sunnudagur, 4. október 2009

Sunnudagur

Í dag er sunnudagur og slagveður. Video playlisti dagsins er: "Rachel getting married", "Into the wild", Chelsea - Liverpool, Kiljan, "Anger management", Silfur Egils.

Í gær var laugardagur og slagveður. Við vorum þunn en fórum þó í göngutúr niður á Blågårds Plads að hlusta á upplestur rithöfunda til stuðnings Írökunum sem reknir voru úr landi fyrir stuttu. Þar var hún Auður vinkona hennar Júlíu að lesa upp. Við fórum síðan í kaffi með henni og Tóta eiginmanninum hennar auk tveggja danskra vina þeirra. Þræddum nokkra skringilega staði hér á Nørrebro áður en við skröltum heim á Ægisgötuna með smá viðkomu í Fakta til að kaupa rauðvín, osta og brauð. Sátum svo í ljúfu spjalli langt fram á nótt.

Í fyrradag var föstudagur og hið ljúfasta haustveður. Það var fimmti dagurinn í röð sem ég var að hjálpa vinafólki okkar að gera upp kaffihús sem þau voru að kaupa. Sá dagur var einnig opnunardagur kaffihússins (sem heitir "von Fressen") og við skelltum okkur í villt opnunarteiti þar um kvöldið. Náðum síðan að draga ansi góðan hóp á Café Bryggeriet til að syngja karaoke, og tókum svo leigubíl heim undir morgun.

Aðfaranótt þriðjudags fór hún Katla frá okkur, en hún gisti á sænska svefnsófanum okkar í 10 daga. Það var gaman. Þessa sömu nótt lentum við óvænt í limbó/jazz/drykkjusöngvapartýi hjá nágrönnum okkar í næstu götu. Við kynntumst þeim yfir einum bjór á hverfiskránni okkar. Katla náði svo næturstrætó klukkan 4:11, beint eftir teitið.

Á meðan Katla var hérna gerðum við ýmislegt skemmtilegt. Fórum t.d. með bekkjarfélögum mínum á opnun ljósmyndasýningar, sungum karaoke, sáum "Pigen der legede med ilden" í bíó, kíktum í kaffi til Kobba og Sóleyar, o.m.fl.

En nú er seinni hálfleikur að byrja og mig langar að sjá hvort Liverpool tekst að leggja Chelsea eður ei.

Engin ummæli: