mánudagur, 25. febrúar 2008

Verktakapólitík og súrmatur

Nú er ég búinn að vera á Íslandi í 2 vikur og þegar búinn að vinna í 10 daga af þeim. Er farinn að vinna sem rafvirki hjá Rafmiðlun og þessa dagana er ég að vinna á 17. hæð í nýja Turninum í Kópavogi. Þessir fyrstu dagar hafa verið fjandi hressir með 11 tíma vinnudegi og mikilli innanhúss pólitík um vörulyftunotkun.

Eftir langa vinnudaga er lítið gert en þó höfum við náð að fara á fjölskylduþorrablót (þar sem ég borðaði súrmat í fyrsta skipti) og einnig á svona útálandi-sveitaskemmtun í boði DV á Selfossi og svo í síðbúinn kvöldmat á Ránargrund (lærissneiðar í raspi, ekkert slor það!).

Svo var hún Linda Lundbergsdóttir að útskrifast úr dönskunni í HÍ í gær og við mættum hress í útskriftarveislu til hennar og sögðum "Til lykke!" áður en við gæddum okkur á yndislegum kræsingum. Drukkum svo með henni bjór frameftir kvöldi og horfðum á Laugardagslögin sem hafa verið að kvelja landann síðasta misserið. Renndum við á Dillon til að kíkja á Gumma, Andra og Diðrik áður en sá síðastnefndi skutlaði okkur heim í Hfj.
Til hamingju Linda!

Í dag, fyrsta frídaginn minn þessa vikuna, vorum við Júlía svo þunn til skiptis og sváfum eiginlega allan daginn. Akkúrat það sem við ákváðum í gær að ætti ekki að gerast. Fengum svo lambalæri í kvöldmat (mmm) og eftir það var sett um bráðabirgða símasamband við svefnherbergið í risinu svo M&P geti nú horft á sjónvarp án þess að ryðjast inná á fólkið í kjallaranum. Skrítið að þurfa alltíeinu internet tengingu til þess að horfa á sjónvarpið (dagskráin á þessu heimilinu samanstendur af Fréttum og danska sunnudagsþættinum Forbrydelsen).

På gensyn.

fimmtudagur, 14. febrúar 2008

Sama gamla farið...

Af hverju hættir fólk alltaf að blogga þegar það flytur aftur til Íslands? Ég er greinilega engin undantekning. Hef varla skrifað heila málsgrein síðan ég lenti á litla ísklumpnum.
Er þetta vegna þess að það gerist ekkert markverk hérna? Eða er þetta gráa skammdegi svo hryllilegt að það deyfir alla sköpunargáfu og lífsgleði?
Það er nú það.

Ég hef varla hitt neinn síðan á mánudag. Ég býst við því að það sé bein afleiðing af því að búa ekki í póstnúmeri 101, 105 eða 107. Ég bý nefnilega í 220. Það er þó skárra en að búa í 270 eins og ég gerði um árabil.

Annars er Hafnarfjörðurinn bara temmilega ágætur. Ég hef kjallaraherbergi í gömlu bárujárnsklæddu timburhúsi sem er í næsta nágrenni við Súfistann, Bæjarbíó, A. Hansen, Ríkið, bakaríið og pulsuvagninn. Ikke så slemt.

Svo kemur Júlía fljúgandi hress í kvöld og við skellum okkur í sveitasæluna á Eyrarbakka yfir helgina. Og kannski í sund á Stokkseyri...

Hej då.

mánudagur, 11. febrúar 2008

Á eyjunni fögru...

Ég er semsagt mættur til Íslands. Er ennþá með gamla góða númerið ef þið viljið spjalla. Ef þið munið það ekki þá getið þið bara flett mér upp í símaskránni!

föstudagur, 8. febrúar 2008

Flug, flug, flug og aftur flug...

Ég eyddi gærkvöldinu á Kastrup. Það var ekki gaman. Ég átti að fljúga klukkan 20:40 en þegar hún var orðin ellefu og hverfandi líkur á að vélin legði af stað fyrir fjögur um nóttina þá ákvað ég að fá miðanum mínum breytt og fór heim að sofa. Þannig að nú á ég flug á sunnudagskvöldið klukkan 20:40 og vona að veðrinu lægi á Íslandi.

Ætli ég sé ekki búinn að eyða ca. 3 sólarhringum í flugvallahangs, transit og flug síðustu vikuna. San Francisco - Calgary - Frankfurt - København og svo vonandi Ísland á sunnudaginn.

Annars er búið að vera fínt í DK þessa vikuna. Sáum Mugison á laugardaginn. Virkilega góðir tónleikar og ég held að allir þeir sem ég þekki í Køben hafi mætt. Svo sendum við draslið okkar með skipi á miðvikudaginn og fögnuðum því á hverfispöbbnum Sommersted um kvöldið, eftir að Júlía hafði boðið mér, Ingu Rún og Braga út að borða.

Ég hef svo helgina til þess að bæta au pair skorið okkar Júlíu. Ég held að aldrei hafi verri gestir gist á B6. Ætli ég eldi ekki í kvöld, reddi hádegismat á morgun og skelli svo í eins og eina eplaköku við gott tækifæri.

Tchüssi