mánudagur, 12. október 2009

Nýbylgja

Við hjónin fórum á tónleika í nýja Konserthúsinu í gær. Sáum og heyrðum Nouvelle Vague. Þau voru hress og fengu alla í salnum til að dansa. Afar gaman.

Um helgina rifjuðum við líka upp spilareglurnar við Myllu eða Nine Men's Morris eins og það kallast uppá ensku. Við erum nefnilega svo heppin að eldhúsborðið okkar er með innbyggt bæði taflborð og mylluborð. Mjög skemmtilegt.

Hér má sjá hið afar fjölhæfa eldhúsborð.

fimmtudagur, 8. október 2009

Póstur

Mér finnst, eins og líklega flestum, afskaplega gaman að fá póst.
Það er gaman að heyra þung fótspor upp stigaganginn, alla leið upp á fjórðu hæð og að manns eigin dyrum, svo ískrið í bréfalúgunni og loks annað hvort þungan dynk eða lauflétt skrjáf þegar bréfið kemst til skila á gólfmottuna eða skóhrúguna fyrir innan útidyrahurðina okkar.

Við erum svo heppin að fá frekar oft póst. Gluggapóstinum rignir auðvitað inn í kring um mánaðamót. Í hverri viku kemur stórt umslag frá Eyrarbakka, fullt af sunnlensku blöðunum og jafnvel eitt eintak af DV. U.þ.b einu sinni í mánuði fáum svipað umslag frá Hafnarfirði sem í er góður slatti af úrklippum úr blöðum síðustu vikna og lítill snyrtilegur miði sem mamma hefur skrifað stutt skilaboð á. Annan hvern mánuð skellur bók frá besta bókaklúbb í heimi í gólfið hjá okkur. Stöku sinnum læðist svo inn lítið póstkort eða bréf frá fjarlægum heimshluta (eða næstu götu).

Í dag fékk ég stórt hvítt umslag sem nafn mitt var prentað á. Tvö íslensk 120 kr. frímerki í hægra horninu. Ég varð ansi spenntur, ég viðurkenni það.
Inní var Lesbók Morgunblaðsins frá 3. okt. og smávegis bréf á afar kunnuglegu bréfsefni, nefnilega blaði úr nótublokk Verslunarinnar Vísis.
Nú er Lesbókin lesin, umslagið endurnýtt og frímerkin komin oní litla Quality Street dós. Takk fyrir póstinn Afi!

sunnudagur, 4. október 2009

Sunnudagur

Í dag er sunnudagur og slagveður. Video playlisti dagsins er: "Rachel getting married", "Into the wild", Chelsea - Liverpool, Kiljan, "Anger management", Silfur Egils.

Í gær var laugardagur og slagveður. Við vorum þunn en fórum þó í göngutúr niður á Blågårds Plads að hlusta á upplestur rithöfunda til stuðnings Írökunum sem reknir voru úr landi fyrir stuttu. Þar var hún Auður vinkona hennar Júlíu að lesa upp. Við fórum síðan í kaffi með henni og Tóta eiginmanninum hennar auk tveggja danskra vina þeirra. Þræddum nokkra skringilega staði hér á Nørrebro áður en við skröltum heim á Ægisgötuna með smá viðkomu í Fakta til að kaupa rauðvín, osta og brauð. Sátum svo í ljúfu spjalli langt fram á nótt.

Í fyrradag var föstudagur og hið ljúfasta haustveður. Það var fimmti dagurinn í röð sem ég var að hjálpa vinafólki okkar að gera upp kaffihús sem þau voru að kaupa. Sá dagur var einnig opnunardagur kaffihússins (sem heitir "von Fressen") og við skelltum okkur í villt opnunarteiti þar um kvöldið. Náðum síðan að draga ansi góðan hóp á Café Bryggeriet til að syngja karaoke, og tókum svo leigubíl heim undir morgun.

Aðfaranótt þriðjudags fór hún Katla frá okkur, en hún gisti á sænska svefnsófanum okkar í 10 daga. Það var gaman. Þessa sömu nótt lentum við óvænt í limbó/jazz/drykkjusöngvapartýi hjá nágrönnum okkar í næstu götu. Við kynntumst þeim yfir einum bjór á hverfiskránni okkar. Katla náði svo næturstrætó klukkan 4:11, beint eftir teitið.

Á meðan Katla var hérna gerðum við ýmislegt skemmtilegt. Fórum t.d. með bekkjarfélögum mínum á opnun ljósmyndasýningar, sungum karaoke, sáum "Pigen der legede med ilden" í bíó, kíktum í kaffi til Kobba og Sóleyar, o.m.fl.

En nú er seinni hálfleikur að byrja og mig langar að sjá hvort Liverpool tekst að leggja Chelsea eður ei.

föstudagur, 18. september 2009

Loppemarked!!!

Við hjónin tökum þátt í flóamarkaði á Balders Plads (við sjáum torgið útum stofugluggann okkar) á morgun, laugardag, milli 11 og 15. Þeir sem hafa tíma mega endilega kíkja á okkur og fá kaffi og kanelsnúða.

Sjáumst!

mánudagur, 14. september 2009

Efterår

Þá er komið haust. Þó hangir hann ennþá í 17-18°C. Mér skilst reyndar að það sé svipað í Hafnarfirði.
Samt skrítið hvað gengi danska hitastigsins er lélegt miðað við það íslenska, okkur hjónum er nefnilega skítkalt þessa dagana en foreldrar mínir í Firðinum eru að kafna úr hita.

Ég er þó farinn að hlakka til vetrarins. Ég var nefnilega að ljúka við eina bestu bók sem ég hef lesið, "Maður og elgur" (eða "Doppler" eins og hún heitir á frummálinu) eftir hinn norska Erlend Loe. Hún gerist að mestu um vetur í skógarjaðrinum við Osló þar sem söguhetjan er að flýja fólkið. Mæli eindregið með þessari bók, sem besti bókaklúbbur í heimi býður uppá.


þriðjudagur, 18. ágúst 2009

Status Quo

Það er ekkert að frétta. Bara að láta vita. Það eru samt nokkrar nýlegar myndir á www.thoriringvarsson.com

þriðjudagur, 7. júlí 2009

Papergirl

Þeir sem eru í Berlín einhvern tíma á tímabilinu 17. - 31. júlí ættu endilega að kíkja við á Karl-Marx-Straße 171 (U-Bahn stöð Rathaus Neukölln). Þar sýnir Papergirl hópurinn listaverk sem honum hefur áskotnast síðasta árið, þar á meðal nokkrar ljósmyndir sem ég sendi þeim.

Viku eftir að sýningin opnar hjóla svo meðlimir hópsins um alla borg og gefa gangandi vegfarendum flest verkin. Þó mun eitt verk eftir hvern listamann verða áfram til sýnis í áðurnefndum höfuðstöðvum hópsins.

Opnun sýningarinnar er þann 17. júlí klukkan 19:00.

Meira um verkefnið á www.papergirl-berlin.de

sunnudagur, 5. júlí 2009

Það er slæmur ávani að blogga bara á mánaðar fresti. Ég þarf að venja mig af honum.

Síðasti mánuður í stuttu máli: Atvinnuleysi, smiður í einn dag, grillveisla hjá Ágústi og Hildi, Berlín í fimm daga, grillveisla hjá Davide, franskur gestur, Roskilde Festival í einn dag, grillveisla hjá okkur, endalaus hiti og sól.

Í löngu máli:
Ég er atvinnulaus. Ef einhver þekki ljósmyndara einhverstaðar sem vantar lærling, eða bara hjálp annað slagið, þá má hinn sami endilega láta mig vita.

Júlía fékk Berlínarferð í afmælisgjöf frá ástkærum eiginmanni sínum. Við fórum þangað um miðjan mánuðinn og gistum hjá Rut og Stebba.
Það er pínu hættulegt fyrir okkur að fara til Berlínar vegna þess að eftir hverja heimsókn langar okkur alltaf meira og meira að flytja þangað.
Í þetta skiptið fórum við á flohmarkt á Boxhagener Platz, smökkuðum cupcake, skoðuðum ljósmyndagallerýið C/O Berlin, fengum okkur nokkrar currywurst, fórum á tónleika með Fleet Foxes og fengum dýrindis mat hjá Monsieur Vuong. Þetta var allt frábært, en skemmtilegast var nú að hitta Rut, Stebba og börnin þeirra Úlf og Rán, og svo Þórhildi og Karítas dóttur hennar.
Takk fyrir okkur Rut og Stebbi!

Xavier er franskur. Hann gistir á sófanum okkar þessa dagana. Við tókum hann með okkur á Hróarskelduhátíðina á föstudaginn og buðum honum svo í grillveislu í gær. Í veisluna mættu margir og það voru sirka jafn margir Útlendingar og Íslendingar. Frakki, Ítali, Grikki, Dani, Norðmaður. Útlendingarnir voru sérstaklega sáttir við hvalkjötið og voru margir farnir að spá í hvernig væri best að standa að útflutningi og markaðssetningu.

Á Hróa sáum við m.a. Fleet Foxes (aftur), Faith No More, Nick Cave and the Bad Seeds, The Mars Volta, 2manyDJs og hið stórskemmtilega Gangbé Brass Band. Hitinn var þó við það að drepa alla gesti hátíðarinnar og allir skuggablettir þétt setnir.

Myndir frá öllu þessu koma vonandi bráðlega þ.e.a.s. þegar ég fæ filmurnar út framköllun.

Tschüss

mánudagur, 1. júní 2009

Afsakið hlé...

Það hefur sko margt gerst síðan 8. maí, það skal ég segja ykkur.

Ef við vinnum okkur aftur þá kláraði ég skólaönnina á föstudaginn. Því var að sjálfsögðu fagnað með látum. Bekkurinn skellti sér á Café IDA og borðaði hádegismat í boði skólans . Eftir matinn var svo var sest á grasblett á Íslandsbryggju og spjallað um framtíðina (og hversu kennararnir væru gagnslausir). Nokkrum tímum og þremur kössum af bjór síðar enduðu svo nokkrir í grilli í bakgarðinum hjá okkur. Pulsur í forrétt og lax, nýjar kartöflur frá Mallorca og heimalagað pestó í aðalrétt. Öllu skolað niður með Dansk Pilsner úr Fakta(1,95 DKK pr.stk. / 58,5 DKK pr.kasse)
Eftir þessa veislu drifum við okkur svo á karnival í Fælledparken. Ekkert lítið fjör að klára 5 mánaða skólatörn! (Afrakstur annarinnar má sjá hér)

Í síðustu viku fórum við á þrenna tónleika. Emilíana Torrini í Koncerthuset (4/5), A Hawk and a Hacksaw á Vega (2/5) og Torsdagskoncert með DR SymphoniOrkestret í Koncerthuset (4/5). Bara gaman.

Við kíktum líka á opnun ljósmyndasýningar færeysk-sænska ljósmyndarans Maria Olsen á Nordatlantens Brygge. Áhugaverðar myndir sem fjalla um fiskveiðar og -verkun í Norður-Atlantshafinu. Meira um það hér.
Eftir sýninguna vorum við orðin svo sólgin í fisk að við brunuðum í gegnum hellidembu og þrumuveður á uppáhalds sushi staðinn okkar og borðuðum yfir okkur af Unagi Nigiri, California rúllum og fleira góðgæti.

Um síðustu helgi kíkti Óli í smá heimsókn frá Prag og tók Eduardo vin sinn með sér. Við fengum okkur að sjálfsögðu nokkra Ale Nr. 16 og spjölluðum um þjóðaríþrótt Colombiu.

