mánudagur, 31. desember 2007

Gleðilegt nýtt ár!!! NB: Löööng færsla. Ársuppgjör!

(það er önnur færsla fyrir neðan sem þið eigið líklega eftir að lesa líka ;)

Nýja árið byrjar í miðju ferðalagi en ég býst samt ekki við því að það verði jafn mikið flakk árið 2008 og er búið að vera þetta síðastliðna ár.

Á nýársdag 2007 flaug ég skítþunnur heim til Danmerkur eftir vel heppnaða jólareisu til Íslands. Fyrstu fimm vikum ársins eyddi ég í skólanum og í að flytja með Óla, Sigga T og Kolbrúnu í nýja íbúð en 9. feb. flaug ég svo, nýorðinn kvartaldargamall, til Bangkok með tveggja daga viðkomu hjá Diðrik í Tokyo.

Í Bangkok hitti ég svo Egil og Hildi og skoðaði með þeim menningu, hof og strendur Thailands og Kambodíu í þrjár vikur. Rákumst svo óvænt á Daða og Ástu inni á frekar sóðalegu internet kaffi í höfuðborg Kambodíu og þau slógust í för með okkur. Frekar ljúft allt saman.
Ég held að það minnisstæðasta frá þessu ferðalagi hafi samt verið 6 tíma leigubílaferðin frá landamærunum til Siem Reap á skrjáfþurrum moldarvegi í sól og logni með ótrúlega mikilli trukkaumferð og frammúrakstri og 3 metra skyggni á köflum. Að sitja vinstramegin frammí í hægrihandar umferð við þessar aðstæður er svolítið taugatrekkjandi. Fyrirgefið mamma og pabbi að mér finnist gaman að ferðast svona...

(Hildur og Egill í Kambódíu)

Flaug svo aftur frá Bangkok til Tokyo og eyddi viku hjá Diðrik, en þá var Gummi kominn yfir hnöttinn líka og við þrír áttum góðar karaoke-, sushi- og dótabúðastundir saman. Diðrik bjó í ca. 11 fermetra íbúð með baðherbergi sem líktist helst flugvélarklósetti með sturtu. Við Gummi vorum með sitthvora dýnuna og tókum allt gólfplássið sem eftir var, ég svaf t.d. á ganginum fyrir framan þetta forláta heilsteypta plastklósettsturtuvasksjúnit. Afskaplega kósý og innilegt allt saman. Takk kærlega fyrir gistinguna Diðrik, þetta var einstakt!
(Gummi, ég og Diðrik í Tokyo)

Eftir Tokyo var það svo vika í kaffihúsa- og safnahangsi í París. Hitti Kötlu þar í Evrópuaðlögunarviku áður en ég fór heim til Køben í vinnu og allt það.
(Katla í París)

Í DK beið mín glæný íbúð, sem að Siggi og Óli voru búnir að gera frekar heimilislega, og glæný vinna. Skrítið að koma heim úr svona löngu ferðalagi og beint í nýtt líf. Og líka frekar skrítið að búa og vinna með sömu góðu vinunum. Einhvernvegin gekk það samt með afar litlum pirringi og við skemmtum okkur nú yfirleitt frekar vel saman.
(Siggi, Óli og Kolbrún á Ben Websters Vej)

Um páskana tók ég Íslandsreisu til þess að pakka öllu dótinu mínu á Spítalastígnum því að M&P voru búin að kaupa hús í Hafnarfirðinum. Man ekki betur en að ég hafi farið næstum beint á flugvöllinn af Sirkus klukkan 5 á aðfaranótt annars í páskum.
Af hverju enda allar ferðir til Íslands svona?

Í maí skrapp ég í sólarhrings vinnuferð með Óskari til Þýskalands.
Stuttu síðar kíktu M&P í heimsókn til DK og við skutumst í fjölskylduferð til Svíþjóðar að kíkja á ættingja. Skemmtilegur rigningargöngutúr í miðbæ Gautaborgar með viðkomu í listasafninu stendur uppúr.
Viku seinna var ég svo kominn í helgarferð til Íslands í kvartaldarafmælisveislu hjá Didda. Þau Kata með barn og nýja íbúð. Allt að gerast þar. Til hamingju með það!

Í Júní rigndi mikið í Køben eftir frekar gott vor. Einn af þessum rigningardögum hélt hann Bibbi Brók skólafélagi minn og vinur frekar skemmtilegt útifestival. Í miðjum skóginum í Amager Fælled fann ég hann og alla þrjá gestina sem voru mættir. Nokkrum klukkutímum síðar var stytt upp og Bibbi Bróks Jungle Festival virkilega komið í gang. Og einn af þessum tugum gesta var mjög skemmtileg stelpa sem er næstum jafn skrítin og ég.
(Bibbi Brók og fyrstu gestir á Bibba Bróks Jungle Festival)

Þessarri skemmtilegu stelpu fór ég svo með á annað festival (Trailer Park Fesitval) helgina eftir ásamt því að baka pönnukökur í skírnarfögnuðinum hennar til heiðurs Isabellu Henriettu Ingridar Margrethe prinsessu af Danmörk.
Júlía er nefnilega frekar mikið fyrir dönsku konungsfjölskylduna.

Rómantísk safn/sushi Malmø dagsferð og þriðja festivalið (Roskilde Festival) okkar Júlíu á þremur helgum einni viku síðar.
(Ég og Júlía á Roskilde Festival)

Enn ein Íslandsförin var í júlí. Þá eyddi ég viku á landinu góða. Fór í árlega útilegu í Brynjudalinn, keyrði á Strandir með Jónasi og Þorbirni, skrapp í ársafmæli hjá Vilhelm Namasyni, tók góða göngu með Agli og Atla og lenti í óvæntu brúðkaupi hjá Gunna frænda og Maju.
(Egill í göngu)

Í ágúst fór ég í helgarmenningarreisu til Íslands á Menningarnótt í Reykjavík. Sorry allir þeir sem ég hitti ekki þar. Ég var upptekinn!

Í byrjun sept. fór Júlía til Calgary og ég var heimilislaus eftir að við strákarnir sögðum upp íbúðinni. Ég fékk að gista hjá Kobba og Sóley (TAKK!!!) og Ingu Rún og Braga (TAKK!!!) og í byrjun okt. var ég kominn til Kanada líka. Þar er okkar fyrsta íbúð og við fórum í gönguferðir um Klettafjöll, heimsóttum Dave (interrail félaga okkar Óla) og skoðuðum olíufylkið Alberta auk þess að taka vikuferð til Vancouver, æfa krullu, spila squash og renna okkur í bobsleða.
(Ég er farinn að halda að Júlía sé atvinnukona í squash því hún vinnur mig alltaf!)

Í lok bissnessskóla annarinnar stigum við svo uppí Greyhound rútu og keyrðum í 42 tíma alla leið til San Francisco þar sem erum búin að vera um jól og áramót og ætlum að eyða fyrsta mánuði ársins sem er að hefjast.

Allt í allt þá tel ég 17 flug á þessu ári og yfir 100 klukkustundir í rútum.

Takk kærlega fyrir síðasta árið og þau sem á undan komu allir mínir frábæru ferðafélagar, vinir og fjölskylda... þið vitið hver þið eruð!

Og ég dáist að ykkur sem nenntuð að lesa þetta allt! Ef þið hafið einhverju við að bæta þá endilega hendið því inn í komment. Ég get ekki munað allt sem skeður á svona viðburðaríku ári...

Fog City

Á Íslandi eru jólin hátíð ljóss og friðar en við ákváðum að jólin okkar í "The Sunshine State" yrðu að japönskum sið. Þar í landi fíla þeir virkilega þessa miklu verslunarhátíð en jóladagur er samt aðallega til þess að fara á stefnumót. Og þar sem við vorum spurð um daginn hversu lengi við værum búin að deita þá ákváðum við að fara út á deit að borða sushi á jóladag, að japönskum sið.
Við urðum líka afskaplega hissa þegar við skoðuðum matseðilinn hjá Sushi BOOM! og sáum að þeir bjóða uppá djúpsteikta Kaliforníurúllu og urðum að prufa það.
Sushi uppgötvun ársins! Og ekki seinna vænna, árið alveg að verða búið.

Í tilefni af því (og í framhaldi af japanska jólaþemanu) fórum við í dag á Asian Art Museum að hringja inn japanska nýárið. Þar var múgur og margmenni í röð að bíða eftir að banka trédrumb í risastóra bjöllu. Við ákváðum að þetta fólk væri mun betur fallið til þess að hringja inn nýtt ár og að bíða í röð svo við skoðuðum bara safnið í rólegheitum í staðinn. Stórglæsilegt safn sem sýnir menningarsögu Asíu eftir menningarsvæðum. Í lobbíinu voru svo listamunkar frá Tíbet að stunda iðju sína. Afar ljúf menningarbomba.
Eftir á smökkuðum við langþráð Eggs Benedict (sem er yfirleitt einungis boðið uppá um helgar) og sáum rottu hlaupa inní eitt af flottustu Viktoríu húsunum í borginni.

(Munkur málar mynd og Júlía borðar Eggs Benedict)

Annars erum við búin að vera nýta tímann á milli jóla og nýárs í að skoða menningarflóruna í borginni en auk Asíusafnsins kíktum við á Craft+Design safnið, þar sem voru til sýnis ljósmyndir af listamönnum á San Francisco svæðinu auk verka eftir sömu listamenn, og vörðum svo hálfum degi á SFMOMA þar sem Ólafur Elíasson er aðal númerið með tvær sýningar og Jeff Wall var með hálfa hæð undir risastórar baklýstar ljósmyndir auk þess að safnið er með frekar flott kolleksjón til sýnis.
Svo leiðist okkur nú ekki að skoða útgáfu annarra í safnverslununum og kannski splæsa í eitt eða tvö póstkort.

