sunnudagur, 9. mars 2008

Vikan í stuttu máli

Fyrir viku máluðum við herbergið okkar í kjallaranum á Hverfisgötunni. Þvílík breyting þegar dökkrauðu veggirnir höfðu verið málaðir marmarahvítir og sjálfstæðisbláa steingólfið var falið með mjúku beigelituðu teppi.
Næst verða það páskagula vinnuherbergið og mosagræna forstofan sem fá að finna fyrir penslunum og rúllunum!

(Júlía mokar stéttina á milli málningarumferða og borðar svo smá snjó til að kæla sig niður.)

Svo hefur vikan liðið hjá með tilheyrandi vinnu á daginn og skemmtilegheitum á kvöldin. T.d. fórum við í dyrabjölluviðgerðarleiðangur til hennar Margrétar sem er leiðbeinandinn hennar Júlíu í háskólanum. Eftir að dyrasíminn hafði verið tengdur að flestu leyti (bjallan virkaði, það er hægt að hleypa fólki inn auk þess að geta hlustað á gestina á meðan þeir bíða fyrir utan í umferðarniðinum á Hringbrautinni en það er ekki hægt að spjalla við neitt við þá í gegnum tólið því míkrafónninn virkar ekki) og að launum fengum við pastarétt með spínati og LAUK auk þess að fá að slappa af í þessarri líka yndislegu íbúð sem hún var að fjárfesta í.

(Þriðja neðsta dyrabjallan með frábærum texta og dyrasíminn góði á milli þeirra Margrétar og Júlíu. Smellið á myndina til að stækka hana.)


(Viðfangsefni vikunnar í vinnunni var þessi tölvuskápur.)

Á þriðjudaginn kíktum við í lókal bíóið okkar, Bæjarbíó, þar sem Kvikmyndasafn Íslands er með sýningar tvisvar í viku. Sáum Benjamín Dúfu og okkur vöknaði báðum um augun þrátt fyrir fremur slappan leik á köflum. En frábært bíó og það verður sko heimsótt aftur bráðlega.
Við fórum líka að sjá aðra íslenska mynd í vikunni en það er Brúðguminn þeirra Tsjekhovs og Baltasars. Mælum með henni en við ætlum líka að reyna að ná að sjá Ivanov í Þjóðleikhúsinu áður en hún rennur sitt skeið.

Gummi átti afmæli í gær, 25 ára. Til lykke enn og aftur Gömme minn. Megir þú lifa og dafna í marga aldarfjórðunga enn! Fórum með honum og mörgum öðrum á veitingastað sem hvorugt okkar hefur komið á áður, Austur Indía Fjelagid, en Harrison Ford mælir eindregið með og segir að sé besti indverski veitingastaður sem hann hefur farið á um ævina.

Svo í kvöld, viku eftir herbergismálun, fórum við í fyrsta skipti á uppboð hjá Gallerý Fold og ekki nóg með það heldur keyptum við líka mynd þar! Teikningu eftir Halldór Pétursson, fyrrverandi skólastjóra Myndlista- og handíðaskóla Íslands og hönnuð af merkjum Reykjavíkurborgar, Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Flugfélags Íslands.

("Mannspilin og Ásinn" eftir Halldór Pétursson.)

En nú er ég farinn að sofa því það er vinna í Turninum á milli kl. 7:30 og 18:30 á morgun.

Auf wiedersehen!

Engin ummæli: