mánudagur, 31. desember 2007

Gleðilegt nýtt ár!!! NB: Löööng færsla. Ársuppgjör!

(það er önnur færsla fyrir neðan sem þið eigið líklega eftir að lesa líka ;)

Nýja árið byrjar í miðju ferðalagi en ég býst samt ekki við því að það verði jafn mikið flakk árið 2008 og er búið að vera þetta síðastliðna ár.

Á nýársdag 2007 flaug ég skítþunnur heim til Danmerkur eftir vel heppnaða jólareisu til Íslands. Fyrstu fimm vikum ársins eyddi ég í skólanum og í að flytja með Óla, Sigga T og Kolbrúnu í nýja íbúð en 9. feb. flaug ég svo, nýorðinn kvartaldargamall, til Bangkok með tveggja daga viðkomu hjá Diðrik í Tokyo.

Í Bangkok hitti ég svo Egil og Hildi og skoðaði með þeim menningu, hof og strendur Thailands og Kambodíu í þrjár vikur. Rákumst svo óvænt á Daða og Ástu inni á frekar sóðalegu internet kaffi í höfuðborg Kambodíu og þau slógust í för með okkur. Frekar ljúft allt saman.
Ég held að það minnisstæðasta frá þessu ferðalagi hafi samt verið 6 tíma leigubílaferðin frá landamærunum til Siem Reap á skrjáfþurrum moldarvegi í sól og logni með ótrúlega mikilli trukkaumferð og frammúrakstri og 3 metra skyggni á köflum. Að sitja vinstramegin frammí í hægrihandar umferð við þessar aðstæður er svolítið taugatrekkjandi. Fyrirgefið mamma og pabbi að mér finnist gaman að ferðast svona...

(Hildur og Egill í Kambódíu)

Flaug svo aftur frá Bangkok til Tokyo og eyddi viku hjá Diðrik, en þá var Gummi kominn yfir hnöttinn líka og við þrír áttum góðar karaoke-, sushi- og dótabúðastundir saman. Diðrik bjó í ca. 11 fermetra íbúð með baðherbergi sem líktist helst flugvélarklósetti með sturtu. Við Gummi vorum með sitthvora dýnuna og tókum allt gólfplássið sem eftir var, ég svaf t.d. á ganginum fyrir framan þetta forláta heilsteypta plastklósettsturtuvasksjúnit. Afskaplega kósý og innilegt allt saman. Takk kærlega fyrir gistinguna Diðrik, þetta var einstakt!
(Gummi, ég og Diðrik í Tokyo)

Eftir Tokyo var það svo vika í kaffihúsa- og safnahangsi í París. Hitti Kötlu þar í Evrópuaðlögunarviku áður en ég fór heim til Køben í vinnu og allt það.
(Katla í París)

Í DK beið mín glæný íbúð, sem að Siggi og Óli voru búnir að gera frekar heimilislega, og glæný vinna. Skrítið að koma heim úr svona löngu ferðalagi og beint í nýtt líf. Og líka frekar skrítið að búa og vinna með sömu góðu vinunum. Einhvernvegin gekk það samt með afar litlum pirringi og við skemmtum okkur nú yfirleitt frekar vel saman.
(Siggi, Óli og Kolbrún á Ben Websters Vej)

Um páskana tók ég Íslandsreisu til þess að pakka öllu dótinu mínu á Spítalastígnum því að M&P voru búin að kaupa hús í Hafnarfirðinum. Man ekki betur en að ég hafi farið næstum beint á flugvöllinn af Sirkus klukkan 5 á aðfaranótt annars í páskum.
Af hverju enda allar ferðir til Íslands svona?

Í maí skrapp ég í sólarhrings vinnuferð með Óskari til Þýskalands.
Stuttu síðar kíktu M&P í heimsókn til DK og við skutumst í fjölskylduferð til Svíþjóðar að kíkja á ættingja. Skemmtilegur rigningargöngutúr í miðbæ Gautaborgar með viðkomu í listasafninu stendur uppúr.
Viku seinna var ég svo kominn í helgarferð til Íslands í kvartaldarafmælisveislu hjá Didda. Þau Kata með barn og nýja íbúð. Allt að gerast þar. Til hamingju með það!

