föstudagur, 30. nóvember 2007

Squash.... aftur

Júlía rústaði mér í squash... vann báða leikina 3-1. Ég verð nú bara að viðurkenna að ég er ekki góður í þessarri skítugu íþrótt. Samt læt ég alltaf til leiðast að kíkja með henni í skólann og láta rústa mér...

Held að maður ætti að kaupa sér spaða hérna svo ég geti æft mig í laumi og rústað henni einn daginn.

Fórum í útivistarbúð um daginn og langaði að kaupa allt. Það er allt svo ódýrt að maður tapar eiginlega á því að kaupa ekkert. Snjóbuxur, bakpokar, flíspeysur og vesti, fyrstuhjálparsett, prímusar og legghlífar, allt æpir þetta á mann.
Júlía fékk mini-svefnpoka fyrir bakpokaferðalagið í janúar og ég sætti mig við fagurblátt föðurland, því það eru -10°c til -20°c þessa dagana.

þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Krulla

Dave var hjá okkur um helgina. Hann stalst með okkur á fyrstu krulluæfinguna okkar. Við viðurkenndum öll eftir æfinguna að virðing okkar fyrir sportinu snarjókst. Mjög tæknilegt sport og drullu erfitt í alla staði en mjög skemmtilegt. Kíktum síðan á krullubarinn. Vöknuðum ansi stirð daginn eftir (og ekki bara eftir bjórinn). Ætli maður endi ekki í krulludeild Þróttar, sérstaklega ef það er jafn góður og ódýr bar þar.

Verst að við vorum svo upptekin við að halda jafnvægi á ísnum að við gleymdum gjörsamlega að taka myndir. Mæli með að þið kíkjið í staðinn á þetta (og veljið flash animation) til þess að sjá hvað við vorum að læra.

fimmtudagur, 22. nóvember 2007

Pönnukökuboð

Af því að við erum nú með tvo stóla og sæmilegt borð fyrir tvo í íbúðinni okkar þá ákváðum við að sjálfsögðu að bjóða fimm manns í mat, sjö í heildina semsagt. Gestirnir koma í kvöld.
Þetta þýðir að við þurfum að fá lánaða 5 stóla hjá hússtjórninni og auk þess nokkra matardiska og hnífapör. Af því að við ákváðum nú eftirréttinn fyrst, íslenskar pönnukökur, þá fannst okkur við hæfi að hafa aðalréttinn í stíl. Mexíkóskar pönnukökur (tortillas) með allskonar gummsi. Fáránlega gott.

Og já, fyrir þá sem eru að velta því fyrir sér af hverju þetta blogg snýst næstum eingöngu um mat, þá er það vegna þess að ég hef voða lítið annað að skrifa um. Við stöndum sjálf okkur stundum að því að tala um hvað við eigum að hafa í kvöldmat jafnvel áður en við kíkjum á morgunverðinn.

Við fáum reyndar hann Dave, vin minn frá Edmonton, í heimsókn á morgun. Hann ætlar að koma og skoða þessa blessuðu bissnessborg með mér á meðan Júlía liggur yfir skólabókunum og koma svo með okkur á krulluæfingu á laugardaginn. Held reyndar að hann ætli bara að sitja á krullubarnum og hlæja að okkur.
Ætli ég hafi ekki efni í aðra færslu eftir það...

sunnudagur, 18. nóvember 2007

Ferðasaga: 4. og síðasti hluti

11. nóvember ár hvert er Rememberance Day. Þá nælir fólk á sig rauðum gervi blómum, "poppy", til minningar um fallna hermenn og loka fyrri heimstyrjaldarinnar þann 11. nóvember árið 1918.
Við tókum reyndar engann þátt í þessum athöfnum. Fengum okkur bara bestu ostaköku bæjarins með morgunkaffinu á Trees Organic Cafe og skelltum okkur svo á Vancouver Art Gallery. Þar sáum við frekar skemmtilega ljósmyndasýningu eftir Roy Arden, video verk eftir Mark Lewis, málverk eftir Georgiu O'Keeffe og einhverja lókal kúnstnera. Svo var líka svolítið skemmtilegt að hann Roy fékk að velja verk í sýningu úr safni gallerísins.