Við fórum líka í svaka hjólatúr yfir Golden Gate brúnna og yfir til Sausalito og ferjuna þaðan til baka yfir flóann. Eftir þessa miklu hreyfingu komum við dauðþreytt heim á hostelið og fórum þaðan beint í pöbbarölt með öðrum íbúum og einum starfsmanni. Enduðum dansandi full og örugglega mjög skemmtileg.

Og svo ættu ljósmyndaferils hjólin að fara að rúlla. Ég er búinn að vera að sanka að mér tækjum og vitneskju síðustu árin en í gær tók ég stórt skref í átt að frægð og frama þegar ég keypti mér mínar fyrstu flauelsbuxur í 15-20 ár.
Ef að þið sjáið mig svo með axlabönd þá ætti að vera orðið stutt í að það hangi myndir eftir mig á veggjum einhvers temmilega virts sýningarrýmis.

þriðjudagur, 25. desember 2007

Gleðilega hátíð.

Gleðileg jól kæru lesendur og takk fyrir öll kommentin á liðnu ári.

San Francisco jól eru skrítin en góð. Byrjuðum aðfangadag snemma á skæpinu, hringdum á Eyrarbakka, Flateyri og í Hafnarfjörð. Um það bil sem við skelltum á var verið að hringja inn jólin á Íslandi en hér var klukkan bara 10 um morgun og við þutum með leigubíl í óperuhúsið á balletsýningu á Hnotubrjótnum hans Helga Tómassonar (með smá aðstoð frá Tchaikovsky og San Francisco ballettinum).
Eftir dásamlegt show kíktum við í bæinn á jólaösina við Union Square en þreyttumst fljótt á því og þurftum að leggja okkur á hostelinu fyrir jólasteikina.

Á slaginu 6:38 PM á Kalifornískum tíma var kallað í mat í kjallaranum á gistiheimilinu og allir gestir og starfsfólk settust saman að snæðingi. Matseðillinn hljómaði uppá svínakjöt, kartöflumús, gular baunir, aspars og bjórgnægð.
Eftir þessa ljúfu matarveislu var svo sest við barinn og skálað í kampavíni.
Áður en langt um leið var svo tekin ákvörðun um að skella sér á karaoke bar. Skipulagðir Svíar smöluðu hópnum í 5 leigubíla en þegar við komum á áfangastað var auðvitað harðlokað. Leigubílstjórarnir kepptust við að finna aðra bari fyrir okkur en allt kom fyrir ekki, við enduðum aftur á hostelinu 20 mínútum og 20 dölum síðar. Þar settumst við aftur á barinn og spjölluðum við þennan alþjóðlega skríl langt fram á nótt.

Annars er búið að vera afskaplega ljúft hérna í borginni við flóann. Við fengum 4 tíma leiðsögutúr um borgina á öðrum degi. Hún Diane sem stjórnaði því flutti hingað frá New York fyrir átta mánuðum. Íbúðin hennar var ekki tilbúin þegar hún kom svo hún fór á hostel, þótti það svo gott að hún sagði upp íbúðinni og býr hérna ennþá.
Með henni fórum við upp og niður nokkrar hæðir, í gegnum litlu Ítalíu, snæddum á Caffe Trieste þar sem Francis Ford Coppola sat löngum stundum og breytti bókinni um Guðfaðirinn í kvikmyndahandrit, lærðum um "beat" kynslóðina á The Beat Museum, röltum um húsasund Kínahverfisins, smökkuðum á framleiðslunni hjá Golden Gate Fortune Cookie Factory og skoðuðum rándýr listaverk í töff galleríum.

Afskaplega afslappað eftir 42 tíma rútuferð frá Calgary með viðkomu í Vancouver, Seattle, Portland og Sacramento, í samfloti með móðursjúkum og skapstyggum mæðrum, húsmæðrum á leið til Las Vegas, konu sem nýtti tímann í að læra spænsku og æfa sig á fiðlu og dularfullum Seattle búa á leið til Tijuana með einungis stál skjalatösku.

Núna liggjum við uppí rúmi og erum að narta í jólamat... örbylgjupopp, súkkulaðikex og kók í dós, alltsaman úr sjálfsala þar sem allt er lokað.

miðvikudagur, 19. desember 2007

Bitter Sweet Calgary

Topp 5

1. - Calgary Curling Club:
Klúbburinn þar sem ástríðan kviknaði. Og besti bar bæjarins.

2. - Beano Caffe:
Eina kaffihúsið í borginni sem afgreiðir kaffi í bollum en ekki pappaglösum. Frekar næs staður líka.

3. - The Plaza:
Í miðju Kensington. Einn salur. Stórskrýtið starfsfólk. Halloween sýning á Rocky Horror Picture Show. Frábært bíó!

4. - Canada Olympic Park:
20 mín. í lest og 20 mín. í strætó frá miðbænum. Kíktu á skíði eða bretti í brekkunum, skelltu þér á skíðastökksæfingu eða bara beint í adrenalínbombuna sem bobsleðabrautin býður uppá.

5. -
Shaw Internet:
Við höfum hvorugt kynnst annarri eins þjónustu. Fengum fyrsta mánuðinn frítt og svo 35 dalir á mánuði eftir það. Sendum þeim svo e-mail með viku fyrirvara um að við vildum segja þjónustunni upp. Fengum ekkert svar, en þegar við fórum niðrá aðalskrifstofu til þeirra, skjálfandi með næsta reikning í höndunum og tilbúin að grátbiðja þá um að rukka okkur ekki fyrir febrúar, mars og apríl líka, sagði afgreiðslustúlkan okkur að skilaboðin hefðu komist til skila og þjónustan yrði aftengd þann dag sem við höfðum beðið um. Einnig sagði hún okkur að þeir skulduðu okkur peninga fyrir þessa 12 daga sem væru eftir af mánuðinum og að við gætum skilað módeminu þegar við værum búin að nota það og fengið 20 dali fyrir.
3 mánuða þjónusta, fyrsti mánuðurinn frír, síðasta hálfi mánuðurinn endurgreiddur og 20 dalir til baka fyrir módemið. Enduðum með að borga 35 dali fyrir 3 mánuði. Ég sæji það gerast hjá TDC, Cybercity, Símanum eða Vodafone.


Botn 5

1. - +15 walkways:
Göngubrúakerfið sem tengir allar byggingarnar í miðbænum. Fengum okkur göngutúr um það um daginn. Fundum allt fólkið sem ætti að vera úti á götu í miðbænum. Þurrt loftræstiandrúmsloft sem svíður í augun, milljón Starbucks™, ennþá fleiri tannlæknastofur og í raun ekkert annað en stærsta verslunarmiðstöð sem ég hef komið í!

2. - Skemmtanalífið:
Við höfum nokkrum sinnum reynt að fara á bari. Þeir sýna allir sem einn hokkí hverja einustu sekúndu af opnunartímanum. Við reyndum líka að komast inn á klúbb til þess að halda uppá próflok með bekknum hennar Júlíu. Okkur var vísað frá vegna þess að ég var í strigaskóm (NB kolsvörtum adidas).

3. - Bílastæðahús:
Það vinna næstum allir borgarbúar í miðbænum. Það býr hinsvegar næstum enginn þar og afar lítill hluti notar almenningssamgöngur. Þ.a.l. sjást bílastæðahús hvert sem maður lítur.

4. - Mannlífið:
Heimilislaus eða Olíubarón. Ekkert þar á milli.

5. Stórskjás Jólasveinar:
Við fórum í dýragarðinn um daginn. Þar var risastórskjár þar sem Jólasveinninn var í beinni og spjallaði við krakkana. Karen vinkona okkar heldur að þetta sé afar ruglandi fyrir barnaskarann því að það viti öll börn að Jólasveinninn eigi heima í verslunarmiðstöðinni en ekki í dýragarðinum. Við höldum að hann sé bara afar tæknivæddur og noti Skype til þess að netspjalla við skrílinn beint frá Smáralind með hjálp Shaw Internet.

mánudagur, 17. desember 2007

Canada Olympic Park

Calgary Bobsleigh Track:
Length: 1475m
Maximum Grade: 15%
Vertical Drop: 121.2m
Average Grade: 8.6%
Maximum G Force: 4.5G





Track Record:

53.50 sec Andre Lang/ Rene Hoppe/ Kevin Kuske/ Thomas Poege GER Nov 22/03
53.50 sec Pierre Lueders/ Giulio Zardo/ Ken Kotyk/ Al Hough CAN Nov 22/03

Okkar Tími:
59.97 sec (mesti hraði 124.5 km/klst)



Afleiðing:



Myndir:
Hér

fimmtudagur, 13. desember 2007

7 dagar

Þá er bara vika þangað til að við leggjum í hann til San Francisco. Við erum búin að fá pössun fyrir ferðatöskurnar okkar í einn og hálfan mánuð en bakpokarnir fá að koma með til Kaliforníu.

Þótt ótrúlegt megi virðast þá eigum við eftir að gera slatta í Calgary. Við erum búin að ákveða að taka okkur göngutúr um einhvern hluta þessum 16 km sem +15 kerfið spannar og tengir flest allar byggingarnar í miðbænum.
Einnig ætlum við að kíkja í Ólympíu garðinn að skoða skíðastökkpalla og bobsleðabrautina frægu, leika okkur aðeins í Childrens Creative Museum, borða Serious Steak á Chicago Chophouse, koma við í bókabúðunum Pages og Wee Book Inn, fá okkur kaffi og taka myndir á Beano (uppáhalds kaffihúsinu okkar), taka lokapróf í krullunni, kíkja í bíó á The Plaza og fá okkur bjór á slökkviliðsstöð sem hefur verið breytt í bar.

Við fórum í bíó um daginn að sjá nýju Wes Anderson myndina, The Darjeeling Limited, og vorum afar sátt við hana. Júlía hafði aldrei séð neitt frá honum Wes áður og heimtaði meira svo að við horfðum á The Life Aquatic kvöldið eftir. Hún svaf yfir fyrri helmingnum af henni þannig að hún var ekki alveg jafn hrifin og eftir bíóferðina.

Í dag las ég Leyndarmálið hans Pabba sem mamma og pabbi voru svo elskuleg að senda okkur. Frekar skemmtileg og flott myndskreytt bók eftir Þórarinn Leifsson. Ábyggilega Nóbelsverðlauna efni eins og bókin sem ég byrjaði á strax á eftir, Snow Country eftir Yasunari Kawabata. Diðrik heldur ekki vatni yfir henni þannig að ég verð víst að kíkja á hana.
Annars eru allar hirslur að fyllast af bókum á litla heimilinu okkar, ég held að það liggji þrjár eða fjórar á náttborðinu eins og er. Júlía les ekkert annað en skólabækur þessa dagana en ég er að hamast við að klára eitthvað af þessu áður en við skjótumst suður í sæluna með hinum farfuglunum.

sunnudagur, 9. desember 2007

Krulludagurinn mikli...

var í gær. Við mættum á tveggja tíma æfingu um fimm leytið og í lok hennar fengum við mikið hrós fyrir framfarirnar. Strákaliðið vann aftur en Júlía var 2 cm frá því að stela sigrinum með síðasta steininum.
Svo skelltum við okkur á krullubarinn í bjór og burger með nokkrum samnemendum, þeim Lauru, Ron og Vicki.

Laura þurfti samt að fara snemma því að hún átti eftir að kaupa jólakalkúninn og gjafakort í verslunarmiðstöðina handa börnunum sínum í jólagjöf (krakkarnir fara svo kl. 7 á annan í jólum og versla frá sér allt vit) og ætlaði að gera það áður en hún skellti sér í háttinn. Hún þurfti nefnilega að vakna klukkan 6 til að bera út póst. Hún er búin að vinna hjá póstinum í 30 ár (frá því að hún var 18 ára) og stefnir á að fara á eftirlaun eftir 2 ár.

Ron og Vicki eru hinsvegar um 60-65 ára og vinna af fullum krafti, Ron var meira að segja að tala um að fara í póstútburðinn þegar að hann fer á eftirlaun.
Þau eru á því að litlu ákvarðanirnar í lífinu skipti mestu máli, þau hittust nefnilega í rútu í Tyrklandi fyrir 20 árum og þar sem þau voru eina einhleypa fólkið í rútunni þá settust þau náttúrulega saman og voru gift ári síðar.

Eftir kvöldmat og könnu af bjór tókum við Júlía svo að okkur International Extreme krullukennslu fyrir Anders og Morten (danska bissnessskólafélaga) og þrettán vini þeirra af ýmsum þjóðernum. Sannkallað crash course þar sem við sýndum alla okkar þriggja vikna reynslu á innan við 10 mín.
Það skilaði misjöfnum árangri (ein stelpan rak kúst í höfuðið á annarri, smá hluti af ísnum brotnaði o.fl.) en flestir virtust skemmta sér vel við að renna steinum og sópa ís, og greinilega nokkrir óslípaðir demantar í þessum hóp.

Eftir krulluna tróð allur hópurinn sér inní tvo bíla og keyrt að næsta bar.

Myndir hér!

þriðjudagur, 4. desember 2007

Leiðinlegasta borg sem ég hef búið í.

Nokkrar staðreyndir um Calgary, Alberta:

- Meðal hitastig yfir árið er 3.6°C miðað við síðustu 1276 mánuði, eða frá því árið 1881.

- Við höfum einungis fundið eitt kaffihús sem serverar kaffi í bollum en ekki pappaglösum.

- Flest störf í borginni eru í sambandi við olíu- eða gasiðnaðinn. Það eru yfir 800 olíufyrirtæki hérna.

- Borgin er á tímabeltinu GMT -7 sem þýðir að við erum 7 tímum á eftir London og 8 tímum á undan Köben/Berlín/Barcelona/Milano/...

- Á meðal laugardagsgöngutúr útí krulluhöll rekumst við yfirleitt ekki á fleiri en svona 5 manns á gangi (ef ekki eru taldir verkamenn sem eru að byggja háhýsi). Þess má geta að við göngum í gegnum allan miðbæinn eða u.þ.b. 14 blocks norður og 3 blocks austur.

- Það er hægt að ganga innanhús á milli flestra bygginga í miðbænum í gegnum svokölluð +15 gögn sem eru 15 fetum yfir götunum. Þessi göng spanna 16 km og tengja meira en 100 byggingar. Þau eru meðal efnis kvikmyndarinnar WayDownTown, sem gerist í Calgary og fjallar um skrifstofufólk sem lifir í umhverfi þar sem sjaldan þarf að fara út og í stað þess hrærist það í flúrosent birtu, loftræstingarlofti og matarvöllum ("food court", eins og Stjörnutorg, sko). Við höfum ekki ennþá séð þessa mynd en hún virðist vera algjört möst.

- Verslunarmiðstöðvar loka um 7 að kvöldi á sunnudögum í Calgary. Það þykir lítill opnunartími í þessarri heimsálfu.

- Áður en ólympíuleikarnir voru haldnir hérna árið 1988 þá var borgin þekktust fyrir The Calgary Stampede. Það er 10 daga rodeo festival sem er haldið ár hvert, byrjar í annari vikunni í júlí og kallar sjálft sig " The Greatest Outdoor Show on Earth". Þeir eru ekkert að skafa utanaf því hérna í Calgary.

- Í borginni búa u.þ.b. 1.2 milljón manns. Þar af eru 15.500 manns af dönskum ættum. Dansk-Kanadíski klúbburinn í Calgary er staðsettur tveimur götum frá okkur.

- Í miðbænum eru 47.000 bílastæði. Af þeim eru 3.000 sem þarf ekki að borga í á sunnudögum. Ég efast samt um að nokkur nýti sér það.

- Owen Hargreaves er fæddur í Calgary 20. janúar árið 1981. Greyið hann.


Þetta er allt sem ég nenni í bili. Þið fáið kannski meira síðar...

sunnudagur, 2. desember 2007

Hver elskar ekki Greyhound?

Við erum búin að ákveða að flýja þessa ísköldu olíuborg. Þannig að ef þú ert búin(n) að kaupa þér flugmiða til okkar og ætlaðir að koma okkur á óvart um jólin þá mæli ég með að þú seljir hann því við verðum ekki heima. Erum búin að segja upp íbúðinni og kaupa okkur rútumiða til San Francisco, ekki nema 42 klst. keyrsla sem hefst þann 19. des. Búumst við að koma aftur til Calgary um 30. jan.

Annars var önnur krulluæfingin í gær. Myndir hér.

Gleðilegan fyrsta sunnudag í aðventu! Ég er farinn að baka smákökur.

föstudagur, 30. nóvember 2007

Squash.... aftur

Júlía rústaði mér í squash... vann báða leikina 3-1. Ég verð nú bara að viðurkenna að ég er ekki góður í þessarri skítugu íþrótt. Samt læt ég alltaf til leiðast að kíkja með henni í skólann og láta rústa mér...

Held að maður ætti að kaupa sér spaða hérna svo ég geti æft mig í laumi og rústað henni einn daginn.

Fórum í útivistarbúð um daginn og langaði að kaupa allt. Það er allt svo ódýrt að maður tapar eiginlega á því að kaupa ekkert. Snjóbuxur, bakpokar, flíspeysur og vesti, fyrstuhjálparsett, prímusar og legghlífar, allt æpir þetta á mann.
Júlía fékk mini-svefnpoka fyrir bakpokaferðalagið í janúar og ég sætti mig við fagurblátt föðurland, því það eru -10°c til -20°c þessa dagana.

þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Krulla

Dave var hjá okkur um helgina. Hann stalst með okkur á fyrstu krulluæfinguna okkar. Við viðurkenndum öll eftir æfinguna að virðing okkar fyrir sportinu snarjókst. Mjög tæknilegt sport og drullu erfitt í alla staði en mjög skemmtilegt. Kíktum síðan á krullubarinn. Vöknuðum ansi stirð daginn eftir (og ekki bara eftir bjórinn). Ætli maður endi ekki í krulludeild Þróttar, sérstaklega ef það er jafn góður og ódýr bar þar.

Verst að við vorum svo upptekin við að halda jafnvægi á ísnum að við gleymdum gjörsamlega að taka myndir. Mæli með að þið kíkjið í staðinn á þetta (og veljið flash animation) til þess að sjá hvað við vorum að læra.

fimmtudagur, 22. nóvember 2007

Pönnukökuboð

Af því að við erum nú með tvo stóla og sæmilegt borð fyrir tvo í íbúðinni okkar þá ákváðum við að sjálfsögðu að bjóða fimm manns í mat, sjö í heildina semsagt. Gestirnir koma í kvöld.
Þetta þýðir að við þurfum að fá lánaða 5 stóla hjá hússtjórninni og auk þess nokkra matardiska og hnífapör. Af því að við ákváðum nú eftirréttinn fyrst, íslenskar pönnukökur, þá fannst okkur við hæfi að hafa aðalréttinn í stíl. Mexíkóskar pönnukökur (tortillas) með allskonar gummsi. Fáránlega gott.

Og já, fyrir þá sem eru að velta því fyrir sér af hverju þetta blogg snýst næstum eingöngu um mat, þá er það vegna þess að ég hef voða lítið annað að skrifa um. Við stöndum sjálf okkur stundum að því að tala um hvað við eigum að hafa í kvöldmat jafnvel áður en við kíkjum á morgunverðinn.

Við fáum reyndar hann Dave, vin minn frá Edmonton, í heimsókn á morgun. Hann ætlar að koma og skoða þessa blessuðu bissnessborg með mér á meðan Júlía liggur yfir skólabókunum og koma svo með okkur á krulluæfingu á laugardaginn. Held reyndar að hann ætli bara að sitja á krullubarnum og hlæja að okkur.
Ætli ég hafi ekki efni í aðra færslu eftir það...

sunnudagur, 18. nóvember 2007

Ferðasaga: 4. og síðasti hluti

11. nóvember ár hvert er Rememberance Day. Þá nælir fólk á sig rauðum gervi blómum, "poppy", til minningar um fallna hermenn og loka fyrri heimstyrjaldarinnar þann 11. nóvember árið 1918.
Við tókum reyndar engann þátt í þessum athöfnum. Fengum okkur bara bestu ostaköku bæjarins með morgunkaffinu á Trees Organic Cafe og skelltum okkur svo á Vancouver Art Gallery. Þar sáum við frekar skemmtilega ljósmyndasýningu eftir Roy Arden, video verk eftir Mark Lewis, málverk eftir Georgiu O'Keeffe og einhverja lókal kúnstnera. Svo var líka svolítið skemmtilegt að hann Roy fékk að velja verk í sýningu úr safni gallerísins.

Eftir þessa hressu menningarbombu borðuðum við svo kínamat á stað sem heitir Oji, röltum í búðir og héngum á Blenz í kaffidrykkju og rommí spilun (Júlía gjörsamlega rústaði mér í spilamennskunni), þar til við fórum á tónleika með Manchester Orchestra og The Annuals á Plaza klúbbnum. Vægast sagt slappir tónleikar. Mikil háskóla angist í gangi hjá meðlimum beggja banda og allir mjög þjakaðir af því að vera ungt fólk. Við stungum af þegar síðara bandið var komið á fjórða lag. Ætluðum að fá okkur crêpes en það var búið að loka búllunni svo við fórum heim í videogláp í staðinn.

Við vöknuðum við slagveður á mánudagsmorgni og aflýstum göngutúrnum upp Grouse Mountain sem við höfðum planað nokkrum dögum áður. Nenntum ekki að ganga tæpa 3Km (með rúmlega 800m hækkun) til þess að blotna inn að skinni og sjá þoku.
Í staðinn skoðuðum við lista og handíða hverfið Granville Island. Ætluðum að skoða Emily Carr Institute of Art and Design sem er staðsettur þar en hann var lokaður vegna Remeberance Day (sem var haldinn deginum áður). Í staðinn fengum við okkur bara að borða og skoðuðum markað þar sem var boðið uppá allskonar fallegt hráefni í hvers kyns mat. Væri alveg til í að geta verslað þar á hverjum degi. Lögðum okkur svo aðeins í afar þægilegum hægindastólum á enn einu kaffihúsinu, með sinn hvorn cappuccinoinn við höndina. Hringdum síðan í pabba, sem átti afmæli. Lenti reyndar í helvíti á jörð þegar ég var að redda klínki í tíkallasímann. Þurfti að fara inní einhvern "Kids Market" sem var ekkert nema dótabúðir og leiktæki fyrir börn. Ég held að mér hafi aldrei liðið jafn illa.

Eftir Granville Island huggulegheitin sigldum við með Aquabus niður í bæ, fengum við okkur langþráðar crêpes, kíktum í Vancover Lookout (þar sem við lærðum meira um Vancouver en við munum nokkruntíman læra um Calgary) og svo borðuðum við á kaiten sushi stað áður en við komum okkur fyrir í Gráhundinum. Þaðan lá leiðin aftur í gegnum Coast Mountains og Rocky Mountains, bæina Kelowna, Salmon Arm, Golden og Banff, tæpir 18 tímar í stappfullri rútu.
Og Júlía rústaði mér enn fremur í rommí á leiðinni.

föstudagur, 16. nóvember 2007

Ferðasaga: 3. hluti - Dim Sum, Burrito, Yakitori

Það var frekar óvænt veður á laugardeginum. Heiður himinn og logn! Vancouver búar voru jafn hissa og við.

Um leið og morgunkaffinu hafði verið kyngt röltum við um Gastown, sem er elsta hverfi borgarinnar, og Chinatown sem er einn sá stærsti í heiminum. Allt þetta hverfi er eins og einn stór markaður. Skrítinn matur í skrítnum krukkum, ferskur fiskur og kjöt og allskonar þurrkað dót. Við keyptum okkur harðfisk. Í hverfinu er einnig fyrsti "authentic" kínverski lystigarðurinn sem var reistur utan Kína. Í þeim garði gæddum við okkur á smá Dim Sum (eggja tertu nánar tiltekið) og skoðuðum stóra fiska synda í hringi í tjörn þar.

Eftir allt þetta Kínahverfis upplifelsi steig Júlía svo í hundaskít á meðan ég var að taka mynd af brunastiga. Svo tókum við EXPO lestina sem er metró kerfið þeirra Vancouveríta og var byggt, eins og svo margt annað, fyrir EXPO sýninguna sem var haldin þar árið 1986.
Lestarferðin var ansi skemmtileg. Við fórum yfir nokkrar stórar brýr og sáum fullt af verslunarmiðstöðvum, iðnaðarhverfum og skrítnum íbúðarhúsum. Stukkum svo út þegar við sáum auglýstan flóamarkað.

Á markaðnum var ansi margt fólk og haugar af allskonar drasli. Við römbuðum á ansi merkilegan karl sem var að selja hluta af stereoscope safninu sínu. Hann sýndi okkur allskonar græjur í kringum það t.d. Kodak Stereo myndavél, fullt af View-Masterum og stereoscope ljósmynd sem hann hafði tekið af Miklagljúfri á tvær vélar með 100 metra millibili.

Þegar við vorum orðin þreytt á markaðsgramsinu fengum við óstjórnlega löngun í mexíkóskan mat. Það var þó ekki hlaupið að því að finna svoleiðis en eftir langa leit fundum við einn lítinn og góðan stað. Júlía var komin í kokteilana eftir ca. 13 sekúndur og stuttu síðar voru bornar á borð fyrir okkur tvær burritos sem vóu u.þ.b. pund hvor.

Eftir matinn og tvö-þrjú hanastél til viðbótar ætluðum við sko aldeilis að finna okkur bar. En í Kanada eru engir barir nema sportbarir. Þeir bjóða hinsvegar uppá nóg af klúbbum en þar sýna þeir yfirleitt líka íshokkí og amerískan handbolta eins og sportbarirnir.
Staðurinn sem við römbuðum inná á endanum er japanskur, með karaoke í stað íþrótta! Þar sátum við og sulluðum í G&T og Sake Latte (eins og hvítur rússi nema sake í stað vodka) á meðan misfærir söngvarar spreyttu sig um allan sal. Ég pantaði mér meira að segja smá kvöldnasl (1 pund af mexíkóskum er greinilega ekki nóg), venjulegt Yakitori og svo Tori Hatsu (grilluð kjúklingahjörtu) á teinum.
Held að Diðrik sé ánægður með mig núna...

fimmtudagur, 15. nóvember 2007

Ferðasaga: 2. hluti - Nektarströnd og hvítrússar

Eftir að Júlía var búin að fara í ÍSkalda sturtu, og ég í vel heita og góða, röltum við upp tvær "blocks" til að smakka besta kaffi í Vancouver (að mati einhvers blaðs sem ég man ekki hvað heitir) hjá Mario's Coffee Express Ltd. Hann Mario tók sjálfur á móti okkur og skellti í tvo stóra cappuccino. Eftir það vorum við fær í flestan sjó.
Við ákváðum að kíkja á UBC, skólann sem neitaði Júlíu um inngöngu, og röltum til baka að hostelinu til að taka UBC strætóinn sem við höfðum séð þar. Þegar við vorum búin að sitja í strætó í smá stund þá renndi hann náttúrulega framhjá Mario's og stoppaði hinumegin við götuna.

University of British Colombia er RISAstór - u.þ.b. 50.000 nemendur. Við löbbuðum aðeins í gegnum campusinn, kíktum á sundhöllina (bæði karla- og kvennasveitir UBC Dolphins hafa verið háskólameistarar Kanada síðan ég veit ekki hvað) og stúdentafélags bygginguna.
Svo röltum við niður á strönd, að Kyrrahafinu, í gegnum hálfgerðan regnskóg sem er staðsettur þarna við skólann. Eftir góðan göngutúr þar komumst við að því að þetta var nektarströnd. Sem betur fer var enginn þarna til að reka okkur úr spjörunum.

