föstudagur, 28. september 2007

Jæja...

þá fer þetta að bresta á. Kanada á morgun!

Kveðjuhófið fór fram í gærkvöld. Þar voru veitingar frá Kebabistan, spilað fjölmennasta teningaspil sem ég hef tekið þátt í, dúndur músík úr glymskrattanum, heimsmálin rædd, lögin voru Bibbuð og með þessu öllu drukkin ógrynni af Albani gæða øli.
Þakkir til allra sem mættu, þetta var frábært!

Svo mættum við Óli að sjálfsögðu tveim tímum of seint í vinnuna eins og vera ber eftir gott fullerí. Það var samt alltílagi því ég splæsti í vínarbrauð handa öllum í vinnunni. Svo skilst mér að það verði föstudagsbjór um þrjú leytið. Alltaf gott að fá smá afréttara áður en vinnudagurinn er búinn.

Eftir það verð ég á þeytingi útum allan bæ að sækja dótið mitt og skila öðru. Þarf að koma við í öllum helstu hverfum borgarinnar. Bakpokarnir mínir eru á Nørrebro, myndavélarnar og tölvan á Vesterbro, þarf að skjótast með einn steikarpott til Svölu uppí Fredriksberg, og svo gisti ég hjá Óla á Christianshavn.
Ætli ég þurfi ekki líka að kíkja aðeins útá skítaeyjuna Amager til Óskars og Völu í eins og einn kveðjubjór. Ég sé þau líklega ekkert fyrr en eftir eitt og hálft ár því þau eru að fara til Malasíu í skóla.

Á morgun hoppa ég svo uppí metró og beint útá flugvöll og til olíubissnisskærustunnar minnar í Calgary.

Bæbæ.

þriðjudagur, 25. september 2007

"Hvað ertu að fara að gera í Kanada?"

Ég er búinn að vera að velta því fyrir mér hvort ég ætti að fara að rukka fyrir svar við algengustu spurningunni sem ég fæ þessa dagana. En ég er ekki nógu mikill bissnesskall í mér til þess þannig að hér fáið þið svarið ykkur að kostnaðarlausu:

Ég ætla að vera heimavinnandi!

Og þar hafið þið það... Svo er annað mál hvað heimavinnandi fólk gerir, sérstaklega þegar heimilisþrifaþjónusta fylgir leiguíbúðinni sem það býr í. En ég efast ekki um að ég finni mér eitthvað til dundurs í vetrarhörkunum á hásléttum Alberta fylkis. Ég gæti til dæmis stofnað klúbb fyrir þá sem eru heimavinnandi í blokkinni okkar, þar sem við söfnumst saman og horfum á spjallþætti og sápuóperur á daginn. Nú eða tekið að mér barnapössun fyrir þá nágranna sem ekki eru heimavinnandi.

Annars er ég að pæla hvort að ég ætti að fara að æfa einhverja íþrótt þarna út. Júlía er jú á krulluæfingum (curling á frummálinu) að minnsta kosti einusinni í viku. Kannski ég gæti skráð mig í "Bobsled for beginners" eða "Biathlon*: The toughest sport on earth".

Læt ykkur vita

*skíðaskotfimi

mánudagur, 24. september 2007

Þá er....

síðasta helgin mín í Køben á þessu ári liðin og síðasta vinnuvikan hafin. Frekar fín helgi í alla staði. Veit ekki með vinnuvikuna...

Hjálpaði Ingu Rún og Braga að flytja á föstudaginn. Þau voru að kaupa æðislega andelsíbúð á Vesterbro. Svo eru þau líka svo æðisleg að geyma allt dótið mitt á meðan Kanada-ævintýrið stendur yfir.

Átti gott bæjarrölt með Óskari á laugardaginn. Við fórum í siglingu með Hafnarstrætónum, kíktum á þessa sýningu í Svarta Demantinum og svo grillpartý um kvöldið þar sem boðið var uppá SS pulsur í íslensku pulsubrauði með SS pulsusinnepi. Svo tókum við einn öl á Hvids Vinstue á leiðinni heim.

Sunnudagurinn var heldur ekkert slor. Kaffihús og kvöldmatur með Óla og Sigrid og smá nintendo, vestlands lefsur og ís í eftirmat á Christianshavn.

Og núna eru 7.180 mínútur í brottför.

Bið að heilsa.

laugardagur, 22. september 2007

10.120 mínútur akkúrat núna!

Jæja. Þá er næstum akkúrat vika í að ég fljúgi til Calgary.
Ein vika = 7 dagar = 168 klst. = 10.080 mín.
Það er ekkert svo slæmt...

Á þessarri viku ætla ég að vinna, pakka dótinu mínu í 3 skiptið á einum mánuði, kíkja á Copenhagen International Film Festival og kveðja Køben og vini. Ætla að smala sem flestum á McKluud á eitt gott loka fimmtudagsfyllerí með dynjandi músík úr besta glymskratta borgarinnar.

Svo flýg ég til London á laugardaginn næsta klukkan 12:00 og þaðan beint til Calgary. Held að það sé svona ca. 10 tíma flug. Næstum jafn langt og flugið sem ég tók til Tokyo í vor.

Það er nú meira helv... flakkið á manni!

miðvikudagur, 19. september 2007

Þetta...

kemur allt með kalda vatninu. Er að henda þessu upp og þegar það er búið þá kannski verður eitthvað út þessu. Þangað til verðið þið bara að fá ykkur bjór og slappa af.