Hún Halldóra vinkona okkar bauð okkur í mat fyrir ekki svo löngu. Það var gríðarfjör enda fullt hús af gestum. Hún eldaði líka dýrindis mat sem að ég á eftir að fá uppskriftir að. Góður kokkur og gestgjafi hún Halldóra. Við spjölluðum um heima og geima og hún benti okkur meðal annars á þessa stórskemmtilegu grein um nýjustu bók Haruki Murakami, "What I Talk About When I Talk About Running".

Við fórum einungis einusinni í bíó í maí. Sáum hina geisiáhugaverðu "Der Baader-Meinhof Komplex" (4/5). Það þarf varla að útskýra fyrir neinum um hvað hún fjallar.
Ég náði svo að lesa tvær skáldsögur með þessu öllu. Nýjasta bók Nick Hornby, "Slam", og fyrstu skáldsöguna hans Aravind Adiga, "The White Tiger".
Önnur fjallar um Sam, 16 ára gamlan skeitara, sem býr einn með mömmu sinni sem var 16 ára þegar hún eignaðist hann og hversu lífið getur verið erfitt á þeim aldri.
Hin fjallar um uppvöxt, þroska og athafnamennsku Balrams Halwai, klárasta stráksins í litlu þorpi á Indlandi.

En nú ætla ég að lesa yfir ritgerðina hennar Júlíu, sem að hún ætlar að skila um þetta leiti á morgun.

föstudagur, 8. maí 2009

Stóri Bænadagur

Í dag halda Danir uppá Store Bededag sem þýðir að það er frí í skólanum. Sniðugt hjá þeim að færa alla svona frídaga fram á föstudag til þess að lengja helgina!

Þar sem að ég er búinn að vera slappur síðan á sunnudag þá ætla ég að hvíla mig í dag. Hvíldin felst semsagt í því að fara ekki út úr húsi, klára að lesa eina skáldsögu, lesa föstudagsblað Politiken og jafnvel sunnudagsblaðið frá síðustu helgi, hlusta á tónlist ooooooog.... hanga á netinu.

Fyrir mér snýst hugtakið "að hanga á netinu" um það að kíkja á næstum alla linkana sem ég er með bookmarkaða og finna nokkra nýja til að bæta við. Í dag ætla ég svo líka að ráðast í ca. hálfsárslega tiltekt á þessum bókamerkjum.
Já, lífið er sko spennandi hérna í København!

Hér eru nokkrir linkar til að koma nethangsinu í gang:
http://www.booooooom.com/
http://ffffound.com/
http://www.npg.org.uk/
http://www.remodelista.com/
http://www.timesonline.co.uk/tol/comment/columnists/
http://news.bbc.co.uk/
http://www.wulffmorgenthaler.com/
http://www.photography.dk/
http://davidhorvitz.tumblr.com/

Svo er náttúrulega alltaf hægt að fara á Wikipedia og fá grein af handahófi með ctrl-x

Endilega sendið mér ykkar uppáhalds hangs heimasíður... og njótið Store Bededag

fimmtudagur, 23. apríl 2009

Sumardagurinn fyrsti

Jæja, þá sumarið loksins komið, eftir langa bið. Tillykke með það. Við hjónin ætlum að halda uppá það með því að læra bæði heima fyrripartinn og fara svo á fyrirlestur um franska kvikmyndaiðnaðinn eftir hádegi. Rosa stuð.

Skólinn er búinn að vera heldur rólegur síðustu vikurnar. Rétt fyrir páska vorum við að búa til Købmandsavis. Eyddi nokkrum dögum í að taka myndir af ávöxtum, dósamat og snakkpokum.
Í síðustu viku kíkti bekkurinn í Frederiksborg Slot á sýningu á portrettmyndum breska ljósmyndarans Cecil Beaton. Og sitthvorum megin við helgina sem leið höfum við verið að læra um grafík, textagerð og umbrot.
Næstu tvær vikurnar verða þó afar spennandi því að þá fáum við gestakennara sem ætlar að kenna okkur allt um portrett.

Annars er allt frekar rólegt hér á Ægirsgötunni. Við bætum smám saman við bóslóðina (einum bolla hér, einum lampa þar) og erum meira að segja komin með heimilistryggingu. Loksins!

Med venlig hilsen...

föstudagur, 10. apríl 2009

Ný íbúð...

Smellið á myndina til að stækka hana...

mánudagur, 16. mars 2009

Praha

Prag er æði. Ég held að það hafi ekki liðið nema ca. 23 mínútur frá því að við komum inn í borgina þar til að ég sagði upphátt að ég vildi flytja þangað. *

Við vorum í heimsókn hjá Óla og gistum hjá honum og meðleigjendum/bekkjarfélögum hans, Benna og Wonderful Markus. Það var auðvitað ekkert verra að þeir leigja frekar frábæra íbúð með stórri stofu, svölum og stiga uppá þak. Og útsýni yfir alla borgina...

Við túristuðumst náttúrulega soldið, skoðuðum Kastalann og gengum yfir Karlsbrúnna. Kíktum líka í þjóðminjasafnið þar sem við sáum síðustu fötin sem Franz Ferdinand klæddist og lásum yfir München samninginn (og grandskoðuðum svo alla 10.500 steinana í jarðfræðideildinni).
Eftir það nutum við andrúmsloftsins og heimalagaða bjórsins á kránni U Fleku, sem var stofnuð árið 1499 og er elsta kráin í Prag. Sem að verður nú að teljast nokkuð gott!
Smökkuðum afganskan mat á Kabul, keyptum filmur hjá FotoSkoda og kíktum á tónleika með Dva. Og drukkum bjór.
Við lærðum líka að fara aldrei aftur á Café Franz Kafka, þar sem að við Siggi T fengum okkur svínasnitzel af því að þjónninn sagði okkur svona 8 sinnum að hann væri mjög góður, auk þess sem að flest annað væri ekki til. Kannski ekki skrítið í gyðingahverfinu.

Mannlífið og borgin var frábær en skemmtilegast af öllu var að hitta góða vini aftur eftir alltof langan tíma!

Ég tók soldið af myndum en það verður þó einhver bið eftir þeim þar sem að ég nota enn filmur og neita að stafvæðast. Ef að einhver getur bent mér á góða framköllunarstofu hérna í Køben þá væri það frábært. Framköllunarvélin í skólanum er nefnilega biluð og mér sýnist á öllu að hún verði ekki löguð.

Og já, þegar við komum heim þá beið okkar leigusamningurinn og lyklarnir að nýju íbúðinni, svo að við flytjum bráðum. Nánari tímasetning verður auglýst hér. Öll hjálp vel þegin þegar að því kemur ;)

Kveðja úr Höfn "and a good bye" eins og þeir segja hjá Sky Europe.

* Þó má ekki lesa of mikið í þessa pælingu mína því að auk Prag þá hef ég minnst á flutninga til Parísar, Berlínar, San Francisco, Vancouver, Sarajevo, Tokyo, Gautaborgar, Århus og Ísafjarðar af þeim borgum og bæjum sem ég hef komið til. Við það hef ég bætt við nokkrum stöðum sem ég hef aldrei komið til, m.a. New York, Helsinki, Montreal, Osló, Amsterdam og Svalbarða.

miðvikudagur, 11. mars 2009

Heimsókn

Nú sit ég í stofunni á Sólbakka og bíð eftir að dyrabjallan hringi. Siggi T var að lenda á Kastrup áðan og ætlar að gista hjá okkur í nótt. Svo förum við öll saman til Prag á morgun í heimsókn til Óla. Ekkert slor það!
Komum svo heim á sunnudaginn til þess að taka við nýju íbúðinni okkar að Ægirsgade 80 á Nørrebro. Ætli við þurfum ekki að sjoppa okkur skotheld vesti í Tékklandi?

