fimmtudagur, 8. október 2009

Póstur

Mér finnst, eins og líklega flestum, afskaplega gaman að fá póst.
Það er gaman að heyra þung fótspor upp stigaganginn, alla leið upp á fjórðu hæð og að manns eigin dyrum, svo ískrið í bréfalúgunni og loks annað hvort þungan dynk eða lauflétt skrjáf þegar bréfið kemst til skila á gólfmottuna eða skóhrúguna fyrir innan útidyrahurðina okkar.

Við erum svo heppin að fá frekar oft póst. Gluggapóstinum rignir auðvitað inn í kring um mánaðamót. Í hverri viku kemur stórt umslag frá Eyrarbakka, fullt af sunnlensku blöðunum og jafnvel eitt eintak af DV. U.þ.b einu sinni í mánuði fáum svipað umslag frá Hafnarfirði sem í er góður slatti af úrklippum úr blöðum síðustu vikna og lítill snyrtilegur miði sem mamma hefur skrifað stutt skilaboð á. Annan hvern mánuð skellur bók frá besta bókaklúbb í heimi í gólfið hjá okkur. Stöku sinnum læðist svo inn lítið póstkort eða bréf frá fjarlægum heimshluta (eða næstu götu).

Í dag fékk ég stórt hvítt umslag sem nafn mitt var prentað á. Tvö íslensk 120 kr. frímerki í hægra horninu. Ég varð ansi spenntur, ég viðurkenni það.
Inní var Lesbók Morgunblaðsins frá 3. okt. og smávegis bréf á afar kunnuglegu bréfsefni, nefnilega blaði úr nótublokk Verslunarinnar Vísis.
Nú er Lesbókin lesin, umslagið endurnýtt og frímerkin komin oní litla Quality Street dós. Takk fyrir póstinn Afi!

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það verður heldur minna af úrklippum núna "eftir moggann", en mér sýnist fréttablaðið heldur vera að þykkna !
Vigdís.

ingarun sagði...

heldur betur sammála þér þarna Þórir, nema á þessu heimili þurfum við að tralla niður 4 hæðir til að ná sjálf í póstinn. Það er lúksus að vera ekki með póstkassa:)

Nafnlaus sagði...

ummmmm var að borða pítsu ala þú..

já það er gaman að fá póstkort sérlega frá bjúti berlín

h

Jóhann Vignir Vilbergsson sagði...

Eruð þið með einhvern sem áframsendir bækurnar eða sendir Bjartur til útlanda?

Þórir sagði...

Bjartur sendir beint til okkar án aukakostnaðar. Við elskum Bjart!