þriðjudagur, 16. febrúar 2010

Þvottadagur

Ég er nú almennt ekki mikið fyrir heimilisstörf en það fellur þó í minn hlut að þvo þvott á okkar heimili. Yfirleitt eru þetta tveir fullir IKEA pokar sem ég burðast með niður á þvottahúsið á næsta horni. Þar nota ég tímann yfirleitt í að lesa, hlusta á tónlist og fylgjast með öllu hinu skrítna fólkinu sem er líka að þvo sinn þvott. Þetta er ca. tveggja tíma ferli á 10 daga fresti, eða þegar annað hvort okkar er búið að nota allar hreinu nærbuxurnar eða sokkana sína. Sem sagt ekki alslæmt.

Eitt stykki þvottur.

En nú eru liðnir talsvert fleiri en 10 dagar síðan ég þvoði síðast. Mér detta í hug tvær ástæður fyrir því, ég veit ekki hvor er líklegri. Önnur er sú að ég fjárfesti í bæði sokkum og nærbuxum í mánuðinum.
Hin er sú að síðast þegar ég var að rogast heim með pokana úr þvottahúsinu þá var pikkað í bakið á mér og ég spurður með afar sterkum hreim: "Min ven, min ven. Hvor er din fru?!?" Mér brá dálítið og snéri mér við og sá þá tvo saminnflytjendur mína af talsvert austurlenskari ættum en ég. "Hun er på arbejde." svaraði ég sakleysislega. Þá hristu þeir báðir hausinn og sá sem hafði spurt mig áður sagði með mikilli sannfæringu: "Det går ikke, min ven." Svo gengu þeir inn í næstu sjoppu. Og ég hef ekki þvegið síðan.