Í Júní rigndi mikið í Køben eftir frekar gott vor. Einn af þessum rigningardögum hélt hann Bibbi Brók skólafélagi minn og vinur frekar skemmtilegt útifestival. Í miðjum skóginum í Amager Fælled fann ég hann og alla þrjá gestina sem voru mættir. Nokkrum klukkutímum síðar var stytt upp og Bibbi Bróks Jungle Festival virkilega komið í gang. Og einn af þessum tugum gesta var mjög skemmtileg stelpa sem er næstum jafn skrítin og ég.
(Bibbi Brók og fyrstu gestir á Bibba Bróks Jungle Festival)

Þessarri skemmtilegu stelpu fór ég svo með á annað festival (Trailer Park Fesitval) helgina eftir ásamt því að baka pönnukökur í skírnarfögnuðinum hennar til heiðurs Isabellu Henriettu Ingridar Margrethe prinsessu af Danmörk.
Júlía er nefnilega frekar mikið fyrir dönsku konungsfjölskylduna.

Rómantísk safn/sushi Malmø dagsferð og þriðja festivalið (Roskilde Festival) okkar Júlíu á þremur helgum einni viku síðar.
(Ég og Júlía á Roskilde Festival)

Enn ein Íslandsförin var í júlí. Þá eyddi ég viku á landinu góða. Fór í árlega útilegu í Brynjudalinn, keyrði á Strandir með Jónasi og Þorbirni, skrapp í ársafmæli hjá Vilhelm Namasyni, tók góða göngu með Agli og Atla og lenti í óvæntu brúðkaupi hjá Gunna frænda og Maju.
(Egill í göngu)

Í ágúst fór ég í helgarmenningarreisu til Íslands á Menningarnótt í Reykjavík. Sorry allir þeir sem ég hitti ekki þar. Ég var upptekinn!

Í byrjun sept. fór Júlía til Calgary og ég var heimilislaus eftir að við strákarnir sögðum upp íbúðinni. Ég fékk að gista hjá Kobba og Sóley (TAKK!!!) og Ingu Rún og Braga (TAKK!!!) og í byrjun okt. var ég kominn til Kanada líka. Þar er okkar fyrsta íbúð og við fórum í gönguferðir um Klettafjöll, heimsóttum Dave (interrail félaga okkar Óla) og skoðuðum olíufylkið Alberta auk þess að taka vikuferð til Vancouver, æfa krullu, spila squash og renna okkur í bobsleða.
(Ég er farinn að halda að Júlía sé atvinnukona í squash því hún vinnur mig alltaf!)

Í lok bissnessskóla annarinnar stigum við svo uppí Greyhound rútu og keyrðum í 42 tíma alla leið til San Francisco þar sem erum búin að vera um jól og áramót og ætlum að eyða fyrsta mánuði ársins sem er að hefjast.

Allt í allt þá tel ég 17 flug á þessu ári og yfir 100 klukkustundir í rútum.

Takk kærlega fyrir síðasta árið og þau sem á undan komu allir mínir frábæru ferðafélagar, vinir og fjölskylda... þið vitið hver þið eruð!

Og ég dáist að ykkur sem nenntuð að lesa þetta allt! Ef þið hafið einhverju við að bæta þá endilega hendið því inn í komment. Ég get ekki munað allt sem skeður á svona viðburðaríku ári...

Fog City

Á Íslandi eru jólin hátíð ljóss og friðar en við ákváðum að jólin okkar í "The Sunshine State" yrðu að japönskum sið. Þar í landi fíla þeir virkilega þessa miklu verslunarhátíð en jóladagur er samt aðallega til þess að fara á stefnumót. Og þar sem við vorum spurð um daginn hversu lengi við værum búin að deita þá ákváðum við að fara út á deit að borða sushi á jóladag, að japönskum sið.
Við urðum líka afskaplega hissa þegar við skoðuðum matseðilinn hjá Sushi BOOM! og sáum að þeir bjóða uppá djúpsteikta Kaliforníurúllu og urðum að prufa það.
Sushi uppgötvun ársins! Og ekki seinna vænna, árið alveg að verða búið.

Í tilefni af því (og í framhaldi af japanska jólaþemanu) fórum við í dag á Asian Art Museum að hringja inn japanska nýárið. Þar var múgur og margmenni í röð að bíða eftir að banka trédrumb í risastóra bjöllu. Við ákváðum að þetta fólk væri mun betur fallið til þess að hringja inn nýtt ár og að bíða í röð svo við skoðuðum bara safnið í rólegheitum í staðinn. Stórglæsilegt safn sem sýnir menningarsögu Asíu eftir menningarsvæðum. Í lobbíinu voru svo listamunkar frá Tíbet að stunda iðju sína. Afar ljúf menningarbomba.
Eftir á smökkuðum við langþráð Eggs Benedict (sem er yfirleitt einungis boðið uppá um helgar) og sáum rottu hlaupa inní eitt af flottustu Viktoríu húsunum í borginni.