Frekar rólegt í skólanum þessa dagana. Erum búin að hanga í stúdíóinu síðustu dagana. Fórum reyndar í langan göngutúr með einum kennaranum síðasta föstudag til þess að skoða arkítektúr hérna í Køben, sem var gríðargaman.

En akkúrat núna hlustar hverfið á "Blood on the Tracks" með okkur hjónunum á 10. hæð því að maður verður að hækka þegar Bob Dylan er settur á fóninn.

Góða helgi...

laugardagur, 28. febrúar 2009

Malmö

Þá erum við hjónin komin heim úr fyrstu utanlandsferð ársins. Skruppum í dagstúr yfir Øresund, nánar tiltekið til Malmö.
Til þess að komast þangað tökum við sömu lest og þegar ég fer í skólann. Eini munurinn er að maður fer út þremur stöðvum síðar (ca. 12 mínútum lengri ferð). Það væri í raun fljótlegra fyrir mig að fara til Malmö en í skólann því að ég tek strætó frá lestarstöðinni að skólanum og sá strætó er yfirleitt korteri of seinn á morgnana.

Um leið og við komum til Útlandsins skelltum við okkur á hinn margverðlaunaða veitingastað Moosehead við Lilla Torg. Það tók okkur þó smá stund að átta okkur á því hvernig staður þetta væri því að hann stendur við lítið gamalt torg, er innréttaður sem skemmtistaður, býður uppá knattspyrnu í beinni útsendingu og á matseðlinum eru ýmsir tælenskir réttir í bland við hamborgara úr elgskjöti. Svo virtist einnig sem að kúnnahópurinn væru einungis Danir. Furðulegur staður. Við fengum okkur borgara.

Eftir matinn kíktum við í tvær-þrjár búðir. Þá áttuðum við okkur á því að meirihluti fólksins í miðbænum væru Baunar í sjoppingleiðangri. Og það var sko ekki fátt fólk í bænum.
Þar sem við erum nú ekki hörðustu aðdáendur þeirra "Rauðu-og-Hvítu" flúðum við inní næsta listgallerý. Þar fær maður yfirleitt frið fyrir þeim.
Okkur til mikillar ánægju var gallerýið að opna ljósmyndasýningu. Þegar við höfðum litið yfir ósköpin (og drukkið pínu hvítvín) komumst við að því að í dag var að opna okkur áður óþekkti Skánar Fotobiennal. Og við glöddumst.
Nú höfðum við sko úr hvorki meira né minna en 34 ljósmyndasýningum að velja í þessarri stuttu heimsókn yfir Sundið.

Þá hófst mikill ratleikur um borgina að grafa upp hin ýmsu gallerý og verslanir sem buðu uppá sýningar. Enduðum svo á hinu frábæra listasafni Malmö Konsthall. Sáum margt skemmtilegt og margt skrítið.
Mæli með Malmö.

Þegar við komum heim rakst ég svo á þessa síðu á netinu og óskaði þess að ég hefði fæðst u.þ.b. 20 árum fyrr svo að ég hefði getað lært að vera alvöru ljósmyndari. Finnst frekar leiðinlegt að filman sé að deyja.

Bið að heilsa í bili.

sunnudagur, 22. febrúar 2009

Video

Nú þegar Óskarsverðlaunin eru á næsta leiti þá þótti okkur við hæfi í gær að kynna okkur nokkrar tilnefndar myndir.

Gott að taka svona bíó- og videodag annað slagið. Mæli sérstaklega með Waltz with Bashir og þá helst að njóta hennar í faðmi flugvélasætanna í huggulegum sal Vester Vov Vov.

þriðjudagur, 10. febrúar 2009

Afmælishelgi

Ég átti afmæli síðasta föstudag. Bauð vinum og bekkjarfélögum heim í heimabakaðar pizzur. Rosa fjör. Leynigestur lét sjá sig. Dansinn dunaði. Skóför fundust á stólum daginn eftir. Enduðum á Café Bryggeriet sem er næsta knæpa. Þar er karaoke sem við nýttum okkur. Lagalistinn innihélt m.a. Carrie, Bohemian Rhapsody og Happy Birthday í útgáfu Stevie Wonder. Ekki amalegt það.


