mánudagur, 29. október 2007

"My wifes first husband was Icelandic..."

"...his name was Helgi Eliasson (borið fram Í-læ-as-sun). Then he died and I married his widow." var setning sem við fengum að heyra frá leigubílstjóra í Edmonton, höfuðborg Alberta fylkis, um helgina. Hann var að keyra okkur á Halloween ball og á þessarri ca. 15-20 mínútna ferð fengum við að heyra gullmola eins og "My name is Andrews, A-N-D-R-E-W-S, Andrews. Yes sir!", "I got poked in the eye once.", "How are you on disease?" og "I have to clean my toes well. But that's alright because I have a man come over every two weeks to take care of my feet." Ég keypti líka fyrir hann kaffi sem hann vildi hafa "Medium, black with nuthin' in it!" og svo sýndi hann okkur hús bróður síns því það var í leiðinni.

Við vorum semsagt í heimsókn hjá Dave vini mínum sem ég kynntist á Interrail ferðalagi í fyrra. Hann er reyndar á milli húsnæða og býr því á sófanum hjá vinum sínum en við vorum alveg velkomin þar líka og fengum meira að segja sér herbergi.
Partýið var svo haldið í sal einhvers staðar í úthverfi borgarinnar og við vorum klædd sem Edmontonians (eða fólk frá Edmonton) í Oilers íshokkí treyjum og með Tim Hortons pappakaffibolla (reyndar fulla af bjór allt kvöldið). Frumlegasti hópurinn að okkar mati var þriggja manna og klæddur sem tómatsósa, sinnep og relish. Það eru engar myndir af okkur því við gleymdum bæði myndavélum.

Edmonton er OLÍUBORGIN í Alberta. Þar er líka stærsta verslunarmiðstöð í Kanada (West Edmonton Mall, sem var að sjálfsögðu það fyrsta sem við skoðuðum) og svo kallar borgin sig "The City of Champions" því þegar þeir Wayne Gretzky og Mark Messier spiluðu hokkí með Edmonton Oliers þá unnu þeir NHL bikarinn 5 sinnum á 7 árum. Þeir félagar fengu að launum götur nefndar eftir sér í borginni (Mark Messier Trail og Wayne Gretzky Drive). Síðan þá hafa Oliers þó eiginlega ekki unnið neitt og Edmontonians eru varla meistarar í neinu nema einhverju olíutengdu og þaðan kemur líklega eitt skemmtilegasta götunafn borgarinnar, Gasoline Alley.

En já, áður en Edmonton ævintýrið byrjaði þá keyrðum við frá Calgary inní Klettafjöll og norður í fjallabæinn Jasper. Á leiðinni þangað sáum við "Big Horn Sheep", fjalla geit og sléttuúlf. Svo þegar við keyrðum inn í bæinn stóð heil hjörð af hjörtum á miðjum veginum. Þegar við sáum þetta þá fór okkur að langa í mat og keyrðum beint á næsta steikhús þar sem ég slátraði vænum hnulla af buffalo og svo ca. þriðjung af 16 oz. Alberta steikinni hennar Júlíu.

Daginn eftir brunuðum við svo til Edmonton og sáum margt skemmtilegt á leiðinni eins og olíubora, fleiri geitur og hirti, ógeðslega iðnaðarbæi, fleiri húsbíla en við höfum séð á samanlögðum ævum okkar, eins mörg mótel og hægt er að láta sig dreyma um, skotvopnabúðina Moving Targets og niðurnídda sveitabæi.

Í gær á leiðinni frá Edmonton sáum við svo endalaust margar Alberta steikur sem ennþá á eftir að slátra, fleiri olíubora og ennþá fleiri húsbíla.
Þegar við loksins komum heim til Calgary í gærkvöld fórum við beint á tónleika með Do Make Say Think og það var bara hörkugaman.