Eftir þessa hressu menningarbombu borðuðum við svo kínamat á stað sem heitir Oji, röltum í búðir og héngum á Blenz í kaffidrykkju og rommí spilun (Júlía gjörsamlega rústaði mér í spilamennskunni), þar til við fórum á tónleika með Manchester Orchestra og The Annuals á Plaza klúbbnum. Vægast sagt slappir tónleikar. Mikil háskóla angist í gangi hjá meðlimum beggja banda og allir mjög þjakaðir af því að vera ungt fólk. Við stungum af þegar síðara bandið var komið á fjórða lag. Ætluðum að fá okkur crêpes en það var búið að loka búllunni svo við fórum heim í videogláp í staðinn.

Við vöknuðum við slagveður á mánudagsmorgni og aflýstum göngutúrnum upp Grouse Mountain sem við höfðum planað nokkrum dögum áður. Nenntum ekki að ganga tæpa 3Km (með rúmlega 800m hækkun) til þess að blotna inn að skinni og sjá þoku.
Í staðinn skoðuðum við lista og handíða hverfið Granville Island. Ætluðum að skoða Emily Carr Institute of Art and Design sem er staðsettur þar en hann var lokaður vegna Remeberance Day (sem var haldinn deginum áður). Í staðinn fengum við okkur bara að borða og skoðuðum markað þar sem var boðið uppá allskonar fallegt hráefni í hvers kyns mat. Væri alveg til í að geta verslað þar á hverjum degi. Lögðum okkur svo aðeins í afar þægilegum hægindastólum á enn einu kaffihúsinu, með sinn hvorn cappuccinoinn við höndina. Hringdum síðan í pabba, sem átti afmæli. Lenti reyndar í helvíti á jörð þegar ég var að redda klínki í tíkallasímann. Þurfti að fara inní einhvern "Kids Market" sem var ekkert nema dótabúðir og leiktæki fyrir börn. Ég held að mér hafi aldrei liðið jafn illa.

Eftir Granville Island huggulegheitin sigldum við með Aquabus niður í bæ, fengum við okkur langþráðar crêpes, kíktum í Vancover Lookout (þar sem við lærðum meira um Vancouver en við munum nokkruntíman læra um Calgary) og svo borðuðum við á kaiten sushi stað áður en við komum okkur fyrir í Gráhundinum. Þaðan lá leiðin aftur í gegnum Coast Mountains og Rocky Mountains, bæina Kelowna, Salmon Arm, Golden og Banff, tæpir 18 tímar í stappfullri rútu.
Og Júlía rústaði mér enn fremur í rommí á leiðinni.

föstudagur, 16. nóvember 2007

Ferðasaga: 3. hluti - Dim Sum, Burrito, Yakitori

Það var frekar óvænt veður á laugardeginum. Heiður himinn og logn! Vancouver búar voru jafn hissa og við.

Um leið og morgunkaffinu hafði verið kyngt röltum við um Gastown, sem er elsta hverfi borgarinnar, og Chinatown sem er einn sá stærsti í heiminum. Allt þetta hverfi er eins og einn stór markaður. Skrítinn matur í skrítnum krukkum, ferskur fiskur og kjöt og allskonar þurrkað dót. Við keyptum okkur harðfisk. Í hverfinu er einnig fyrsti "authentic" kínverski lystigarðurinn sem var reistur utan Kína. Í þeim garði gæddum við okkur á smá Dim Sum (eggja tertu nánar tiltekið) og skoðuðum stóra fiska synda í hringi í tjörn þar.

Eftir allt þetta Kínahverfis upplifelsi steig Júlía svo í hundaskít á meðan ég var að taka mynd af brunastiga. Svo tókum við EXPO lestina sem er metró kerfið þeirra Vancouveríta og var byggt, eins og svo margt annað, fyrir EXPO sýninguna sem var haldin þar árið 1986.
Lestarferðin var ansi skemmtileg. Við fórum yfir nokkrar stórar brýr og sáum fullt af verslunarmiðstöðvum, iðnaðarhverfum og skrítnum íbúðarhúsum. Stukkum svo út þegar við sáum auglýstan flóamarkað.

Á markaðnum var ansi margt fólk og haugar af allskonar drasli. Við römbuðum á ansi merkilegan karl sem var að selja hluta af stereoscope safninu sínu. Hann sýndi okkur allskonar græjur í kringum það t.d. Kodak Stereo myndavél, fullt af View-Masterum og stereoscope ljósmynd sem hann hafði tekið af Miklagljúfri á tvær vélar með 100 metra millibili.

Þegar við vorum orðin þreytt á markaðsgramsinu fengum við óstjórnlega löngun í mexíkóskan mat. Það var þó ekki hlaupið að því að finna svoleiðis en eftir langa leit fundum við einn lítinn og góðan stað. Júlía var komin í kokteilana eftir ca. 13 sekúndur og stuttu síðar voru bornar á borð fyrir okkur tvær burritos sem vóu u.þ.b. pund hvor.

Eftir matinn og tvö-þrjú hanastél til viðbótar ætluðum við sko aldeilis að finna okkur bar. En í Kanada eru engir barir nema sportbarir. Þeir bjóða hinsvegar uppá nóg af klúbbum en þar sýna þeir yfirleitt líka íshokkí og amerískan handbolta eins og sportbarirnir.
Staðurinn sem við römbuðum inná á endanum er japanskur, með karaoke í stað íþrótta! Þar sátum við og sulluðum í G&T og Sake Latte (eins og hvítur rússi nema sake í stað vodka) á meðan misfærir söngvarar spreyttu sig um allan sal. Ég pantaði mér meira að segja smá kvöldnasl (1 pund af mexíkóskum er greinilega ekki nóg), venjulegt Yakitori og svo Tori Hatsu (grilluð kjúklingahjörtu) á teinum.
Held að Diðrik sé ánægður með mig núna...

fimmtudagur, 15. nóvember 2007

Ferðasaga: 2. hluti - Nektarströnd og hvítrússar

Eftir að Júlía var búin að fara í ÍSkalda sturtu, og ég í vel heita og góða, röltum við upp tvær "blocks" til að smakka besta kaffi í Vancouver (að mati einhvers blaðs sem ég man ekki hvað heitir) hjá Mario's Coffee Express Ltd. Hann Mario tók sjálfur á móti okkur og skellti í tvo stóra cappuccino. Eftir það vorum við fær í flestan sjó.
Við ákváðum að kíkja á UBC, skólann sem neitaði Júlíu um inngöngu, og röltum til baka að hostelinu til að taka UBC strætóinn sem við höfðum séð þar. Þegar við vorum búin að sitja í strætó í smá stund þá renndi hann náttúrulega framhjá Mario's og stoppaði hinumegin við götuna.

University of British Colombia er RISAstór - u.þ.b. 50.000 nemendur. Við löbbuðum aðeins í gegnum campusinn, kíktum á sundhöllina (bæði karla- og kvennasveitir UBC Dolphins hafa verið háskólameistarar Kanada síðan ég veit ekki hvað) og stúdentafélags bygginguna.
Svo röltum við niður á strönd, að Kyrrahafinu, í gegnum hálfgerðan regnskóg sem er staðsettur þarna við skólann. Eftir góðan göngutúr þar komumst við að því að þetta var nektarströnd. Sem betur fer var enginn þarna til að reka okkur úr spjörunum.

Eftir góðan háskólafílíng kíktum við svo á West 4th Avenue sem við höfðum spottað á leiðinni. Þar splæstum við í frekar góðar núðlur, kíktum á búsáhöld (leynt áhugamál okkar beggja), versluðum belti og kassettur af Hjálpræðishernum og slökuðum á í einni flottustu plötubúð sem við höfum komið í (verst að spilakassasafnið þeirra sést ekki á myndunum úr búðinni).

Eftir þetta búðaráp fórum við svo á The Big Lebowski "audience participation" sýningu í nemendafélagsbíóinu í UBC. Þar mættu margir í sloppum, veiðivestum og meira að segja ein valkyrja og einnig var boðið uppá bjór og hvítarússa.

Þegar heim var komið borðuðum við ógeðslega pizzu og drukkum dýran kanadískan bjór sem þeir vildu þó meina að væri import, kannski vegna þess að hann var frá Nova Scotia og það er ansi langt frá Vancouver.

Ferðasaga: 1. hluti

Ég er frekar ósammála konunni sem Júlía var að hlusta á í lestinni um daginn. Samkvæmt námsmærinni þá sagði hún eitthvað þessu líkt: "...I hate traveling! 5 hours maximum for me." Þó er ég sammála setningunni sem hún endaði á. "It would be nice to see the world though...", hvernig svo sem hún ætlar að fara að því á fimm tímum.