Laugardagurinn var ekki jafn ljúfur, allavega ekki fyrir kvöldmat. Skaust þó í bíó með Óla og Sigrid um kvöldið. Fórum í Vester Vov Vov að sjá hina geysiáhugaverðu "Låt den rätte komma in", sem er sænsk vampírumynd. Kíktum síðan við á Konya Kebab, sem er ekki af verra taginu. Mæli með shawarma dürüm uden løg. Gaman að hitta Óla og Sigrid, en það gerist alltof sjaldan því að hann býr í Prag og hún býr í Viborg. Á milli þeirra eru ca. 781 km.

Sunnudagurinn fór í tiltekt, auk þess sem við kíktum í Statens Museum for Kunst. Þar lentum við óvænt inní síðasta atriði Vinterjazz hátíðarinnar, tríó Jacobs Fischer. Þeir félagar stóðu fyrir sínu og við fórum hæstánægð heim þar sem við enduðum helgina á videokvöldi.

Í dag notaði ég svo fyrsta hluta afmælisgjafarinnar frá eiginkonunni. Bauð henni með mér á tónleika með Islands á Lille Vega. Hlakka til næsta hluta, helgarferð til Prag þann 12. mars. Þriðji og síðasti hlutinn verður svo The Whitest Boy Alive á Store Vega þann 25. apríl!

Takk fyrir allar afmæliskveðjur og -hugskeyti.

þriðjudagur, 3. febrúar 2009

"Okay, campers, rise and shine, and don't forget your booties 'cause it's cooooold out there today."

Í tilefni af því að 2. febrúar er Groundhog Day eyddum við hluta gærkvöldsins í að horfa á samnefnda bíómynd með Bill Murray í aðalhlutverki. Því fylgdi að vanda mikill hlátur, en afleiðingarnar eru þó þær að við erum bæði með "I Got You Babe" á heilanum, sem getur varla talist mikill kostur.

Annars virðist febrúar ekki ætla að brydda uppá neinu nýju, endurtekið efni frá janúar, svipað og endurteknir Múrmeldýrsdagar. Meðal þessa eru viðvarandi flensa Júlíu, vikuleg skil í skólanum, þvottahúsið á föstudögum og óþolandi grár vetrarhiminn dag eftir dag.
Veturinn er þó ekki alslæmur því að honum fylgir stóraukin rauðvínsneysla, kertaljós og nokkur baksturskvöld.

Kveðja úr Baunalandi

p.s. Var að bæta við smá uppskriftadálk sem má finna
<--- hér til hliðar.

fimmtudagur, 8. janúar 2009

Jeg studerer fotografi...

Nú er hafið nýtt ár og ég er sestur á skólabekk... enn einu sinni! Byrjaður á "Hovedforløb" í ljósmyndun, fjögurra og hálfs árs nám sem lýkur með sveinsprófi. Ég var reyndar búinn með eitt ár svo ég ætti að geta lokið prófinu ca. árið 2012.

Fyrsta skólavikan er búin að vera frekar róleg. Alltaf búin um hádegi og allur dagurinn í dag var gefinn frír til þess að við gætum unnið myndir. Svo á morgun er hópferð upp í Louisiana. Ég var reyndar þar fyrir tæpum tveimur vikum en það gerir ekkert til.

M&P voru hjá okkur um jól og áramót ásamt Jónu tengdó. Allir dagar voru þaulskipulagðir og við fórum meira að segja í utanlandsferð! Ok, Svíþjóð er bara í hálftíma fjarlægð, en það er samt annað land. Svo á milli skemmtiatriða var étið og étið og étið eins og alltaf um jól.
Áramótapartýið var auðvitað á sínum stað og ég er ekki frá því að við höfum náð að rispa eins og 3-4 plötur eins og venjan er.

Jæja, gleðilegt ár og hafið það gott.