Takk fyrir langan lestur.

miðvikudagur, 24. október 2007

Stund milli stríða

Þá er helmingur húsverkanna búinn í dag. Innkaupin komin í ísskáp og aðra skápa, fötin komin í þvottavélina og uppvaskið að þorna á grindinni. Þetta er akkúrat stundin sem ég nýt þess mest að opna einn svellkaldan bjór.
Og í þetta sinn er það Red Stripe sem er hvorki meira né minna en bruggaður í Kingston á henni Jamaicu (eyjunni sem brúnkukremsmódelið á háskólabarnum í U of C langar svoooo mikið að heimsækja, sjá hér).

Annars höfum við verið afar léleg í bjórdrykkjunni hérna í Alberta. Fórum reyndar á (sport)bar um daginn (því allir barir hérna eru sportbarir) og uppgötvuðum okkur til mikillar ánægju að þar var boðið uppá Erdinger á dælu og pöntuðum okkur um leið tvö glös af þeim glæsi drykk. Okkur var þó afar brugðið þegar barþjónninn bar fyrir okkur bjórinn í "long drink" glösum og afar kolsýrubættan í kaupbæti. Það var gott fyrir manninn að við erum ekki Þjóðverjar því að við hefðum líklega gengið í skrokk á honum fyrir að skemma þvílíka þjóðargersemi. Í staðin drukkum við eins mikið af þessu sulli og við gátum og pöntuðum síðan flöskubjóra í næsta umgang.

Í fyrramál ætlum við að taka bílaleigubíl og keyra alla leið uppí þjóðgarðinn Jasper, gista þar eina nótt og ganga eins og við getum. Svo erum við boðin í hrekkjavökupartý í olíuborginni Edmonton (sem er höfuðborg Alberta fylkis). Þess má geta að íshokkílið borgarinnar heitir Edmonton Oliers og skartar svörtum búningum og hringlaga merki með gylltum olíudropa. Lífið hérna gengur einungis útá olíu!

En nú þarf ég að stökkva niður í þvottaherbergi og skella fötunum í þurrkara, ganga svo frá leirtauinu og undirbúa matseldina. Í kvöld verður boðið uppá svínakótilettur í raspi og bjór með í tilefni af því að Júlía er búin í miðannarprófum.

þriðjudagur, 23. október 2007

Cherry Garcia

Akkúrat núna situr Júlía í námsbókahrúgu á miðju stofugólfinu og hakkar í sig Ben & Jerry's ís. Við erum alveg sammála um að þeir sem læra fyrir próf þurfi að fá nóg að borða og þá sérstaklega eitthvað virkilega gott. Þess vegna fengum við okkur ost/salsa/rjómaost/nachos í kvöldmat í gær og erum að hugsa um að sleppa því að elda kjúklinginn sem er inní ísskáp og panta frekar flatböku frá Domino's núna.

Helgin hefur liðið hjá í próflestrarhangsi. Ég tek að sjálfsögðu fullan þátt í því þó að ég sé ekkert að læra. Fæ þó stundum upplesna skemmtilega vitneskju um hagfræði og fjármál.
"The individuals economic problem ... Limited Income - Unlimited Wants" þrumar hún alltíeinu yfir mér svo ég hrekk við og segir svo að það lýsi okkar stöðu fullkomlega.

Svo hlakkaði okkur bæði afskaplega til mánudagsins því að það voru miklar hrakspár um verðbréfamarkaðina fyrir helgi. Einnig er olíutunnan í sögulegu hámarki og samkvæmt spekingum á hún eftir að hækka töluvert meira.
Svona er Calgary að fara með okkur. Það kemst enginn hjá því að vita svona hluti í þessarri beinhörðu olíubissnessborg.