(Munkur málar mynd og Júlía borðar Eggs Benedict)

Annars erum við búin að vera nýta tímann á milli jóla og nýárs í að skoða menningarflóruna í borginni en auk Asíusafnsins kíktum við á Craft+Design safnið, þar sem voru til sýnis ljósmyndir af listamönnum á San Francisco svæðinu auk verka eftir sömu listamenn, og vörðum svo hálfum degi á SFMOMA þar sem Ólafur Elíasson er aðal númerið með tvær sýningar og Jeff Wall var með hálfa hæð undir risastórar baklýstar ljósmyndir auk þess að safnið er með frekar flott kolleksjón til sýnis.
Svo leiðist okkur nú ekki að skoða útgáfu annarra í safnverslununum og kannski splæsa í eitt eða tvö póstkort.

Við fórum líka í svaka hjólatúr yfir Golden Gate brúnna og yfir til Sausalito og ferjuna þaðan til baka yfir flóann. Eftir þessa miklu hreyfingu komum við dauðþreytt heim á hostelið og fórum þaðan beint í pöbbarölt með öðrum íbúum og einum starfsmanni. Enduðum dansandi full og örugglega mjög skemmtileg.

Og svo ættu ljósmyndaferils hjólin að fara að rúlla. Ég er búinn að vera að sanka að mér tækjum og vitneskju síðustu árin en í gær tók ég stórt skref í átt að frægð og frama þegar ég keypti mér mínar fyrstu flauelsbuxur í 15-20 ár.
Ef að þið sjáið mig svo með axlabönd þá ætti að vera orðið stutt í að það hangi myndir eftir mig á veggjum einhvers temmilega virts sýningarrýmis.

þriðjudagur, 25. desember 2007

Gleðilega hátíð.

Gleðileg jól kæru lesendur og takk fyrir öll kommentin á liðnu ári.

San Francisco jól eru skrítin en góð. Byrjuðum aðfangadag snemma á skæpinu, hringdum á Eyrarbakka, Flateyri og í Hafnarfjörð. Um það bil sem við skelltum á var verið að hringja inn jólin á Íslandi en hér var klukkan bara 10 um morgun og við þutum með leigubíl í óperuhúsið á balletsýningu á Hnotubrjótnum hans Helga Tómassonar (með smá aðstoð frá Tchaikovsky og San Francisco ballettinum).
Eftir dásamlegt show kíktum við í bæinn á jólaösina við Union Square en þreyttumst fljótt á því og þurftum að leggja okkur á hostelinu fyrir jólasteikina.

Á slaginu 6:38 PM á Kalifornískum tíma var kallað í mat í kjallaranum á gistiheimilinu og allir gestir og starfsfólk settust saman að snæðingi. Matseðillinn hljómaði uppá svínakjöt, kartöflumús, gular baunir, aspars og bjórgnægð.
Eftir þessa ljúfu matarveislu var svo sest við barinn og skálað í kampavíni.
Áður en langt um leið var svo tekin ákvörðun um að skella sér á karaoke bar. Skipulagðir Svíar smöluðu hópnum í 5 leigubíla en þegar við komum á áfangastað var auðvitað harðlokað. Leigubílstjórarnir kepptust við að finna aðra bari fyrir okkur en allt kom fyrir ekki, við enduðum aftur á hostelinu 20 mínútum og 20 dölum síðar. Þar settumst við aftur á barinn og spjölluðum við þennan alþjóðlega skríl langt fram á nótt.

Annars er búið að vera afskaplega ljúft hérna í borginni við flóann. Við fengum 4 tíma leiðsögutúr um borgina á öðrum degi. Hún Diane sem stjórnaði því flutti hingað frá New York fyrir átta mánuðum. Íbúðin hennar var ekki tilbúin þegar hún kom svo hún fór á hostel, þótti það svo gott að hún sagði upp íbúðinni og býr hérna ennþá.
Með henni fórum við upp og niður nokkrar hæðir, í gegnum litlu Ítalíu, snæddum á Caffe Trieste þar sem Francis Ford Coppola sat löngum stundum og breytti bókinni um Guðfaðirinn í kvikmyndahandrit, lærðum um "beat" kynslóðina á The Beat Museum, röltum um húsasund Kínahverfisins, smökkuðum á framleiðslunni hjá Golden Gate Fortune Cookie Factory og skoðuðum rándýr listaverk í töff galleríum.

Afskaplega afslappað eftir 42 tíma rútuferð frá Calgary með viðkomu í Vancouver, Seattle, Portland og Sacramento, í samfloti með móðursjúkum og skapstyggum mæðrum, húsmæðrum á leið til Las Vegas, konu sem nýtti tímann í að læra spænsku og æfa sig á fiðlu og dularfullum Seattle búa á leið til Tijuana með einungis stál skjalatösku.

Núna liggjum við uppí rúmi og erum að narta í jólamat... örbylgjupopp, súkkulaðikex og kók í dós, alltsaman úr sjálfsala þar sem allt er lokað.

miðvikudagur, 19. desember 2007

Bitter Sweet Calgary

Topp 5

1. - Calgary Curling Club:
Klúbburinn þar sem ástríðan kviknaði. Og besti bar bæjarins.

2. - Beano Caffe:
Eina kaffihúsið í borginni sem afgreiðir kaffi í bollum en ekki pappaglösum. Frekar næs staður líka.

3. - The Plaza:
Í miðju Kensington. Einn salur. Stórskrýtið starfsfólk. Halloween sýning á Rocky Horror Picture Show. Frábært bíó!

4. - Canada Olympic Park:
20 mín. í lest og 20 mín. í strætó frá miðbænum. Kíktu á skíði eða bretti í brekkunum, skelltu þér á skíðastökksæfingu eða bara beint í adrenalínbombuna sem bobsleðabrautin býður uppá.

5. -
Shaw Internet:
Við höfum hvorugt kynnst annarri eins þjónustu. Fengum fyrsta mánuðinn frítt og svo 35 dalir á mánuði eftir það. Sendum þeim svo e-mail með viku fyrirvara um að við vildum segja þjónustunni upp. Fengum ekkert svar, en þegar við fórum niðrá aðalskrifstofu til þeirra, skjálfandi með næsta reikning í höndunum og tilbúin að grátbiðja þá um að rukka okkur ekki fyrir febrúar, mars og apríl líka, sagði afgreiðslustúlkan okkur að skilaboðin hefðu komist til skila og þjónustan yrði aftengd þann dag sem við höfðum beðið um. Einnig sagði hún okkur að þeir skulduðu okkur peninga fyrir þessa 12 daga sem væru eftir af mánuðinum og að við gætum skilað módeminu þegar við værum búin að nota það og fengið 20 dali fyrir.
3 mánuða þjónusta, fyrsti mánuðurinn frír, síðasta hálfi mánuðurinn endurgreiddur og 20 dalir til baka fyrir módemið. Enduðum með að borga 35 dali fyrir 3 mánuði. Ég sæji það gerast hjá TDC, Cybercity, Símanum eða Vodafone.


Botn 5

1. - +15 walkways:
Göngubrúakerfið sem tengir allar byggingarnar í miðbænum. Fengum okkur göngutúr um það um daginn. Fundum allt fólkið sem ætti að vera úti á götu í miðbænum. Þurrt loftræstiandrúmsloft sem svíður í augun, milljón Starbucks™, ennþá fleiri tannlæknastofur og í raun ekkert annað en stærsta verslunarmiðstöð sem ég hef komið í!

2. - Skemmtanalífið:
Við höfum nokkrum sinnum reynt að fara á bari. Þeir sýna allir sem einn hokkí hverja einustu sekúndu af opnunartímanum. Við reyndum líka að komast inn á klúbb til þess að halda uppá próflok með bekknum hennar Júlíu. Okkur var vísað frá vegna þess að ég var í strigaskóm (NB kolsvörtum adidas).

3. - Bílastæðahús:
Það vinna næstum allir borgarbúar í miðbænum. Það býr hinsvegar næstum enginn þar og afar lítill hluti notar almenningssamgöngur. Þ.a.l. sjást bílastæðahús hvert sem maður lítur.

4. - Mannlífið:
Heimilislaus eða Olíubarón. Ekkert þar á milli.

