laugardagur, 28. febrúar 2009

Malmö

Þá erum við hjónin komin heim úr fyrstu utanlandsferð ársins. Skruppum í dagstúr yfir Øresund, nánar tiltekið til Malmö.
Til þess að komast þangað tökum við sömu lest og þegar ég fer í skólann. Eini munurinn er að maður fer út þremur stöðvum síðar (ca. 12 mínútum lengri ferð). Það væri í raun fljótlegra fyrir mig að fara til Malmö en í skólann því að ég tek strætó frá lestarstöðinni að skólanum og sá strætó er yfirleitt korteri of seinn á morgnana.

Um leið og við komum til Útlandsins skelltum við okkur á hinn margverðlaunaða veitingastað Moosehead við Lilla Torg. Það tók okkur þó smá stund að átta okkur á því hvernig staður þetta væri því að hann stendur við lítið gamalt torg, er innréttaður sem skemmtistaður, býður uppá knattspyrnu í beinni útsendingu og á matseðlinum eru ýmsir tælenskir réttir í bland við hamborgara úr elgskjöti. Svo virtist einnig sem að kúnnahópurinn væru einungis Danir. Furðulegur staður. Við fengum okkur borgara.

Eftir matinn kíktum við í tvær-þrjár búðir. Þá áttuðum við okkur á því að meirihluti fólksins í miðbænum væru Baunar í sjoppingleiðangri. Og það var sko ekki fátt fólk í bænum.
Þar sem við erum nú ekki hörðustu aðdáendur þeirra "Rauðu-og-Hvítu" flúðum við inní næsta listgallerý. Þar fær maður yfirleitt frið fyrir þeim.
Okkur til mikillar ánægju var gallerýið að opna ljósmyndasýningu. Þegar við höfðum litið yfir ósköpin (og drukkið pínu hvítvín) komumst við að því að í dag var að opna okkur áður óþekkti Skánar Fotobiennal. Og við glöddumst.
Nú höfðum við sko úr hvorki meira né minna en 34 ljósmyndasýningum að velja í þessarri stuttu heimsókn yfir Sundið.

Þá hófst mikill ratleikur um borgina að grafa upp hin ýmsu gallerý og verslanir sem buðu uppá sýningar. Enduðum svo á hinu frábæra listasafni Malmö Konsthall. Sáum margt skemmtilegt og margt skrítið.
Mæli með Malmö.

Þegar við komum heim rakst ég svo á þessa síðu á netinu og óskaði þess að ég hefði fæðst u.þ.b. 20 árum fyrr svo að ég hefði getað lært að vera alvöru ljósmyndari. Finnst frekar leiðinlegt að filman sé að deyja.

Bið að heilsa í bili.

sunnudagur, 22. febrúar 2009

Video

Nú þegar Óskarsverðlaunin eru á næsta leiti þá þótti okkur við hæfi í gær að kynna okkur nokkrar tilnefndar myndir.

Gott að taka svona bíó- og videodag annað slagið. Mæli sérstaklega með Waltz with Bashir og þá helst að njóta hennar í faðmi flugvélasætanna í huggulegum sal Vester Vov Vov.

þriðjudagur, 10. febrúar 2009

Afmælishelgi

Ég átti afmæli síðasta föstudag. Bauð vinum og bekkjarfélögum heim í heimabakaðar pizzur. Rosa fjör. Leynigestur lét sjá sig. Dansinn dunaði. Skóför fundust á stólum daginn eftir. Enduðum á Café Bryggeriet sem er næsta knæpa. Þar er karaoke sem við nýttum okkur. Lagalistinn innihélt m.a. Carrie, Bohemian Rhapsody og Happy Birthday í útgáfu Stevie Wonder. Ekki amalegt það.


Laugardagurinn var ekki jafn ljúfur, allavega ekki fyrir kvöldmat. Skaust þó í bíó með Óla og Sigrid um kvöldið. Fórum í Vester Vov Vov að sjá hina geysiáhugaverðu "Låt den rätte komma in", sem er sænsk vampírumynd. Kíktum síðan við á Konya Kebab, sem er ekki af verra taginu. Mæli með shawarma dürüm uden løg. Gaman að hitta Óla og Sigrid, en það gerist alltof sjaldan því að hann býr í Prag og hún býr í Viborg. Á milli þeirra eru ca. 781 km.

Sunnudagurinn fór í tiltekt, auk þess sem við kíktum í Statens Museum for Kunst. Þar lentum við óvænt inní síðasta atriði Vinterjazz hátíðarinnar, tríó Jacobs Fischer. Þeir félagar stóðu fyrir sínu og við fórum hæstánægð heim þar sem við enduðum helgina á videokvöldi.

Í dag notaði ég svo fyrsta hluta afmælisgjafarinnar frá eiginkonunni. Bauð henni með mér á tónleika með Islands á Lille Vega. Hlakka til næsta hluta, helgarferð til Prag þann 12. mars. Þriðji og síðasti hlutinn verður svo The Whitest Boy Alive á Store Vega þann 25. apríl!

Takk fyrir allar afmæliskveðjur og -hugskeyti.

þriðjudagur, 3. febrúar 2009

"Okay, campers, rise and shine, and don't forget your booties 'cause it's cooooold out there today."

Í tilefni af því að 2. febrúar er Groundhog Day eyddum við hluta gærkvöldsins í að horfa á samnefnda bíómynd með Bill Murray í aðalhlutverki. Því fylgdi að vanda mikill hlátur, en afleiðingarnar eru þó þær að við erum bæði með "I Got You Babe" á heilanum, sem getur varla talist mikill kostur.

Annars virðist febrúar ekki ætla að brydda uppá neinu nýju, endurtekið efni frá janúar, svipað og endurteknir Múrmeldýrsdagar. Meðal þessa eru viðvarandi flensa Júlíu, vikuleg skil í skólanum, þvottahúsið á föstudögum og óþolandi grár vetrarhiminn dag eftir dag.
Veturinn er þó ekki alslæmur því að honum fylgir stóraukin rauðvínsneysla, kertaljós og nokkur baksturskvöld.

Kveðja úr Baunalandi

p.s. Var að bæta við smá uppskriftadálk sem má finna
<--- hér til hliðar.