Megin skemmtun helgarinnar hefur þó verið gjöfin sem ég gaf námsmærinni eftir skóla á fimmtudaginn. Ég er búinn að mynda eina setningu á ísskápinn: "Ich musse ein enorm Wurst gehast aber nicht mit Milch."
Ég held að tíundabekkjar þýskan mín myndi ekki koma mér langt í landinu sem er yfir öllum öðrum.

föstudagur, 19. október 2007

Fimmtudagur til frægðar

Á fimmtudögum vöknum við alltaf snemma (eins og alla aðra daga reyndar), borðum, lærum og drífum okkur í skólann. Júlía skellir sér í hagfræðitíma í 75 mínútur og ég eyði þeim tíma í háskólabókabúðinni. Það er yfirleitt of stuttur tími fyrir bókabúðarráp en ég læt mér það duga til að fá ekki leið á búðinni strax. Svo hittumst við u.þ.b. klukkan 2:15 pm fyrir utan Dairy Queen og pöntum tvo miðlungs stóra mjólkurhristinga, einn súkkulaði og einn vanillu.
Eftir það skoðum við borgina.

Á leiðinni í skólann í gær rákumst við á bekkjarfélaga hagfræðisjénísins, hann Leo.
Leo er frá Alþýðulýðveldinu Kína. Hann hefur samt verið með annan fótinn í Kanada síðustu 3 ár. Konan hans hefur eytt dálitlum tíma hérna líka en býr núna í Kína með tvíburana þeirra og fimm þjóna til að stjana við sig. Leo útskýrði sko fyrir okkur að fyrir 500 CAD á mánuði getur hann haft fimm þjóna í Kína eða borgað tvisvar sinnum það fyrir einn þjón hér. Ég held að þau séu svolítið rík í Kína.
Svo sagði hann okkur að hann væri að fara í viku ferð til fjölskyldunnar eftir miðsvetrarprófin því tvíburarnir eru að verða eins árs. Þá er hefð hjá Kínverjum að leggja fjölda hluta fyrir framan börnin og sá hlutur sem börnin taka fyrst upp á að segja til um hvað þau verða í framtíðinni, þ.e.a.s. taki þau upp peningaseðil verður það bissness, bók vísar á menningarvita, matur á matmann o.s.frv.
Það verður gaman að vita hvað gleður augu tvíburanna hans Leo.

Eftir skóla, með mjólkurhristing í hönd, tókum við lestina niðrá Sólarsíðu (Sunnyside) og röltum í gegnum bakgarða að íþróttahöll Krulluklúbbs Calgary. Meira um það hjá Cosmopolitanklúbbnum.

Nú er ég farinn að sækja um atvinnuleyfi og svo er það feitur börger á diner hérna rétt hjá.

Have a good one...

fimmtudagur, 18. október 2007

Knock, knock...

Afar skrítin lífsreynsla í gær. Ég vaknaði náttúrulega klukkan korter í 8 þegar neminn var að búa sig undir tæplega 10 tíma skóladag. Skaust framúr og gæddi mér á seríósi. Eftir að skólastelpan var farin út um dyrnar gerðist fátt þar til klukkan 4 p.m. (við erum nefnilega búin að skipta yfir í a.m. og p.m. klukkukerfi), fyrir utan þegar hreingerningardömurnar bönkuðu uppá.
Ég lá í makindum mínum í sófanum í joggingbuxum, með úfið hár og tölvuna á bumbunni. Allt á hvolfi í eldhúsinu því ég var ekki byrjaður á heimilisverkunum, dreg þau eins lengi og hægt er.
Alltíeinu heyrast þessar líka rosa drunur frá útidyrahurðinni (því að á henni hangir dyrahamar). Ég stekk á lappir, fimur sem fíll, hleyp að hurðinni og klessi auganu upp að njósnagatinu og viti menn... fyrir utan standa tvær konur á óræðum aldri og önnur þeirra er að teygja sig í dyrahamarinn sem hún var næstum búin að brjóta hurðina niður með ca. 7 sekúndum fyrr. Ég leyfi henni að banka því ég held að það sé hennar eina ánægja í lífinu og opna svo eftir mátulega bið.
"Did you want roomservice?"
"Cleaning and stuff?" stama ég.
"Yeah."
"Sure, come right in."
Hvað gerir maður þegar einhver þrífur íbúðina manns? Sérstaklega að manni viðstöddum? Ætli ég setjist ekki við eldshúsborðið og hamri eitthvað á lyklaborðið til að virðast vera upptekinn. Þegar þær voru búnar að búa um rúmið og búnar að loka sig saman inná baðherberginu þá færði ég mig aftur í sófann svo þær gætu nú örugglega ryksugað undir eldhúsborðinu.
Eftir u.þ.b. 6 mínútur var íbúðin orðin eins ný og hreingerningardömurnar þotnar útum dyrnar aftur með eitt vesælt "Thank you." frá mér.

