fimmtudagur, 31. janúar 2008

Öryggi?

Já. Núna erum við loksins komin í gegnum klukkutíma prósessinn sem að fylgir því að komast inn á amerískan flugvöll.

Við eyddum öllu gærkvöldinu í að pakka. Skutumst í mexíkanahverfið í gær og keyptum hræódýra tösku í kínabúð. Þegar við vorum svo búin að pakka vel í hana þá langaði Júlíu að taka aðeins í hana til að finna hversu þung hún væri. Hún var búin að lyfta henni u.þ.b. 13 cm þegar saumurinn á annarri hliðinni gaf sig og dótið flæddi út. Svitinn spratt framm og við sáum frammá að skilja allt draslið eftir því að klukkan var tíu og hvergi töskubúð opin á þeim tíma. Það eina sem okkur datt í hug var að fixa þessa töskudruslu hvað sem það kostaði.
Stukkum útí súpermarkað að versla viðgerðarefni... nál, ofur-tvinna, Duct tape, töskubönd og sourcream & onion Pringles. Allt þetta kostaði náttúrulega helmingi meira en töskufjandinn.
Tveim tímum síðar var hálf teiprúllan komin á töskuna og búið að sauma botninn með áttföldum ofur-tvinna og við gátum farið að stafla aftur í helvítið.

Þegar við komum á flugvöllinn klukkan sjö í morgun (níu tímum eftir töskusjokkið) var einungis boðið uppá sjálfsþjónustu innritun en þó með aðstoð starfsfólks. Þegar kom að því að vigta töskurnar flaug 70 lítra bakpokinn okkar í gegn en nýja Mexíkó/Kína/Duct-tape taskan stoppaði á viktinni tíu kílóum of þung. Þá var um tvennt að velja; borga ofurháa sekt fyrir að vera með of þunga tösku eða endurpakka með einhverju móti. Við ákváðum að endurpakka undir ströngu eftirliti innritunardömurnar og leyfa röðinni fyrir aftan að blóta okkur aðeins. Nú er bara að bíða og vona að límbandið haldi alla leið til Calgary. Þar ætlum við kaupa aðra tösku.

Eftir þetta farangurs ævintýri fengum við að sjálfsögðu sérmeðferð í öryggishliðinu. Fyrst þurftum við að standa til hliðar á meðan innanlandsfarþegar streymdu í gegn. Síðan fengum við að setja allt dótið okkar og skó í öðruvísi kassa en allir aðrir.
Hinumegin við málmleitarhliðið þurftum við svo aftur að bíða til hliðar á meðan dótið okkar var fært á milli borða og næstum úr augsýn. Loksins var okkur hleypt út úr þessu afmarkaða svæði sem við héngum í og þá tók einhvers konar öryggisklefi við. Það stóð ekkert á því og enginn sagði okkur hvað það gerir en við þurftum allavega að standa inni í því í ca. mínútu á meðan það blés á okkur lofti og sagði okkur að bíða.
Útum hliðið og að dótinu okkar þar sem við fengum að fylgjast með starfsmanni þessa frjálsa ríkis opna allan handfarangurinn okkar og strjúka allt draslið með litlum hvítum miðum sem hann setti svo inn í einhvað risa tæki sem að við vitum heldur ekkert hvað gerir. Að lokum fengum við svo að fara aftur í skó og peysur, setja á okkur beltin og raða öllum handfarangrinum aftur í töskurnar. Ótrúlega fljótvirkt og hentugt kerfi fyrir fólk á ferðalagi.

Þetta er næstum því jafn mikill skrípaleikur og þegar við stoppuðum á rútustöðinni í Portland á leiðinni hingað til San Francisco. En það er önnur saga. Við ætlum aldrei aftur til móðursjúkrar Ameríku!


UPPFÆRSLA:

Við erum komin til Calgary, töskutuðran meikaði það alla leið og við krossleggjum fingur fyrir flugið yfir Atlantshafið því við nenntum ekki að kaupa aðra tösku í dag.
Samkvæmt lókalnum erum við víst verulega heppin því að síðustu tvo daga hefur hitastigið á svæðinu verið um -45°C en í dag er það bara um -25°C. Barasta hin ljúfasta hitabylgja.

Calgary er æði, þó hún sé köld.

föstudagur, 25. janúar 2008

Cosmo Suites

(smellið á myndina)

Qualität im Quadrat

þriðjudagur, 22. janúar 2008

Martin Luther King Jr. Holiday

Laugardagurinn var ansi líflegur eins og sjá má á blogginu hennar Júlíu en síðan þá höfum verið veik!
Það fór ekki alveg nógu vel með þéttskipulagt dagatalið okkar en í staðinn náðum reyndar að hlusta á einn leik af íslenskum handbolta og horfa á tvo af amerískum handbolta. Niðurstaðan er að Íslendingar fara áfram í milliriðil á evópumótinu og að New England Patriots og New York Giants mætast í Super Bowl í febrúar. Þar höldum við með Tom Brady og Föðurlandsvinunum hans.

Eftir þennan íþrótta- og veikindadag var það pizza og svefn og í nótt fengum við svo fjórðu brunabjölluna á fimm dögum. Þurftum að stökkva í föt, grípa tölvurnar og vegabréfin og hlaupa niður 10 hæðir til þess að horfa á slökkviliðið koma og fara einusinni enn.

Ég held að sökkviliðsmennirnir hafi þó verið töluvert pirraðri en við, þeir þurftu að stökkva frammúr og í stígvél, búning, hjálm og reykköfunargalla og grípa svo með sér axir og kúbein þegar þeir hoppuðu uppí trukkinn til þess eins að standa með ca. 50 ungmennum í anddyrinu á Cosmo byggingunni.

Dagurinn í dag er hinsvegar stjórnmála- og veikindadagur. Erum búin að skemmta okkur vel yfir svikamyllunni í borgarstjórninni, fatakaupum framsóknarmanna og svo í kvöld er debat á CNN á milli frambjóðenda demókrataflokksins hérna í BNA.

Gífurleg spenna þessa dagana!

fimmtudagur, 17. janúar 2008

"Hvað er að frétta?"

Í dag fórum við á listasafn (kemur á óvart!). Reyndar önnur tilraun við þetta tiltekna safn, sem heitir de Young, en á sunnudaginn var snérum við við í innganginum vegna fjölda barna sem var á leiðinni inn. Gengum í staðinn Golden Gate Park á enda, alveg niður að kyrrahafinu.

Reyndar byrjuðum við daginn í japönskum lystigarði við hliðina á safninu. Vorum komin þangað klukkan 9 í morgun því það er frítt á þeim tíma á miðvikudögum. Kannski var aðal ástæðan fyrir því að við dröttuðumst svona snemma á lappir sú að herbergisþjónustan var farin að banka á dyrnar okkar til þess að fá að þrífa.

Af því sem var til sýnis á safninu þótti okkur ljósmyndir eftir David "Chim" Seymour, einum af stofnendum Magnum hópsins, áhugaverðastar.
Auk þess voru sýndar aldagamlar styttur og steinhögg frá mið- og suður ameríku, túrkmensk teppi, nýaldarlist og o.fl. o.fl. o.fl.

Eftir safnið brunuðum við í hálfrar aldar gömlum sporvagni niður í Castro, aðal homma- og lesbíuhverfið, til að kíkja á þýskt kvikmyndafestival. Ég held að þetta sé fjórða bíóið sem við prófum hérna í Frisco.

Þriðja bíóið var heimsótt fyrir helgi. Red Vic Movie House er rekið af gömlum hippavinahóp og er svaka kósý. Þar sátum við á afskaplega þægilegum bekkjum, átum popp úr tréskál og horfðum á Darjeeling Limited í annað skiptið.

Í öðrum fréttum get ég sagt ykkur að borgin er undirlögð af MacNördum sem eru að spóka sig á MacWorld ráðstefnunni. Tókum eftir því í gær þegar við heimsóttum Yerba Buena Center for the Arts.
Svo kom Júlía mér á óvart með því að finna opnun á sýningu Kathrine Westerhout. Hún hefur verið að taka myndir í byggingum í Detroit. Frekar flott ljósmyndasýning og eiginlega sú merkilegasta sem við höfum séð hérna í borginni. Klaufinn ég hellti þó næstum fullu rauðvínsglasi á risastóra mynd, ég held að það hafi ekki munað nema u.þ.b. 13 sentimetrum. Það sést kannski á þessarri mynd þar sem ég er að þrífa upp eftir mig. Ég skammaðist mín svo mikið að ég þorði ekki að biðja um meira...

En nú er tími til kominn að klára bjórinn sinn, skella sér á møntvask og spila Puzzle Bubble á meðan fötin snúast sína hringi í þvottavél og þurrkara...