En ferðaþráin rak okkur til Vancouver fyrir helgi og þar sem við höfðum ekki efni á að fljúga þá tókum við rútuna, 15 tíma þangað og 18 tíma til baka. Ég skil reyndar ekki af hverju við vorum 3 tímum lengur á leiðinni heim því að við stoppuðum í nákvæmlega sömu krummaskuðunum.

Við lögðum af stað um hálf tólf leytið á miðvikudagskvöldi, vöknuðum við bílstjórann um 3 að nóttu þar sem hann sagði okkur að "This will be Golden, this will be Golden." Þar ,inní miðjum Klettafjöllum, stukkum við út og keyptum Glosette súkkulaði rúsínur og hoppuðum svo aftur inní Gráhunds rútuna. Ég man ekki meira eftir mér þá nóttina fyrr en rétt eftir birtingu þegar við rendum inní Kelowna. Þar borðuðum við nestið okkar og ég varð þess heiðurs aðnjótandi að einhver skítugur "redneck" í köflóttri skyrtu og með derhúfu gekk inná mig þegar ég var á salerninu. Skemmtileg lífsreynsla það og svaka sniðugt að vera ekki með lás á klósetthurðunum.
Nokkrum tímum síðar sáum við svo hálft rassgat á konu sem var að beygja sig eftir kartöfluflögu sem hún hafði misst í gólfið. Það var ekki fögur sjón.

Um klukkan 3 á fimmtudaginn vorum við svo komin í menninguna í Vancouver. Restin af deginum fór í smá göngutúr og "All you can eat" á sushi stað. Verst að við vorum ekkert svakalega svöng...

miðvikudagur, 7. nóvember 2007

"It rains a lot in Vancouver, especially during the winters..."

Já, við erum að pakka regnfötunum okkar því við erum að fara í helgarferð til Vancouver. Leggjum af stað með Greyhound rútu klukkan 23:15 í kvöld og ferðin tekur u.þ.b. 15 tíma! (Nami, ef þú ert að lesa þetta þá er þessi ferð 5-6 tímum styttri en frá Antwerp til Barcelona)
Ástæðan fyrir því að við tökum rútuna er sú að lestin sem gengur hérna á milli hættir að ganga í lok október. Auk þess höfum við heyrt að það sé hlegið af fólki sem tekur lestina vegna þess hve dýrt og seinlegt það er. En nóg um það!

Við ætlum að eyða helginni í menningunni sem við höfum heyrt af þarna hinumegin við Klettafjöll, t.d. að sjá band sem heitir The Annuals, skoða listagallerý og hönnunarbúðir í Gastown, borða sushi (loksins þegar við vitum að það er ferskur fiskur í boði) og kíkja á 3 Starbucks kaffihús sem eru öll við sömu gatnamótin. Svo er víst planið að ganga á eins og eitt fjall og taka kláf niður.

Annars er lítið að frétta héðan frá Calgary. Olían er komin yfir $98 og það er farið að frysta.

fimmtudagur, 1. nóvember 2007

"Lips! Lips! Lips!"

Á miðanum okkar stóð:

Bring your sense of humor. And some toast.
Audience participation is allowed.
In fact, if you're sitting next to someone in fishnets stockings, you WILL be participating.

Til sölu voru pokar með hrísgrjónum, klósettpappír, ljósum, ristuðu brauði (toast), gúmmíhönskum, partýhöttum, flautum, spilum og dagblöðum (til að verjast rigningunni (vatnsbyssum)). Ég hef aldrei séð áhorfendur taka jafn virkan þátt í bíósýningu. Og næstum allir í búningum!

Á meðan myndin var í gangi lék starfsfólk bíósins svo með á sviðinu fyrir framan tjaldið og áhorfendur reittu af sér brandara sem var svarað af sjálfri myndinni (Áhorfendur: "When is the orgy, Frank?", Frank: "Tonight") og kölluðu ókvæðisorð að persónunum ("Slut" þegar Susan Sarandon brá fyrir sem Janet og "Asshole" þegar nörðurinn Brad lét sjá sig).

En já, hér er hægt að sjá allt um Audience Participation.
Næst þegar ég fer að sjá svona sýningu verð ég tilbúinn.

Og já, ég var að sjá hana í fyrsta skipti!