þriðjudagur, 16. október 2007

Svartagullsgaldurinn

Í gær kusu Calgarians sér nýja borgarstjórn. Mayor Dave Bronconnier hélt velli sem borgarstjóri og byrjar því sitt þriðja kjörtímabil núna í vikunni. Í okkar kjördæmi, ward 8, varð Madeline King að lúta í lægra haldi fyrir honum John Mar. Við Júlía studdum herra Mar heils hugar því hann virðist traustur maður. Þó er aðal ástæðan fyrir brotthvarfi frú King líklega þetta óskiljanlega YouTube video sem hún auglýsir á heimasíðunni sinni.
Aðal áherslur kosningabaráttunnar í okkar kjördæmi voru byggingaframkvæmdir, hækkun glæpatíðni á síðustu árum og aðstæður heimilislausra (sem eru þónokkuð margir hérna í miðbænum). Hún Madeline hefur greinilega ekki verið að standa sig í stjórninni.
Við horfðum aðeins á kosningavökuna þegar masters-neminn kom heim í gærkvöld eftir langan skóladag. Okkur var þó afar brugðið þegar útsendingu lauk um tíu leytið og einungis ca. þriðjungur atkvæða talinn. Greinilega ekki mjög mikill áhugi fyrir þessu kosningaveseni hérna í hreinstu borg heims.

Og talandi um hreinleika borgarinnar. Ég hef verið að safna í ljósmyndaseríu um sorp hérna úti og fór í göngutúr í framköllunarstofuna í gær. Á leiðinni þræddi ég bakgarða hverfisins og smellti af í gríð og erg. Einn hinna innfæddu gaf sig á tal við mig (eins og flestir sem verða á vegi manns hérna) og spurði af hverju ég væri eiginlega að taka myndir. Ég sagði honum frá þessarri sorphugmynd minni. "There's alot of that lying around." sagði hann þá og hélt áfram ferð sinni.

Á meðan ég gekk um bakgarða og almenningsgarða þá var Júlía í messu í skólanum. Þar var á ferð milljarðamæringur sem messaði yfir háskólanemum um kapítalismann sem ræður öllu í þessu olíu og hátæknilandi. Ég er nú bara farinn að hafa áhyggjur af því að saklausa stjórnmálafræðingssálin fari að hrífast með bissnessflóðinu, fari að glugga í The Financial Times á leið sinni í skólann og kíkji á verð olíutunnunnar um leið og hún gangi útúr skólastofunni.
En ég verð víst að taka henni hvernig sem hún er, olíusjúk eður ei.

mánudagur, 15. október 2007

Kilgore Trout og double cappuccino "to stay"

Spændi í gegnum "A man without a country", safn pistla eftir Kurt Vonnegut, í gærkvöld. Hressandi, bætandi og grætandi bók. Boðskapur: Verum góð við hvort annað og áttum okkur á því þegar okkur líður vel.

Mér leið vel í gær þegar við römbuðum á gott kaffihús í þessarri blessuðu borg, og það einungis nokkrum strætum frá svítublokkinni okkar. Kaffihús með sál. Kaffihús þar sem maður hefur meira að segja val á milli porselín bolla eða þessarra guðsvoluðu pappadalla sem allir kana(da)r hlaupa í hringi með.
Ég held að ég hafi aldrei séð jafn mörg pappaglös og hér. Hvaðan koma þau öll? Hvar er Starbucks skógurinn sem sér þeim fyrir trjánum í öll þessi ílát? Ætli það sé ekki í Mexíkó eða Kína, einhverstaðar víðsfjarri svo það sé nú örugglega hægt að flytja þessi pappírsmál heimshorna á milli.