Eftir góðan háskólafílíng kíktum við svo á West 4th Avenue sem við höfðum spottað á leiðinni. Þar splæstum við í frekar góðar núðlur, kíktum á búsáhöld (leynt áhugamál okkar beggja), versluðum belti og kassettur af Hjálpræðishernum og slökuðum á í einni flottustu plötubúð sem við höfum komið í (verst að spilakassasafnið þeirra sést ekki á myndunum úr búðinni).

Eftir þetta búðaráp fórum við svo á The Big Lebowski "audience participation" sýningu í nemendafélagsbíóinu í UBC. Þar mættu margir í sloppum, veiðivestum og meira að segja ein valkyrja og einnig var boðið uppá bjór og hvítarússa.

Þegar heim var komið borðuðum við ógeðslega pizzu og drukkum dýran kanadískan bjór sem þeir vildu þó meina að væri import, kannski vegna þess að hann var frá Nova Scotia og það er ansi langt frá Vancouver.

Ferðasaga: 1. hluti

Ég er frekar ósammála konunni sem Júlía var að hlusta á í lestinni um daginn. Samkvæmt námsmærinni þá sagði hún eitthvað þessu líkt: "...I hate traveling! 5 hours maximum for me." Þó er ég sammála setningunni sem hún endaði á. "It would be nice to see the world though...", hvernig svo sem hún ætlar að fara að því á fimm tímum.

En ferðaþráin rak okkur til Vancouver fyrir helgi og þar sem við höfðum ekki efni á að fljúga þá tókum við rútuna, 15 tíma þangað og 18 tíma til baka. Ég skil reyndar ekki af hverju við vorum 3 tímum lengur á leiðinni heim því að við stoppuðum í nákvæmlega sömu krummaskuðunum.

Við lögðum af stað um hálf tólf leytið á miðvikudagskvöldi, vöknuðum við bílstjórann um 3 að nóttu þar sem hann sagði okkur að "This will be Golden, this will be Golden." Þar ,inní miðjum Klettafjöllum, stukkum við út og keyptum Glosette súkkulaði rúsínur og hoppuðum svo aftur inní Gráhunds rútuna. Ég man ekki meira eftir mér þá nóttina fyrr en rétt eftir birtingu þegar við rendum inní Kelowna. Þar borðuðum við nestið okkar og ég varð þess heiðurs aðnjótandi að einhver skítugur "redneck" í köflóttri skyrtu og með derhúfu gekk inná mig þegar ég var á salerninu. Skemmtileg lífsreynsla það og svaka sniðugt að vera ekki með lás á klósetthurðunum.
Nokkrum tímum síðar sáum við svo hálft rassgat á konu sem var að beygja sig eftir kartöfluflögu sem hún hafði misst í gólfið. Það var ekki fögur sjón.

Um klukkan 3 á fimmtudaginn vorum við svo komin í menninguna í Vancouver. Restin af deginum fór í smá göngutúr og "All you can eat" á sushi stað. Verst að við vorum ekkert svakalega svöng...

miðvikudagur, 7. nóvember 2007

"It rains a lot in Vancouver, especially during the winters..."

Já, við erum að pakka regnfötunum okkar því við erum að fara í helgarferð til Vancouver. Leggjum af stað með Greyhound rútu klukkan 23:15 í kvöld og ferðin tekur u.þ.b. 15 tíma! (Nami, ef þú ert að lesa þetta þá er þessi ferð 5-6 tímum styttri en frá Antwerp til Barcelona)
Ástæðan fyrir því að við tökum rútuna er sú að lestin sem gengur hérna á milli hættir að ganga í lok október. Auk þess höfum við heyrt að það sé hlegið af fólki sem tekur lestina vegna þess hve dýrt og seinlegt það er. En nóg um það!

Við ætlum að eyða helginni í menningunni sem við höfum heyrt af þarna hinumegin við Klettafjöll, t.d. að sjá band sem heitir The Annuals, skoða listagallerý og hönnunarbúðir í Gastown, borða sushi (loksins þegar við vitum að það er ferskur fiskur í boði) og kíkja á 3 Starbucks kaffihús sem eru öll við sömu gatnamótin. Svo er víst planið að ganga á eins og eitt fjall og taka kláf niður.

Annars er lítið að frétta héðan frá Calgary. Olían er komin yfir $98 og það er farið að frysta.

fimmtudagur, 1. nóvember 2007

"Lips! Lips! Lips!"

Á miðanum okkar stóð:

Bring your sense of humor. And some toast.
Audience participation is allowed.
In fact, if you're sitting next to someone in fishnets stockings, you WILL be participating.

Til sölu voru pokar með hrísgrjónum, klósettpappír, ljósum, ristuðu brauði (toast), gúmmíhönskum, partýhöttum, flautum, spilum og dagblöðum (til að verjast rigningunni (vatnsbyssum)). Ég hef aldrei séð áhorfendur taka jafn virkan þátt í bíósýningu. Og næstum allir í búningum!

Á meðan myndin var í gangi lék starfsfólk bíósins svo með á sviðinu fyrir framan tjaldið og áhorfendur reittu af sér brandara sem var svarað af sjálfri myndinni (Áhorfendur: "When is the orgy, Frank?", Frank: "Tonight") og kölluðu ókvæðisorð að persónunum ("Slut" þegar Susan Sarandon brá fyrir sem Janet og "Asshole" þegar nörðurinn Brad lét sjá sig).

En já, hér er hægt að sjá allt um Audience Participation.
Næst þegar ég fer að sjá svona sýningu verð ég tilbúinn.

Og já, ég var að sjá hana í fyrsta skipti!

mánudagur, 29. október 2007

"My wifes first husband was Icelandic..."

"...his name was Helgi Eliasson (borið fram Í-læ-as-sun). Then he died and I married his widow." var setning sem við fengum að heyra frá leigubílstjóra í Edmonton, höfuðborg Alberta fylkis, um helgina. Hann var að keyra okkur á Halloween ball og á þessarri ca. 15-20 mínútna ferð fengum við að heyra gullmola eins og "My name is Andrews, A-N-D-R-E-W-S, Andrews. Yes sir!", "I got poked in the eye once.", "How are you on disease?" og "I have to clean my toes well. But that's alright because I have a man come over every two weeks to take care of my feet." Ég keypti líka fyrir hann kaffi sem hann vildi hafa "Medium, black with nuthin' in it!" og svo sýndi hann okkur hús bróður síns því það var í leiðinni.

Við vorum semsagt í heimsókn hjá Dave vini mínum sem ég kynntist á Interrail ferðalagi í fyrra. Hann er reyndar á milli húsnæða og býr því á sófanum hjá vinum sínum en við vorum alveg velkomin þar líka og fengum meira að segja sér herbergi.
Partýið var svo haldið í sal einhvers staðar í úthverfi borgarinnar og við vorum klædd sem Edmontonians (eða fólk frá Edmonton) í Oilers íshokkí treyjum og með Tim Hortons pappakaffibolla (reyndar fulla af bjór allt kvöldið). Frumlegasti hópurinn að okkar mati var þriggja manna og klæddur sem tómatsósa, sinnep og relish. Það eru engar myndir af okkur því við gleymdum bæði myndavélum.

Edmonton er OLÍUBORGIN í Alberta. Þar er líka stærsta verslunarmiðstöð í Kanada (West Edmonton Mall, sem var að sjálfsögðu það fyrsta sem við skoðuðum) og svo kallar borgin sig "The City of Champions" því þegar þeir Wayne Gretzky og Mark Messier spiluðu hokkí með Edmonton Oliers þá unnu þeir NHL bikarinn 5 sinnum á 7 árum. Þeir félagar fengu að launum götur nefndar eftir sér í borginni (Mark Messier Trail og Wayne Gretzky Drive). Síðan þá hafa Oliers þó eiginlega ekki unnið neitt og Edmontonians eru varla meistarar í neinu nema einhverju olíutengdu og þaðan kemur líklega eitt skemmtilegasta götunafn borgarinnar, Gasoline Alley.

En já, áður en Edmonton ævintýrið byrjaði þá keyrðum við frá Calgary inní Klettafjöll og norður í fjallabæinn Jasper. Á leiðinni þangað sáum við "Big Horn Sheep", fjalla geit og sléttuúlf. Svo þegar við keyrðum inn í bæinn stóð heil hjörð af hjörtum á miðjum veginum. Þegar við sáum þetta þá fór okkur að langa í mat og keyrðum beint á næsta steikhús þar sem ég slátraði vænum hnulla af buffalo og svo ca. þriðjung af 16 oz. Alberta steikinni hennar Júlíu.

Daginn eftir brunuðum við svo til Edmonton og sáum margt skemmtilegt á leiðinni eins og olíubora, fleiri geitur og hirti, ógeðslega iðnaðarbæi, fleiri húsbíla en við höfum séð á samanlögðum ævum okkar, eins mörg mótel og hægt er að láta sig dreyma um, skotvopnabúðina Moving Targets og niðurnídda sveitabæi.

Í gær á leiðinni frá Edmonton sáum við svo endalaust margar Alberta steikur sem ennþá á eftir að slátra, fleiri olíubora og ennþá fleiri húsbíla.
Þegar við loksins komum heim til Calgary í gærkvöld fórum við beint á tónleika með Do Make Say Think og það var bara hörkugaman.

Takk fyrir langan lestur.

miðvikudagur, 24. október 2007

Stund milli stríða

Þá er helmingur húsverkanna búinn í dag. Innkaupin komin í ísskáp og aðra skápa, fötin komin í þvottavélina og uppvaskið að þorna á grindinni. Þetta er akkúrat stundin sem ég nýt þess mest að opna einn svellkaldan bjór.
Og í þetta sinn er það Red Stripe sem er hvorki meira né minna en bruggaður í Kingston á henni Jamaicu (eyjunni sem brúnkukremsmódelið á háskólabarnum í U of C langar svoooo mikið að heimsækja, sjá hér).

