þriðjudagur, 7. júlí 2009

Papergirl

Þeir sem eru í Berlín einhvern tíma á tímabilinu 17. - 31. júlí ættu endilega að kíkja við á Karl-Marx-Straße 171 (U-Bahn stöð Rathaus Neukölln). Þar sýnir Papergirl hópurinn listaverk sem honum hefur áskotnast síðasta árið, þar á meðal nokkrar ljósmyndir sem ég sendi þeim.

Viku eftir að sýningin opnar hjóla svo meðlimir hópsins um alla borg og gefa gangandi vegfarendum flest verkin. Þó mun eitt verk eftir hvern listamann verða áfram til sýnis í áðurnefndum höfuðstöðvum hópsins.

Opnun sýningarinnar er þann 17. júlí klukkan 19:00.

Meira um verkefnið á www.papergirl-berlin.de

sunnudagur, 5. júlí 2009

Það er slæmur ávani að blogga bara á mánaðar fresti. Ég þarf að venja mig af honum.

Síðasti mánuður í stuttu máli: Atvinnuleysi, smiður í einn dag, grillveisla hjá Ágústi og Hildi, Berlín í fimm daga, grillveisla hjá Davide, franskur gestur, Roskilde Festival í einn dag, grillveisla hjá okkur, endalaus hiti og sól.

Í löngu máli:
Ég er atvinnulaus. Ef einhver þekki ljósmyndara einhverstaðar sem vantar lærling, eða bara hjálp annað slagið, þá má hinn sami endilega láta mig vita.

Júlía fékk Berlínarferð í afmælisgjöf frá ástkærum eiginmanni sínum. Við fórum þangað um miðjan mánuðinn og gistum hjá Rut og Stebba.
Það er pínu hættulegt fyrir okkur að fara til Berlínar vegna þess að eftir hverja heimsókn langar okkur alltaf meira og meira að flytja þangað.
Í þetta skiptið fórum við á flohmarkt á Boxhagener Platz, smökkuðum cupcake, skoðuðum ljósmyndagallerýið C/O Berlin, fengum okkur nokkrar currywurst, fórum á tónleika með Fleet Foxes og fengum dýrindis mat hjá Monsieur Vuong. Þetta var allt frábært, en skemmtilegast var nú að hitta Rut, Stebba og börnin þeirra Úlf og Rán, og svo Þórhildi og Karítas dóttur hennar.
Takk fyrir okkur Rut og Stebbi!

Xavier er franskur. Hann gistir á sófanum okkar þessa dagana. Við tókum hann með okkur á Hróarskelduhátíðina á föstudaginn og buðum honum svo í grillveislu í gær. Í veisluna mættu margir og það voru sirka jafn margir Útlendingar og Íslendingar. Frakki, Ítali, Grikki, Dani, Norðmaður. Útlendingarnir voru sérstaklega sáttir við hvalkjötið og voru margir farnir að spá í hvernig væri best að standa að útflutningi og markaðssetningu.

Á Hróa sáum við m.a. Fleet Foxes (aftur), Faith No More, Nick Cave and the Bad Seeds, The Mars Volta, 2manyDJs og hið stórskemmtilega Gangbé Brass Band. Hitinn var þó við það að drepa alla gesti hátíðarinnar og allir skuggablettir þétt setnir.

Myndir frá öllu þessu koma vonandi bráðlega þ.e.a.s. þegar ég fæ filmurnar út framköllun.

Tschüss