Nóg um það! Nú þarf ég að heimsækja framköllunarstofuna mína í fjórða skiptið á jafn mörgum dögum því ég er framköllunarfíkill.

sunnudagur, 14. október 2007

"Mér finnst Calgary ÆÐISLEG!!!"

Já, skjótt skipast veður í lofti.
Fyrir u.þ.b. 15 dögum þótti þessi núverandi heimaborg okkar sko ekki merkilegur pappír.
Þessa dagana þykir Calgary mikil uppspretta gleði og hamingju og gaman að þræða stræti hennar í leit að næstu óvæntu uppgötvun.

Ég held að stefnubreytingin hafi byrjað fyrir alvöru síðustu helgi þegar við keyrðum um hana á kagganum sem við leigðum. Þá tókum við eftir hverfum sem við hefðum jafnvel aldrei kíkt inní á tveimur jafnfljótum. Hefðum bara brunað framhjá í huggulegri lest.

Á fimmtudaginn skoðuðum við hverfi sem heitir því skemmtilega nafni Sunnyside. Það er í raun réttnefni því það er staðsett í brekku sem snýr í suður og baðar sig því í sólinni á hverjum degi.
Því það er alltaf gott veður hérna (allavega þessa dagana), heiðskýrt og stillt.
Ég var aðeins búinn að segja frá hverfinu í síðustu færslu, þ.e.a.s. Kensington road, en ekki frá öllum æðislegu (mis-niðurníddu) bakgörðunum og rauðu Lundúna-símaklefunum. Ég hugsa að þetta hverfi verði aðal viðfangsefni Ljósmyndarans héðan í frá.

Svo fórum við á tónleika á föstudagskvöldið. Hreint út sagt frábært band sem heitir "The New Pornographers". Vancouver band sem hefur allt. Töff söngvara og söngkonu, kúl gítarleikara, tilfinningaskertan tölvulúða, sæta hljómborðsstúlku, hippalegan bassaleikara og yndislega-lúðalegasta trymbil í heiminum. Og salurinn elskaði þau! Enda hress og skemmtileg hljómsveit. Mæli með að tjékka á þeim.

Í gær röltum við um miðbæinn og hverfið okkar, kíktum uppí Calgary Tower og eftir það sóttum við myndir úr framköllun. Kíkið endilega á www.thoriringvarsson.com við tækifæri.

Kveðjur frá Calgary.

fimmtudagur, 11. október 2007

Kalkúnn (framhald)

Já, við náðum ekki að elda kvikindið á sjálfa þakkargjörðahátíðina svo ég eldaði hann bara í gær. Júlía var í skólanum allan daginn og ég sem hafði aldrei séð kalkún né smakkað öðruvísi en í sneiðum ofaná brauð.
En þetta var nú ekkert svo flókið, sérstaklega þegar maður hefur aðgang að internetinu. Og þegar fyllingin er keypt frosin útí búð. Frekar "idiotproof" hefði ég haldið. Júlía var ekkert nema augun þegar hún kom heim og spurði hvort ég hristi bara brúnaðar kartöflur fram úr erminni hvenær sem væri (veit ekki hvort það er venjan að hafa svoleiðis með blessuðu fiðurfénu en það var allavega ekkert slor).

Annars hefur þessi vika verið í rólegri kantinum. Aðallega hangið heima í einhverri afslöppun. Er reyndar búinn að komast að því hvar allar helstu ljósmyndavörubúðir borgarinnar eru. Fór í eina þeirra og strákurinn sem afgreiddi mig sagði mér að ég ætti að fara á hina og þessa staði að láta framkalla hinar og þessar filmur. Algjör viskubrunnur. Svona eru Kanadamenn æðislegir.

