að vera með of þunga tösku eða endurpakka með einhverju móti. Við ákváðum að endurpakka undir ströngu eftirliti innritunardömurnar og leyfa röðinni fyrir aftan að blóta okkur aðeins. Nú er bara að bíða og vona að límbandið haldi alla leið til Calgary. Þar ætlum við kaupa aðra tösku.

Eftir þetta farangurs ævintýri fengum við að sjálfsögðu sérmeðferð í öryggishliðinu. Fyrst þurftum við að standa til hliðar á meðan innanlandsfarþegar streymdu í gegn. Síðan fengum við að setja allt dótið okkar og skó í öðruvísi kassa en allir aðrir.
Hinumegin við málmleitarhliðið þurftum við svo aftur að bíða til hliðar á meðan dótið okkar var fært á milli borða og næstum úr augsýn. Loksins var okkur hleypt út úr þessu afmarkaða svæði sem við héngum í og þá tók einhvers konar öryggisklefi við. Það stóð ekkert á því og enginn sagði okkur hvað það gerir en við þurftum allavega að standa inni í því í ca. mínútu á meðan það blés á okkur lofti og sagði okkur að bíða.
Útum hliðið og að dótinu okkar þar sem við fengum að fylgjast með starfsmanni þessa frjálsa ríkis opna allan handfarangurinn okkar og strjúka allt draslið með litlum hvítum miðum sem hann setti svo inn í einhvað risa tæki sem að við vitum heldur ekkert hvað gerir. Að lokum fengum við svo að fara aftur í skó og peysur, setja á okkur beltin og raða öllum handfarangrinum aftur í töskurnar. Ótrúlega fljótvirkt og hentugt kerfi fyrir fólk á ferðalagi.

Þetta er næstum því jafn mikill skrípaleikur og þegar við stoppuðum á rútustöðinni í Portland á leiðinni hingað til San Francisco. En það er önnur saga. Við ætlum aldrei aftur til móðursjúkrar Ameríku!


UPPFÆRSLA:

Við erum komin til Calgary, töskutuðran meikaði það alla leið og við krossleggjum fingur fyrir flugið yfir Atlantshafið því við nenntum ekki að kaupa aðra tösku í dag.
Samkvæmt lókalnum erum við víst verulega heppin því að síðustu tvo daga hefur hitastigið á svæðinu verið um -45°C en í dag er það bara um -25°C. Barasta hin ljúfasta hitabylgja.

Calgary er æði, þó hún sé köld.

föstudagur, 25. janúar 2008

Cosmo Suites

(smellið á myndina)

Qualität im Quadrat

þriðjudagur, 22. janúar 2008

Martin Luther King Jr. Holiday

Laugardagurinn var ansi líflegur eins og sjá má á blogginu hennar Júlíu en síðan þá höfum verið veik!
Það fór ekki alveg nógu vel með þéttskipulagt dagatalið okkar en í staðinn náðum reyndar að hlusta á einn leik af íslenskum handbolta og horfa á tvo af amerískum handbolta. Niðurstaðan er að Íslendingar fara áfram í milliriðil á evópumótinu og að New England Patriots og New York Giants mætast í Super Bowl í febrúar. Þar höldum við með Tom Brady og Föðurlandsvinunum hans.

Eftir þennan íþrótta- og veikindadag var það pizza og svefn og í nótt fengum við svo fjórðu brunabjölluna á fimm dögum. Þurftum að stökkva í föt, grípa tölvurnar og vegabréfin og hlaupa niður 10 hæðir til þess að horfa á slökkviliðið koma og fara einusinni enn.

Ég held að sökkviliðsmennirnir hafi þó verið töluvert pirraðri en við, þeir þurftu að stökkva frammúr og í stígvél, búning, hjálm og reykköfunargalla og grípa svo með sér axir og kúbein þegar þeir hoppuðu uppí trukkinn til þess eins að standa með ca. 50 ungmennum í anddyrinu á Cosmo byggingunni.

Dagurinn í dag er hinsvegar stjórnmála- og veikindadagur. Erum búin að skemmta okkur vel yfir svikamyllunni í borgarstjórninni, fatakaupum framsóknarmanna og svo í kvöld er debat á CNN á milli frambjóðenda demókrataflokksins hérna í BNA.

Gífurleg spenna þessa dagana!

fimmtudagur, 17. janúar 2008

"Hvað er að frétta?"

Í dag fórum við á listasafn (kemur á óvart!). Reyndar önnur tilraun við þetta tiltekna safn, sem heitir de Young, en á sunnudaginn var snérum við við í innganginum vegna fjölda barna sem var á leiðinni inn. Gengum í staðinn Golden Gate Park á enda, alveg niður að kyrrahafinu.

Reyndar byrjuðum við daginn í japönskum lystigarði við hliðina á safninu. Vorum komin þangað klukkan 9 í morgun því það er frítt á þeim tíma á miðvikudögum. Kannski var aðal ástæðan fyrir því að við dröttuðumst svona snemma á lappir sú að herbergisþjónustan var farin að banka á dyrnar okkar til þess að fá að þrífa.

Af því sem var til sýnis á safninu þótti okkur ljósmyndir eftir David "Chim" Seymour, einum af stofnendum Magnum hópsins, áhugaverðastar.
Auk þess voru sýndar aldagamlar styttur og steinhögg frá mið- og suður ameríku, túrkmensk teppi, nýaldarlist og o.fl. o.fl. o.fl.

Eftir safnið brunuðum við í hálfrar aldar gömlum sporvagni niður í Castro, aðal homma- og lesbíuhverfið, til að kíkja á þýskt kvikmyndafestival. Ég held að þetta sé fjórða bíóið sem við prófum hérna í Frisco.