Annars höfum við verið afar léleg í bjórdrykkjunni hérna í Alberta. Fórum reyndar á (sport)bar um daginn (því allir barir hérna eru sportbarir) og uppgötvuðum okkur til mikillar ánægju að þar var boðið uppá Erdinger á dælu og pöntuðum okkur um leið tvö glös af þeim glæsi drykk. Okkur var þó afar brugðið þegar barþjónninn bar fyrir okkur bjórinn í "long drink" glösum og afar kolsýrubættan í kaupbæti. Það var gott fyrir manninn að við erum ekki Þjóðverjar því að við hefðum líklega gengið í skrokk á honum fyrir að skemma þvílíka þjóðargersemi. Í staðin drukkum við eins mikið af þessu sulli og við gátum og pöntuðum síðan flöskubjóra í næsta umgang.

Í fyrramál ætlum við að taka bílaleigubíl og keyra alla leið uppí þjóðgarðinn Jasper, gista þar eina nótt og ganga eins og við getum. Svo erum við boðin í hrekkjavökupartý í olíuborginni Edmonton (sem er höfuðborg Alberta fylkis). Þess má geta að íshokkílið borgarinnar heitir Edmonton Oliers og skartar svörtum búningum og hringlaga merki með gylltum olíudropa. Lífið hérna gengur einungis útá olíu!

En nú þarf ég að stökkva niður í þvottaherbergi og skella fötunum í þurrkara, ganga svo frá leirtauinu og undirbúa matseldina. Í kvöld verður boðið uppá svínakótilettur í raspi og bjór með í tilefni af því að Júlía er búin í miðannarprófum.

þriðjudagur, 23. október 2007

Cherry Garcia

Akkúrat núna situr Júlía í námsbókahrúgu á miðju stofugólfinu og hakkar í sig Ben & Jerry's ís. Við erum alveg sammála um að þeir sem læra fyrir próf þurfi að fá nóg að borða og þá sérstaklega eitthvað virkilega gott. Þess vegna fengum við okkur ost/salsa/rjómaost/nachos í kvöldmat í gær og erum að hugsa um að sleppa því að elda kjúklinginn sem er inní ísskáp og panta frekar flatböku frá Domino's núna.

Helgin hefur liðið hjá í próflestrarhangsi. Ég tek að sjálfsögðu fullan þátt í því þó að ég sé ekkert að læra. Fæ þó stundum upplesna skemmtilega vitneskju um hagfræði og fjármál.
"The individuals economic problem ... Limited Income - Unlimited Wants" þrumar hún alltíeinu yfir mér svo ég hrekk við og segir svo að það lýsi okkar stöðu fullkomlega.

Svo hlakkaði okkur bæði afskaplega til mánudagsins því að það voru miklar hrakspár um verðbréfamarkaðina fyrir helgi. Einnig er olíutunnan í sögulegu hámarki og samkvæmt spekingum á hún eftir að hækka töluvert meira.
Svona er Calgary að fara með okkur. Það kemst enginn hjá því að vita svona hluti í þessarri beinhörðu olíubissnessborg.

Megin skemmtun helgarinnar hefur þó verið gjöfin sem ég gaf námsmærinni eftir skóla á fimmtudaginn. Ég er búinn að mynda eina setningu á ísskápinn: "Ich musse ein enorm Wurst gehast aber nicht mit Milch."
Ég held að tíundabekkjar þýskan mín myndi ekki koma mér langt í landinu sem er yfir öllum öðrum.

föstudagur, 19. október 2007

Fimmtudagur til frægðar

Á fimmtudögum vöknum við alltaf snemma (eins og alla aðra daga reyndar), borðum, lærum og drífum okkur í skólann. Júlía skellir sér í hagfræðitíma í 75 mínútur og ég eyði þeim tíma í háskólabókabúðinni. Það er yfirleitt of stuttur tími fyrir bókabúðarráp en ég læt mér það duga til að fá ekki leið á búðinni strax. Svo hittumst við u.þ.b. klukkan 2:15 pm fyrir utan Dairy Queen og pöntum tvo miðlungs stóra mjólkurhristinga, einn súkkulaði og einn vanillu.
Eftir það skoðum við borgina.

Á leiðinni í skólann í gær rákumst við á bekkjarfélaga hagfræðisjénísins, hann Leo.
Leo er frá Alþýðulýðveldinu Kína. Hann hefur samt verið með annan fótinn í Kanada síðustu 3 ár. Konan hans hefur eytt dálitlum tíma hérna líka en býr núna í Kína með tvíburana þeirra og fimm þjóna til að stjana við sig. Leo útskýrði sko fyrir okkur að fyrir 500 CAD á mánuði getur hann haft fimm þjóna í Kína eða borgað tvisvar sinnum það fyrir einn þjón hér. Ég held að þau séu svolítið rík í Kína.
Svo sagði hann okkur að hann væri að fara í viku ferð til fjölskyldunnar eftir miðsvetrarprófin því tvíburarnir eru að verða eins árs. Þá er hefð hjá Kínverjum að leggja fjölda hluta fyrir framan börnin og sá hlutur sem börnin taka fyrst upp á að segja til um hvað þau verða í framtíðinni, þ.e.a.s. taki þau upp peningaseðil verður það bissness, bók vísar á menningarvita, matur á matmann o.s.frv.
Það verður gaman að vita hvað gleður augu tvíburanna hans Leo.

Eftir skóla, með mjólkurhristing í hönd, tókum við lestina niðrá Sólarsíðu (Sunnyside) og röltum í gegnum bakgarða að íþróttahöll Krulluklúbbs Calgary. Meira um það hjá Cosmopolitanklúbbnum.

Nú er ég farinn að sækja um atvinnuleyfi og svo er það feitur börger á diner hérna rétt hjá.

Have a good one...

fimmtudagur, 18. október 2007

Knock, knock...

Afar skrítin lífsreynsla í gær. Ég vaknaði náttúrulega klukkan korter í 8 þegar neminn var að búa sig undir tæplega 10 tíma skóladag. Skaust framúr og gæddi mér á seríósi. Eftir að skólastelpan var farin út um dyrnar gerðist fátt þar til klukkan 4 p.m. (við erum nefnilega búin að skipta yfir í a.m. og p.m. klukkukerfi), fyrir utan þegar hreingerningardömurnar bönkuðu uppá.
Ég lá í makindum mínum í sófanum í joggingbuxum, með úfið hár og tölvuna á bumbunni. Allt á hvolfi í eldhúsinu því ég var ekki byrjaður á heimilisverkunum, dreg þau eins lengi og hægt er.
Alltíeinu heyrast þessar líka rosa drunur frá útidyrahurðinni (því að á henni hangir dyrahamar). Ég stekk á lappir, fimur sem fíll, hleyp að hurðinni og klessi auganu upp að njósnagatinu og viti menn... fyrir utan standa tvær konur á óræðum aldri og önnur þeirra er að teygja sig í dyrahamarinn sem hún var næstum búin að brjóta hurðina niður með ca. 7 sekúndum fyrr. Ég leyfi henni að banka því ég held að það sé hennar eina ánægja í lífinu og opna svo eftir mátulega bið.
"Did you want roomservice?"
"Cleaning and stuff?" stama ég.
"Yeah."
"Sure, come right in."
Hvað gerir maður þegar einhver þrífur íbúðina manns? Sérstaklega að manni viðstöddum? Ætli ég setjist ekki við eldshúsborðið og hamri eitthvað á lyklaborðið til að virðast vera upptekinn. Þegar þær voru búnar að búa um rúmið og búnar að loka sig saman inná baðherberginu þá færði ég mig aftur í sófann svo þær gætu nú örugglega ryksugað undir eldhúsborðinu.
Eftir u.þ.b. 6 mínútur var íbúðin orðin eins ný og hreingerningardömurnar þotnar útum dyrnar aftur með eitt vesælt "Thank you." frá mér.

þriðjudagur, 16. október 2007

Svartagullsgaldurinn

Í gær kusu Calgarians sér nýja borgarstjórn. Mayor Dave Bronconnier hélt velli sem borgarstjóri og byrjar því sitt þriðja kjörtímabil núna í vikunni. Í okkar kjördæmi, ward 8, varð Madeline King að lúta í lægra haldi fyrir honum John Mar. Við Júlía studdum herra Mar heils hugar því hann virðist traustur maður. Þó er aðal ástæðan fyrir brotthvarfi frú King líklega þetta óskiljanlega YouTube video sem hún auglýsir á heimasíðunni sinni.
Aðal áherslur kosningabaráttunnar í okkar kjördæmi voru byggingaframkvæmdir, hækkun glæpatíðni á síðustu árum og aðstæður heimilislausra (sem eru þónokkuð margir hérna í miðbænum). Hún Madeline hefur greinilega ekki verið að standa sig í stjórninni.
Við horfðum aðeins á kosningavökuna þegar masters-neminn kom heim í gærkvöld eftir langan skóladag. Okkur var þó afar brugðið þegar útsendingu lauk um tíu leytið og einungis ca. þriðjungur atkvæða talinn. Greinilega ekki mjög mikill áhugi fyrir þessu kosningaveseni hérna í hreinstu borg heims.

Og talandi um hreinleika borgarinnar. Ég hef verið að safna í ljósmyndaseríu um sorp hérna úti og fór í göngutúr í framköllunarstofuna í gær. Á leiðinni þræddi ég bakgarða hverfisins og smellti af í gríð og erg. Einn hinna innfæddu gaf sig á tal við mig (eins og flestir sem verða á vegi manns hérna) og spurði af hverju ég væri eiginlega að taka myndir. Ég sagði honum frá þessarri sorphugmynd minni. "There's alot of that lying around." sagði hann þá og hélt áfram ferð sinni.

Á meðan ég gekk um bakgarða og almenningsgarða þá var Júlía í messu í skólanum. Þar var á ferð milljarðamæringur sem messaði yfir háskólanemum um kapítalismann sem ræður öllu í þessu olíu og hátæknilandi. Ég er nú bara farinn að hafa áhyggjur af því að saklausa stjórnmálafræðingssálin fari að hrífast með bissnessflóðinu, fari að glugga í The Financial Times á leið sinni í skólann og kíkji á verð olíutunnunnar um leið og hún gangi útúr skólastofunni.
En ég verð víst að taka henni hvernig sem hún er, olíusjúk eður ei.

mánudagur, 15. október 2007

Kilgore Trout og double cappuccino "to stay"

Spændi í gegnum "A man without a country", safn pistla eftir Kurt Vonnegut, í gærkvöld. Hressandi, bætandi og grætandi bók. Boðskapur: Verum góð við hvort annað og áttum okkur á því þegar okkur líður vel.

Mér leið vel í gær þegar við römbuðum á gott kaffihús í þessarri blessuðu borg, og það einungis nokkrum strætum frá svítublokkinni okkar. Kaffihús með sál. Kaffihús þar sem maður hefur meira að segja val á milli porselín bolla eða þessarra guðsvoluðu pappadalla sem allir kana(da)r hlaupa í hringi með.
Ég held að ég hafi aldrei séð jafn mörg pappaglös og hér. Hvaðan koma þau öll? Hvar er Starbucks skógurinn sem sér þeim fyrir trjánum í öll þessi ílát? Ætli það sé ekki í Mexíkó eða Kína, einhverstaðar víðsfjarri svo það sé nú örugglega hægt að flytja þessi pappírsmál heimshorna á milli.

Nóg um það! Nú þarf ég að heimsækja framköllunarstofuna mína í fjórða skiptið á jafn mörgum dögum því ég er framköllunarfíkill.

sunnudagur, 14. október 2007

"Mér finnst Calgary ÆÐISLEG!!!"

Já, skjótt skipast veður í lofti.
Fyrir u.þ.b. 15 dögum þótti þessi núverandi heimaborg okkar sko ekki merkilegur pappír.
Þessa dagana þykir Calgary mikil uppspretta gleði og hamingju og gaman að þræða stræti hennar í leit að næstu óvæntu uppgötvun.

Ég held að stefnubreytingin hafi byrjað fyrir alvöru síðustu helgi þegar við keyrðum um hana á kagganum sem við leigðum. Þá tókum við eftir hverfum sem við hefðum jafnvel aldrei kíkt inní á tveimur jafnfljótum. Hefðum bara brunað framhjá í huggulegri lest.

Á fimmtudaginn skoðuðum við hverfi sem heitir því skemmtilega nafni Sunnyside. Það er í raun réttnefni því það er staðsett í brekku sem snýr í suður og baðar sig því í sólinni á hverjum degi.
Því það er alltaf gott veður hérna (allavega þessa dagana), heiðskýrt og stillt.
Ég var aðeins búinn að segja frá hverfinu í síðustu færslu, þ.e.a.s. Kensington road, en ekki frá öllum æðislegu (mis-niðurníddu) bakgörðunum og rauðu Lundúna-símaklefunum. Ég hugsa að þetta hverfi verði aðal viðfangsefni Ljósmyndarans héðan í frá.

Svo fórum við á tónleika á föstudagskvöldið. Hreint út sagt frábært band sem heitir "The New Pornographers". Vancouver band sem hefur allt. Töff söngvara og söngkonu, kúl gítarleikara, tilfinningaskertan tölvulúða, sæta hljómborðsstúlku, hippalegan bassaleikara og yndislega-lúðalegasta trymbil í heiminum. Og salurinn elskaði þau! Enda hress og skemmtileg hljómsveit. Mæli með að tjékka á þeim.

Í gær röltum við um miðbæinn og hverfið okkar, kíktum uppí Calgary Tower og eftir það sóttum við myndir úr framköllun. Kíkið endilega á www.thoriringvarsson.com við tækifæri.

Kveðjur frá Calgary.

fimmtudagur, 11. október 2007

Kalkúnn (framhald)

Já, við náðum ekki að elda kvikindið á sjálfa þakkargjörðahátíðina svo ég eldaði hann bara í gær. Júlía var í skólanum allan daginn og ég sem hafði aldrei séð kalkún né smakkað öðruvísi en í sneiðum ofaná brauð.
En þetta var nú ekkert svo flókið, sérstaklega þegar maður hefur aðgang að internetinu. Og þegar fyllingin er keypt frosin útí búð. Frekar "idiotproof" hefði ég haldið. Júlía var ekkert nema augun þegar hún kom heim og spurði hvort ég hristi bara brúnaðar kartöflur fram úr erminni hvenær sem væri (veit ekki hvort það er venjan að hafa svoleiðis með blessuðu fiðurfénu en það var allavega ekkert slor).

Annars hefur þessi vika verið í rólegri kantinum. Aðallega hangið heima í einhverri afslöppun. Er reyndar búinn að komast að því hvar allar helstu ljósmyndavörubúðir borgarinnar eru. Fór í eina þeirra og strákurinn sem afgreiddi mig sagði mér að ég ætti að fara á hina og þessa staði að láta framkalla hinar og þessar filmur. Algjör viskubrunnur. Svona eru Kanadamenn æðislegir.

Júlía er í stresskasti yfir einhverju skólaverkefni sem hún á að skila á eftir. Ég ætla að fylgja henni í skólann svo hún skili því nú örugglega og svo eftir tímann ætlum við að fara á mest kósý götuna sem við höfum fundið, Kensington Road. Hún er svo svakalega kósý af því að það eru alveg 3 alltílagi kaffihús (þar af huggulegasta Starbucks sem við höfum séð), bókabúð, plötubúð og bíó sem sýnir indie-, international- og gamlar myndir.
Svo erum við að fara á tónleika annað kvöld með The New Pornographers.

Bless

þriðjudagur, 9. október 2007

Vegna fjölda áskorana:



Íbúðarmyndir.
(smellið á myndina til að fá stærri útgáfu)

mánudagur, 8. október 2007

Loksins Þakkargjörðahátíð!!!

Þá er þessi stórmerkilegi dagur loksins runninn upp. Við erum búin að bíða spennt eftir honum alveg síðan að við föttuðum að hann væri frídagur ;)
Við keyptum að sjálfsögðu kalkún og frosna fyllingu í hann og ætlum að eyða deginum í eldhúsinu. Við eigum líka von á fólki í mat. Held samt að það verði bara einn gestur því við erum ennþá í þessum íslenska fílíng að bjóða fólki ca. 1-2 dögum fyrir veisluna.
En já, það verður semsagt afar amerískur dagur í dag. Enda þakkargjörðahátíð (eða Thanksgiving) einn sá amerískasti dagur sem til er.

Annars eyddum við allri helginni í Banff þjóðgarðinum í Klettafjöllum. Leigðum okkur bíl og keyrðum þangað uppeftir báða dagana. Og þvílík náttúra!
Fórum í tvær ágætis gönguferðir. Á laugardaginn keyrðum við upp að Lake Louise. Smaragðsgrænt jökulvatn í fjallasal í ca. 1750 metra hæð. Þaðan gengum við upp í 2134 metra hæð að vatni sem heitir Lake Agnes. Við það vatn er tehús þar sem hefði verið skemmtilegt að sitja inni og drekka te en þar sem við gleymdum öllum peningunum okkar í bílnum þá urðum við að láta okkur nægja að sitja úti og drekka kaffi af brúsa og narta í kex. Það var samt alveg í lagi þar sem himininn var næstum alveg heiðskýr og æðislegt útsýni.
Svo keyrðum við aðeins um þarna í þjóðgarðinum, sáum hjört inní miðjum bæ og brunuðum svo heim.

Sunnudaginn byrjuðum við á Dairy Queen því að á sunnudögum fær maður sér ís!
Eftir líter af mjólkurhristing á mann löbbuðum við inn ansi fínt gil sem kallast Johnston Canyon. Það var samt mun manngerðari slóð, næstum öll malbikuð og fín fyrir blessaða Kanana. Eftir það keyrðum við aðeins um Calgary og fundum nokkra huggulega staði í annars frekar kaldri borg.

En já. Í dag er það kalkúnn og ÚBBBSSS! Er klukkan orðin svona margt? Og kalkúnninn ennþá gaddfreðinn? Jæja, við hendum þá bara kjúklingabringum í örbylgjuofninn á "Speed Defrost"!

föstudagur, 5. október 2007

"No, but I really want to go to Jamaica sometime."

Við kíktum á háskólabarinn í U of C í gær. Drógum hann Oliver, bekkjarfélaga hennar Júlíu, með okkar. Hann er frá Nígeríu og hefur afskaplega skemmtilegar skoðanir á lífinu. Hann hefur búið hérna í Canada í 7 ár og starfar sem endurskoðandi fyrir Kanadísku ríkisstjórnina. Hann ætlar samt að flytja aftur til Nígeríu og segir að með hans menntun og bakgrunn þá fái hann konunglega meðferð þar.
Við buðum honum að sjálfsögðu í þakkargjörðarveislu. Það eina sem hann bað um var að við byðum fleiri stelpum en strákum!

Það kom líka í ljós á barnum hvað fólk getur verið vitlaust. Þjónustustúlkan sem afgreiddi okkur heyrði nefnilega á okkur að við vorum útlendingar og spurði að sjálfsögðu hvaðan við værum. Svo sagði hún okkur að hún hafi sko verið að vinna sem módel fyrir Hawaiian Tropic. "I've been travelling all over the world for the job. All over Canada and to the States and Mexico and everything!". Þá spurði Oliver hvort að hún hafi nokkurntímann komið til Afríku. Svarið sem hann fékk er einmitt titillinn á þessarri færslu.

Oliver og Hawaiian Tropic stelpan sem langar til Jamaica
Oliver og Hawaiian Tropic stelpan.

Svo skutlaði Oliver okkur heim og við elduðum okkur brauð í ofni með bökuðum baunum og osti. Alvöru stúdentamatur það!

Erum að fara að pikka upp bílaleigubílinn eftir smá og versla fyrir helgarferðina okkar. Ætlum að skoða Banff og Jasper þjóðgarðana í Klettafjöllum.

Bæ bæ.

fimmtudagur, 4. október 2007

Blessað Alnetið.

Nú er komin internet tenging hjá okkur hérna í Calgary. Við erum búin að vera að bölva nágrönnunum okkar í sand og ösku fyrir að vera með svona lélega þráðlausa tengingu fyrir okkur að stela af.
En í dag fengum við okkar eigin kapal, og þvílíkur lúxus. Það er nefnilega ómögulegt að búa í borg sem byggist upp á verslunarmiðstöðvum án þess að geta tjékkað á í hvaða "molli" hin og þessi búð er og á hvaða strætum eða breiðgötum þessi blessuðu "sjopping-moll" eru.

Hinsvegar er íbúðin okkar alveg í miðbænum þannig að allar helstu verslunarmiðstöðvarnar eru í göngufæri. Heppin við!
Svo erum við bara 4 götum frá helstu menningargötunni með öllum kósý matsölustöðunum og flottu búðunum samkvæmt hinum innfæddu.
Við erum reyndar bæði búin að labba þessa götu og okkur fannst nú lítið til hennar koma. Ekkert nema skyndibitastaðir, framköllunarstofur og eitt stykki Western Canada High School.

Annars vorum við að sporðrenna (ef svo má að orði komast) sinni hvorri steikinni, því það er víst það ódýrasta sem hægt er að kaupa í matinn... ekki amalegt það! Höfðum með því sósu, salat og sætuhnúða.

Svo stefnir allt í bílaleigubíl og akstur um Klettafjöll um helgina. Dúndra myndunum inn um leið og ég get.

Bless í bili.

mánudagur, 1. október 2007

O Canada...

Já, ég er mættur.

Og Kanada skartar sínu fegursta haust pússi fyrir okkur. Við skelltum okkur í göngutúr um háskólasvæðið í gær, fyrsta daginn. Ég held að svæðið sé stærra en póstnúmer 105 í Rvk. Samkvæmt Júlíu þá er þetta víst 40.000 manna samfélag, starfsfólk og nemendur semsagt. Það var reyndar ekki margt fólk á sveimi í gær enda sunnudagur.

Svo röltum við niður að Bowriver sem liggur í gegnum borgina. Ég rétt næ í þessa líka yfirþyrmandi haustliti á svæðinu. Við spáum því að laufin verði fallin fyrir helgi. Skellti inn nokkrum myndum á flickr síðuna mína.

Á eftir erum við svo að flytja af háskólasvæðinu og inní lúxusíbúð í miðbænum. Það er ótrúlegt hvað fátækt námsfólk getur leyft sér! Líka skemmtilegt að fá að flytja svona einusinni í hverri borg sem maður kemur til. Enda er ég mikill áhugamaður um flutninga.
Ég hendi svo inn myndum af íbúðinni bráðlega eftir að við fáum hana afhennta.

Bless

föstudagur, 28. september 2007

Jæja...

þá fer þetta að bresta á. Kanada á morgun!

Kveðjuhófið fór fram í gærkvöld. Þar voru veitingar frá Kebabistan, spilað fjölmennasta teningaspil sem ég hef tekið þátt í, dúndur músík úr glymskrattanum, heimsmálin rædd, lögin voru Bibbuð og með þessu öllu drukkin ógrynni af Albani gæða øli.
Þakkir til allra sem mættu, þetta var frábært!

Svo mættum við Óli að sjálfsögðu tveim tímum of seint í vinnuna eins og vera ber eftir gott fullerí. Það var samt alltílagi því ég splæsti í vínarbrauð handa öllum í vinnunni. Svo skilst mér að það verði föstudagsbjór um þrjú leytið. Alltaf gott að fá smá afréttara áður en vinnudagurinn er búinn.

Eftir það verð ég á þeytingi útum allan bæ að sækja dótið mitt og skila öðru. Þarf að koma við í öllum helstu hverfum borgarinnar. Bakpokarnir mínir eru á Nørrebro, myndavélarnar og tölvan á Vesterbro, þarf að skjótast með einn steikarpott til Svölu uppí Fredriksberg, og svo gisti ég hjá Óla á Christianshavn.
Ætli ég þurfi ekki líka að kíkja aðeins útá skítaeyjuna Amager til Óskars og Völu í eins og einn kveðjubjór. Ég sé þau líklega ekkert fyrr en eftir eitt og hálft ár því þau eru að fara til Malasíu í skóla.

Á morgun hoppa ég svo uppí metró og beint útá flugvöll og til olíubissnisskærustunnar minnar í Calgary.

Bæbæ.

þriðjudagur, 25. september 2007

"Hvað ertu að fara að gera í Kanada?"

Ég er búinn að vera að velta því fyrir mér hvort ég ætti að fara að rukka fyrir svar við algengustu spurningunni sem ég fæ þessa dagana. En ég er ekki nógu mikill bissnesskall í mér til þess þannig að hér fáið þið svarið ykkur að kostnaðarlausu:

Ég ætla að vera heimavinnandi!

Og þar hafið þið það... Svo er annað mál hvað heimavinnandi fólk gerir, sérstaklega þegar heimilisþrifaþjónusta fylgir leiguíbúðinni sem það býr í. En ég efast ekki um að ég finni mér eitthvað til dundurs í vetrarhörkunum á hásléttum Alberta fylkis. Ég gæti til dæmis stofnað klúbb fyrir þá sem eru heimavinnandi í blokkinni okkar, þar sem við söfnumst saman og horfum á spjallþætti og sápuóperur á daginn. Nú eða tekið að mér barnapössun fyrir þá nágranna sem ekki eru heimavinnandi.

Annars er ég að pæla hvort að ég ætti að fara að æfa einhverja íþrótt þarna út. Júlía er jú á krulluæfingum (curling á frummálinu) að minnsta kosti einusinni í viku. Kannski ég gæti skráð mig í "Bobsled for beginners" eða "Biathlon*: The toughest sport on earth".

Læt ykkur vita

*skíðaskotfimi

mánudagur, 24. september 2007

Þá er....

síðasta helgin mín í Køben á þessu ári liðin og síðasta vinnuvikan hafin. Frekar fín helgi í alla staði. Veit ekki með vinnuvikuna...

Hjálpaði Ingu Rún og Braga að flytja á föstudaginn. Þau voru að kaupa æðislega andelsíbúð á Vesterbro. Svo eru þau líka svo æðisleg að geyma allt dótið mitt á meðan Kanada-ævintýrið stendur yfir.

Átti gott bæjarrölt með Óskari á laugardaginn. Við fórum í siglingu með Hafnarstrætónum, kíktum á þessa sýningu í Svarta Demantinum og svo grillpartý um kvöldið þar sem boðið var uppá SS pulsur í íslensku pulsubrauði með SS pulsusinnepi. Svo tókum við einn öl á Hvids Vinstue á leiðinni heim.

Sunnudagurinn var heldur ekkert slor. Kaffihús og kvöldmatur með Óla og Sigrid og smá nintendo, vestlands lefsur og ís í eftirmat á Christianshavn.

Og núna eru 7.180 mínútur í brottför.

Bið að heilsa.

laugardagur, 22. september 2007

10.120 mínútur akkúrat núna!

Jæja. Þá er næstum akkúrat vika í að ég fljúgi til Calgary.
Ein vika = 7 dagar = 168 klst. = 10.080 mín.
Það er ekkert svo slæmt...

Á þessarri viku ætla ég að vinna, pakka dótinu mínu í 3 skiptið á einum mánuði, kíkja á Copenhagen International Film Festival og kveðja Køben og vini. Ætla að smala sem flestum á McKluud á eitt gott loka fimmtudagsfyllerí með dynjandi músík úr besta glymskratta borgarinnar.

Svo flýg ég til London á laugardaginn næsta klukkan 12:00 og þaðan beint til Calgary. Held að það sé svona ca. 10 tíma flug. Næstum jafn langt og flugið sem ég tók til Tokyo í vor.

Það er nú meira helv... flakkið á manni!

miðvikudagur, 19. september 2007

Þetta...

kemur allt með kalda vatninu. Er að henda þessu upp og þegar það er búið þá kannski verður eitthvað út þessu. Þangað til verðið þið bara að fá ykkur bjór og slappa af.