Júlía er í stresskasti yfir einhverju skólaverkefni sem hún á að skila á eftir. Ég ætla að fylgja henni í skólann svo hún skili því nú örugglega og svo eftir tímann ætlum við að fara á mest kósý götuna sem við höfum fundið, Kensington Road. Hún er svo svakalega kósý af því að það eru alveg 3 alltílagi kaffihús (þar af huggulegasta Starbucks sem við höfum séð), bókabúð, plötubúð og bíó sem sýnir indie-, international- og gamlar myndir.
Svo erum við að fara á tónleika annað kvöld með The New Pornographers.

Bless

þriðjudagur, 9. október 2007

Vegna fjölda áskorana:



Íbúðarmyndir.
(smellið á myndina til að fá stærri útgáfu)

mánudagur, 8. október 2007

Loksins Þakkargjörðahátíð!!!

Þá er þessi stórmerkilegi dagur loksins runninn upp. Við erum búin að bíða spennt eftir honum alveg síðan að við föttuðum að hann væri frídagur ;)
Við keyptum að sjálfsögðu kalkún og frosna fyllingu í hann og ætlum að eyða deginum í eldhúsinu. Við eigum líka von á fólki í mat. Held samt að það verði bara einn gestur því við erum ennþá í þessum íslenska fílíng að bjóða fólki ca. 1-2 dögum fyrir veisluna.
En já, það verður semsagt afar amerískur dagur í dag. Enda þakkargjörðahátíð (eða Thanksgiving) einn sá amerískasti dagur sem til er.

Annars eyddum við allri helginni í Banff þjóðgarðinum í Klettafjöllum. Leigðum okkur bíl og keyrðum þangað uppeftir báða dagana. Og þvílík náttúra!
Fórum í tvær ágætis gönguferðir. Á laugardaginn keyrðum við upp að Lake Louise. Smaragðsgrænt jökulvatn í fjallasal í ca. 1750 metra hæð. Þaðan gengum við upp í 2134 metra hæð að vatni sem heitir Lake Agnes. Við það vatn er tehús þar sem hefði verið skemmtilegt að sitja inni og drekka te en þar sem við gleymdum öllum peningunum okkar í bílnum þá urðum við að láta okkur nægja að sitja úti og drekka kaffi af brúsa og narta í kex. Það var samt alveg í lagi þar sem himininn var næstum alveg heiðskýr og æðislegt útsýni.
Svo keyrðum við aðeins um þarna í þjóðgarðinum, sáum hjört inní miðjum bæ og brunuðum svo heim.

Sunnudaginn byrjuðum við á Dairy Queen því að á sunnudögum fær maður sér ís!
Eftir líter af mjólkurhristing á mann löbbuðum við inn ansi fínt gil sem kallast Johnston Canyon. Það var samt mun manngerðari slóð, næstum öll malbikuð og fín fyrir blessaða Kanana. Eftir það keyrðum við aðeins um Calgary og fundum nokkra huggulega staði í annars frekar kaldri borg.

En já. Í dag er það kalkúnn og ÚBBBSSS! Er klukkan orðin svona margt? Og kalkúnninn ennþá gaddfreðinn? Jæja, við hendum þá bara kjúklingabringum í örbylgjuofninn á "Speed Defrost"!

föstudagur, 5. október 2007

"No, but I really want to go to Jamaica sometime."

Við kíktum á háskólabarinn í U of C í gær. Drógum hann Oliver, bekkjarfélaga hennar Júlíu, með okkar. Hann er frá Nígeríu og hefur afskaplega skemmtilegar skoðanir á lífinu. Hann hefur búið hérna í Canada í 7 ár og starfar sem endurskoðandi fyrir Kanadísku ríkisstjórnina. Hann ætlar samt að flytja aftur til Nígeríu og segir að með hans menntun og bakgrunn þá fái hann konunglega meðferð þar.
Við buðum honum að sjálfsögðu í þakkargjörðarveislu. Það eina sem hann bað um var að við byðum fleiri stelpum en strákum!

Það kom líka í ljós á barnum hvað fólk getur verið vitlaust. Þjónustustúlkan sem afgreiddi okkur heyrði nefnilega á okkur að við vorum útlendingar og spurði að sjálfsögðu hvaðan við værum. Svo sagði hún okkur að hún hafi sko verið að vinna sem módel fyrir Hawaiian Tropic. "I've been travelling all over the world for the job. All over Canada and to the States and Mexico and everything!". Þá spurði Oliver hvort að hún hafi nokkurntímann komið til Afríku. Svarið sem hann fékk er einmitt titillinn á þessarri færslu.

Oliver og Hawaiian Tropic stelpan sem langar til Jamaica
Oliver og Hawaiian Tropic stelpan.

Svo skutlaði Oliver okkur heim og við elduðum okkur brauð í ofni með bökuðum baunum og osti. Alvöru stúdentamatur það!

Erum að fara að pikka upp bílaleigubílinn eftir smá og versla fyrir helgarferðina okkar. Ætlum að skoða Banff og Jasper þjóðgarðana í Klettafjöllum.

Bæ bæ.

fimmtudagur, 4. október 2007

Blessað Alnetið.

Nú er komin internet tenging hjá okkur hérna í Calgary. Við erum búin að vera að bölva nágrönnunum okkar í sand og ösku fyrir að vera með svona lélega þráðlausa tengingu fyrir okkur að stela af.
En í dag fengum við okkar eigin kapal, og þvílíkur lúxus. Það er nefnilega ómögulegt að búa í borg sem byggist upp á verslunarmiðstöðvum án þess að geta tjékkað á í hvaða "molli" hin og þessi búð er og á hvaða strætum eða breiðgötum þessi blessuðu "sjopping-moll" eru.

Hinsvegar er íbúðin okkar alveg í miðbænum þannig að allar helstu verslunarmiðstöðvarnar eru í göngufæri. Heppin við!
Svo erum við bara 4 götum frá helstu menningargötunni með öllum kósý matsölustöðunum og flottu búðunum samkvæmt hinum innfæddu.
Við erum reyndar bæði búin að labba þessa götu og okkur fannst nú lítið til hennar koma. Ekkert nema skyndibitastaðir, framköllunarstofur og eitt stykki Western Canada High School.

Annars vorum við að sporðrenna (ef svo má að orði komast) sinni hvorri steikinni, því það er víst það ódýrasta sem hægt er að kaupa í matinn... ekki amalegt það! Höfðum með því sósu, salat og sætuhnúða.

Svo stefnir allt í bílaleigubíl og akstur um Klettafjöll um helgina. Dúndra myndunum inn um leið og ég get.

Bless í bili.

mánudagur, 1. október 2007

O Canada...

Já, ég er mættur.

Og Kanada skartar sínu fegursta haust pússi fyrir okkur. Við skelltum okkur í göngutúr um háskólasvæðið í gær, fyrsta daginn. Ég held að svæðið sé stærra en póstnúmer 105 í Rvk. Samkvæmt Júlíu þá er þetta víst 40.000 manna samfélag, starfsfólk og nemendur semsagt. Það var reyndar ekki margt fólk á sveimi í gær enda sunnudagur.

Svo röltum við niður að Bowriver sem liggur í gegnum borgina. Ég rétt næ í þessa líka yfirþyrmandi haustliti á svæðinu. Við spáum því að laufin verði fallin fyrir helgi. Skellti inn nokkrum myndum á flickr síðuna mína.

Á eftir erum við svo að flytja af háskólasvæðinu og inní lúxusíbúð í miðbænum. Það er ótrúlegt hvað fátækt námsfólk getur leyft sér! Líka skemmtilegt að fá að flytja svona einusinni í hverri borg sem maður kemur til. Enda er ég mikill áhugamaður um flutninga.
Ég hendi svo inn myndum af íbúðinni bráðlega eftir að við fáum hana afhennta.

Bless