* Tschüss

þriðjudagur, 8. janúar 2008

Hippar, Coen bræðurnir og Gondry

Við höfum verið heldur löt eftir áramótin. Stóðum fyrir partýi í lobbýinu á hostelinu okkar á gamlárskvöld og það vakti mikla lukku meðal flestra íbúa og starfsmanna. Við vorum samt ekkert alltof hress daginn eftir.

Fyrir nokkrum dögum fluttum við svo af hostelinu. Við tókum ákvörðun um að eyða janúar bara öllum hérna í San Francisco og tókum því herbergi á leigu. Húsið sem við búum í núna er ekki nema annað hús frá hostelinu svo það voru auðveldir flutningar.
Ef ykkur langar að senda okkur bréf eða eitthvað annað fallegt þá er addressan:
761 Post St. - # 1004
San Francisco, CA 94109
U.S.A

Við verðum hérna þar til 30. jan.

Svo er náttúrulega búið að vera óveður í Kaliforníu. Við höfum lítið fundið fyrir því fyrir utan smá rigningu síðastliðna daga. Erum búin að vera að reyna að nýta tímann í að skoða söfn og bókabúðir, prófa ný kaffihús og sitja fyrir framan sjónvarpið heima að fylgjast með æsispennandi forsetaefnis forkosningunum.
Við styðjum bæði demókratana en þó sitthvort frambjóðandann. Leikar æsast því lengra sem líður á mánuðinn en við missum samt af "Super Duper Tuesday" þann 5. febrúar, lokadegi forvalsins þar sem meginþorri fylkjanna halda forvöl, vegna þess að við verðum komin til DK á þeim tímapunkti.

(Hillary Clinton og Barack Obama spjalla um fríðindi þess að vera forseti BNA)

Á milli kosninga og kaffis er svo yfirleitt stíf dagskrá. Á sunnudaginn kíktum við á Cartoon Art Museum að skoða allskonar skemmtilegar teikningar og ramma úr gömlum teiknimyndum. í gær löbbuðum við upp í Haight, sem er hverfið þar sem hipparnir söfnuðust saman árið '67. Þar skoðuðum við fullt af second hand búðum, borðuðum eggjaköku, skoðuðum plötubúðina Amoeba og sögðum nei takk við gamlan hippa sem bauð okkur LSD.
Við þurftum þó að vera komin snemma heim því að við vorum búin að ákveða að fara á fyrirlestur í Apple búðinni sem er nokkrum götum frá okkur. Hann Michel Gondry kom nefnilega til þess að segja okkur frá framleiðslu nýjustu myndar sinnar, Be Kind Rewind og sýna okkur brot úr henni. Svo mætti annar aðalleikarinn óvænt en það er hann Mos Def. Þeir vissu ekki hvor af öðrum hérna í borginni en gistu víst á sama hótelinu. Mos Def var á leiðinni útá flugvöll þegar hann rakst á Gondry og ákvað að taka seinna flug til að koma að spjalla við okkur.
Þessi uppákoma var alveg þess virði að bíða í tvo tíma í röð fyrir utan búðina, sérstaklega vegna þess að við vorum framarlega og fengum sæti þegar við komum inn.
Við urðum samt fyrir smá áreiti af heimilislausum manni sem bað okkur um klink. Þegar við neituðum honum um það þá öskraði hann á stelpuna fyrir framan okkur: "Come on! You know what year it is? It's 2008! Come on, give me a dollar!"
Við veltum því fyrir okkur hvort að hann hafi alltíeinu fattað hvaða ár er, áttað sig á því að það er verðbólga í landinu og því hækkað kröfurnar úr smápeningum í heilan dal?

(Michel Gondry, Susan Gerhard og Mos Def spjalla um Be Kind Rewind)

Við fórum líka í bíó um daginn að sjá nýju Coen bræðra myndina, No Country for Old Men. Líklega besta mynd sem ég sé á þessu nýja ári, fyrir utan kannski ofarnefnda Gondry mynd. Farið að sjá þær báðar við fyrsta tækifæri.

(Bræðurnir Ethan og Joel Coen spjalla um No Country for Old Men)

En nú þarf ég að hætta því forvalið í New Hampshire er að byrja og ég þarf að horfa á CNN í nokkra klukkutíma. Og kannski panta eina Brooklyn Style frá Dominos í gegnum netið...