Þriðja bíóið var heimsótt fyrir helgi. Red Vic Movie House er rekið af gömlum hippavinahóp og er svaka kósý. Þar sátum við á afskaplega þægilegum bekkjum, átum popp úr tréskál og horfðum á Darjeeling Limited í annað skiptið.

Í öðrum fréttum get ég sagt ykkur að borgin er undirlögð af MacNördum sem eru að spóka sig á MacWorld ráðstefnunni. Tókum eftir því í gær þegar við heimsóttum Yerba Buena Center for the Arts.
Svo kom Júlía mér á óvart með því að finna opnun á sýningu Kathrine Westerhout. Hún hefur verið að taka myndir í byggingum í Detroit. Frekar flott ljósmyndasýning og eiginlega sú merkilegasta sem við höfum séð hérna í borginni. Klaufinn ég hellti þó næstum fullu rauðvínsglasi á risastóra mynd, ég held að það hafi ekki munað nema u.þ.b. 13 sentimetrum. Það sést kannski á þessarri mynd þar sem ég er að þrífa upp eftir mig. Ég skammaðist mín svo mikið að ég þorði ekki að biðja um meira...

En nú er tími til kominn að klára bjórinn sinn, skella sér á møntvask og spila Puzzle Bubble á meðan fötin snúast sína hringi í þvottavél og þurrkara...

* Tschüss

þriðjudagur, 8. janúar 2008

Hippar, Coen bræðurnir og Gondry

Við höfum verið heldur löt eftir áramótin. Stóðum fyrir partýi í lobbýinu á hostelinu okkar á gamlárskvöld og það vakti mikla lukku meðal flestra íbúa og starfsmanna. Við vorum samt ekkert alltof hress daginn eftir.

Fyrir nokkrum dögum fluttum við svo af hostelinu. Við tókum ákvörðun um að eyða janúar bara öllum hérna í San Francisco og tókum því herbergi á leigu. Húsið sem við búum í núna er ekki nema annað hús frá hostelinu svo það voru auðveldir flutningar.
Ef ykkur langar að senda okkur bréf eða eitthvað annað fallegt þá er addressan:
761 Post St. - # 1004
San Francisco, CA 94109
U.S.A

Við verðum hérna þar til 30. jan.

Svo er náttúrulega búið að vera óveður í Kaliforníu. Við höfum lítið fundið fyrir því fyrir utan smá rigningu síðastliðna daga. Erum búin að vera að reyna að nýta tímann í að skoða söfn og bókabúðir, prófa ný kaffihús og sitja fyrir framan sjónvarpið heima að fylgjast með æsispennandi forsetaefnis forkosningunum.
Við styðjum bæði demókratana en þó sitthvort frambjóðandann. Leikar æsast því lengra sem líður á mánuðinn en við missum samt af "Super Duper Tuesday" þann 5. febrúar, lokadegi forvalsins þar sem meginþorri fylkjanna halda forvöl, vegna þess að við verðum komin til DK á þeim tímapunkti.

(Hillary Clinton og Barack Obama spjalla um fríðindi þess að vera forseti BNA)

Á milli kosninga og kaffis er svo yfirleitt stíf dagskrá. Á sunnudaginn kíktum við á Cartoon Art Museum að skoða allskonar skemmtilegar teikningar og ramma úr gömlum teiknimyndum. í gær löbbuðum við upp í Haight, sem er hverfið þar sem hipparnir söfnuðust saman árið '67. Þar skoðuðum við fullt af second hand búðum, borðuðum eggjaköku, skoðuðum plötubúðina Amoeba og sögðum nei takk við gamlan hippa sem bauð okkur LSD.
Við þurftum þó að vera komin snemma heim því að við vorum búin að ákveða að fara á fyrirlestur í Apple búðinni sem er nokkrum götum frá okkur. Hann Michel Gondry kom nefnilega til þess að segja okkur frá framleiðslu nýjustu myndar sinnar, Be Kind Rewind og sýna okkur brot úr henni. Svo mætti annar aðalleikarinn óvænt en það er hann Mos Def. Þeir vissu ekki hvor af öðrum hérna í borginni en gistu víst á sama hótelinu. Mos Def var á leiðinni útá flugvöll þegar hann rakst á Gondry og ákvað að taka seinna flug til að koma að spjalla við okkur.
Þessi uppákoma var alveg þess virði að bíða í tvo tíma í röð fyrir utan búðina, sérstaklega vegna þess að við vorum framarlega og fengum sæti þegar við komum inn.
Við urðum samt fyrir smá áreiti af heimilislausum manni sem bað okkur um klink. Þegar við neituðum honum um það þá öskraði hann á stelpuna fyrir framan okkur: "Come on! You know what year it is? It's 2008! Come on, give me a dollar!"
Við veltum því fyrir okkur hvort að hann hafi alltíeinu fattað hvaða ár er, áttað sig á því að það er verðbólga í landinu og því hækkað kröfurnar úr smápeningum í heilan dal?

(Michel Gondry, Susan Gerhard og Mos Def spjalla um Be Kind Rewind)

Við fórum líka í bíó um daginn að sjá nýju Coen bræðra myndina, No Country for Old Men. Líklega besta mynd sem ég sé á þessu nýja ári, fyrir utan kannski ofarnefnda Gondry mynd. Farið að sjá þær báðar við fyrsta tækifæri.

(Bræðurnir Ethan og Joel Coen spjalla um No Country for Old Men)

En nú þarf ég að hætta því forvalið í New Hampshire er að byrja og ég þarf að horfa á CNN í nokkra klukkutíma. Og kannski panta eina Brooklyn Style frá Dominos í gegnum netið...