5. Stórskjás Jólasveinar:
Við fórum í dýragarðinn um daginn. Þar var risastórskjár þar sem Jólasveinninn var í beinni og spjallaði við krakkana. Karen vinkona okkar heldur að þetta sé afar ruglandi fyrir barnaskarann því að það viti öll börn að Jólasveinninn eigi heima í verslunarmiðstöðinni en ekki í dýragarðinum. Við höldum að hann sé bara afar tæknivæddur og noti Skype til þess að netspjalla við skrílinn beint frá Smáralind með hjálp Shaw Internet.

mánudagur, 17. desember 2007

Canada Olympic Park

Calgary Bobsleigh Track:
Length: 1475m
Maximum Grade: 15%
Vertical Drop: 121.2m
Average Grade: 8.6%
Maximum G Force: 4.5G





Track Record:

53.50 sec Andre Lang/ Rene Hoppe/ Kevin Kuske/ Thomas Poege GER Nov 22/03
53.50 sec Pierre Lueders/ Giulio Zardo/ Ken Kotyk/ Al Hough CAN Nov 22/03

Okkar Tími:
59.97 sec (mesti hraði 124.5 km/klst)



Afleiðing:



Myndir:
Hér

fimmtudagur, 13. desember 2007

7 dagar

Þá er bara vika þangað til að við leggjum í hann til San Francisco. Við erum búin að fá pössun fyrir ferðatöskurnar okkar í einn og hálfan mánuð en bakpokarnir fá að koma með til Kaliforníu.

Þótt ótrúlegt megi virðast þá eigum við eftir að gera slatta í Calgary. Við erum búin að ákveða að taka okkur göngutúr um einhvern hluta þessum 16 km sem +15 kerfið spannar og tengir flest allar byggingarnar í miðbænum.
Einnig ætlum við að kíkja í Ólympíu garðinn að skoða skíðastökkpalla og bobsleðabrautina frægu, leika okkur aðeins í Childrens Creative Museum, borða Serious Steak á Chicago Chophouse, koma við í bókabúðunum Pages og Wee Book Inn, fá okkur kaffi og taka myndir á Beano (uppáhalds kaffihúsinu okkar), taka lokapróf í krullunni, kíkja í bíó á The Plaza og fá okkur bjór á slökkviliðsstöð sem hefur verið breytt í bar.

Við fórum í bíó um daginn að sjá nýju Wes Anderson myndina, The Darjeeling Limited, og vorum afar sátt við hana. Júlía hafði aldrei séð neitt frá honum Wes áður og heimtaði meira svo að við horfðum á The Life Aquatic kvöldið eftir. Hún svaf yfir fyrri helmingnum af henni þannig að hún var ekki alveg jafn hrifin og eftir bíóferðina.

Í dag las ég Leyndarmálið hans Pabba sem mamma og pabbi voru svo elskuleg að senda okkur. Frekar skemmtileg og flott myndskreytt bók eftir Þórarinn Leifsson. Ábyggilega Nóbelsverðlauna efni eins og bókin sem ég byrjaði á strax á eftir, Snow Country eftir Yasunari Kawabata. Diðrik heldur ekki vatni yfir henni þannig að ég verð víst að kíkja á hana.
Annars eru allar hirslur að fyllast af bókum á litla heimilinu okkar, ég held að það liggji þrjár eða fjórar á náttborðinu eins og er. Júlía les ekkert annað en skólabækur þessa dagana en ég er að hamast við að klára eitthvað af þessu áður en við skjótumst suður í sæluna með hinum farfuglunum.

sunnudagur, 9. desember 2007

Krulludagurinn mikli...

var í gær. Við mættum á tveggja tíma æfingu um fimm leytið og í lok hennar fengum við mikið hrós fyrir framfarirnar. Strákaliðið vann aftur en Júlía var 2 cm frá því að stela sigrinum með síðasta steininum.
Svo skelltum við okkur á krullubarinn í bjór og burger með nokkrum samnemendum, þeim Lauru, Ron og Vicki.

Laura þurfti samt að fara snemma því að hún átti eftir að kaupa jólakalkúninn og gjafakort í verslunarmiðstöðina handa börnunum sínum í jólagjöf (krakkarnir fara svo kl. 7 á annan í jólum og versla frá sér allt vit) og ætlaði að gera það áður en hún skellti sér í háttinn. Hún þurfti nefnilega að vakna klukkan 6 til að bera út póst. Hún er búin að vinna hjá póstinum í 30 ár (frá því að hún var 18 ára) og stefnir á að fara á eftirlaun eftir 2 ár.

Ron og Vicki eru hinsvegar um 60-65 ára og vinna af fullum krafti, Ron var meira að segja að tala um að fara í póstútburðinn þegar að hann fer á eftirlaun.
Þau eru á því að litlu ákvarðanirnar í lífinu skipti mestu máli, þau hittust nefnilega í rútu í Tyrklandi fyrir 20 árum og þar sem þau voru eina einhleypa fólkið í rútunni þá settust þau náttúrulega saman og voru gift ári síðar.

Eftir kvöldmat og könnu af bjór tókum við Júlía svo að okkur International Extreme krullukennslu fyrir Anders og Morten (danska bissnessskólafélaga) og þrettán vini þeirra af ýmsum þjóðernum. Sannkallað crash course þar sem við sýndum alla okkar þriggja vikna reynslu á innan við 10 mín.
Það skilaði misjöfnum árangri (ein stelpan rak kúst í höfuðið á annarri, smá hluti af ísnum brotnaði o.fl.) en flestir virtust skemmta sér vel við að renna steinum og sópa ís, og greinilega nokkrir óslípaðir demantar í þessum hóp.

Eftir krulluna tróð allur hópurinn sér inní tvo bíla og keyrt að næsta bar.

Myndir hér!

þriðjudagur, 4. desember 2007

Leiðinlegasta borg sem ég hef búið í.

Nokkrar staðreyndir um Calgary, Alberta:

- Meðal hitastig yfir árið er 3.6°C miðað við síðustu 1276 mánuði, eða frá því árið 1881.

- Við höfum einungis fundið eitt kaffihús sem serverar kaffi í bollum en ekki pappaglösum.

- Flest störf í borginni eru í sambandi við olíu- eða gasiðnaðinn. Það eru yfir 800 olíufyrirtæki hérna.

- Borgin er á tímabeltinu GMT -7 sem þýðir að við erum 7 tímum á eftir London og 8 tímum á undan Köben/Berlín/Barcelona/Milano/...

- Á meðal laugardagsgöngutúr útí krulluhöll rekumst við yfirleitt ekki á fleiri en svona 5 manns á gangi (ef ekki eru taldir verkamenn sem eru að byggja háhýsi). Þess má geta að við göngum í gegnum allan miðbæinn eða u.þ.b. 14 blocks norður og 3 blocks austur.

- Það er hægt að ganga innanhús á milli flestra bygginga í miðbænum í gegnum svokölluð +15 gögn sem eru 15 fetum yfir götunum. Þessi göng spanna 16 km og tengja meira en 100 byggingar. Þau eru meðal efnis kvikmyndarinnar WayDownTown, sem gerist í Calgary og fjallar um skrifstofufólk sem lifir í umhverfi þar sem sjaldan þarf að fara út og í stað þess hrærist það í flúrosent birtu, loftræstingarlofti og matarvöllum ("food court", eins og Stjörnutorg, sko). Við höfum ekki ennþá séð þessa mynd en hún virðist vera algjört möst.

- Verslunarmiðstöðvar loka um 7 að kvöldi á sunnudögum í Calgary. Það þykir lítill opnunartími í þessarri heimsálfu.

- Áður en ólympíuleikarnir voru haldnir hérna árið 1988 þá var borgin þekktust fyrir The Calgary Stampede. Það er 10 daga rodeo festival sem er haldið ár hvert, byrjar í annari vikunni í júlí og kallar sjálft sig " The Greatest Outdoor Show on Earth". Þeir eru ekkert að skafa utanaf því hérna í Calgary.

- Í borginni búa u.þ.b. 1.2 milljón manns. Þar af eru 15.500 manns af dönskum ættum. Dansk-Kanadíski klúbburinn í Calgary er staðsettur tveimur götum frá okkur.

- Í miðbænum eru 47.000 bílastæði. Af þeim eru 3.000 sem þarf ekki að borga í á sunnudögum. Ég efast samt um að nokkur nýti sér það.

- Owen Hargreaves er fæddur í Calgary 20. janúar árið 1981. Greyið hann.


Þetta er allt sem ég nenni í bili. Þið fáið kannski meira síðar...

sunnudagur, 2. desember 2007

Hver elskar ekki Greyhound?

Við erum búin að ákveða að flýja þessa ísköldu olíuborg. Þannig að ef þú ert búin(n) að kaupa þér flugmiða til okkar og ætlaðir að koma okkur á óvart um jólin þá mæli ég með að þú seljir hann því við verðum ekki heima. Erum búin að segja upp íbúðinni og kaupa okkur rútumiða til San Francisco, ekki nema 42 klst. keyrsla sem hefst þann 19. des. Búumst við að koma aftur til Calgary um 30. jan.

Annars var önnur krulluæfingin í gær. Myndir hér.

Gleðilegan fyrsta sunnudag í aðventu! Ég er farinn að baka smákökur.