Við höfum verið heldur löt eftir áramótin. Stóðum fyrir partýi í lobbýinu á hostelinu okkar á gamlárskvöld og það vakti mikla lukku meðal flestra íbúa og starfsmanna. Við vorum samt ekkert alltof hress daginn eftir.
Fyrir nokkrum dögum fluttum við svo af hostelinu. Við tókum ákvörðun um að eyða janúar bara öllum hérna í San Francisco og tókum því herbergi á leigu. Húsið sem við búum í núna er ekki nema annað hús frá hostelinu svo það voru auðveldir flutningar.
Ef ykkur langar að senda okkur bréf eða eitthvað annað fallegt þá er addressan:
761 Post St. - # 1004
San Francisco, CA 94109
U.S.A
Við verðum hérna þar til 30. jan.
Svo er náttúrulega búið að vera óveður í Kaliforníu. Við höfum lítið fundið fyrir því fyrir utan smá rigningu síðastliðna daga. Erum búin að vera að reyna að nýta tímann í að skoða söfn og bókabúðir, prófa ný kaffihús og sitja fyrir framan sjónvarpið heima að fylgjast með æsispennandi forsetaefnis forkosningunum.
Við styðjum bæði demókratana en þó sitthvort frambjóðandann. Leikar æsast því lengra sem líður á mánuðinn en við missum samt af "Super Duper Tuesday" þann 5. febrúar, lokadegi forvalsins þar sem meginþorri fylkjanna halda forvöl, vegna þess að við verðum komin til DK á þeim tímapunkti.(Hillary Clinton og Barack Obama spjalla um fríðindi þess að vera forseti BNA)
Á milli kosninga og kaffis er svo yfirleitt stíf dagskrá. Á sunnudaginn kíktum við á Cartoon Art Museum að skoða allskonar skemmtilegar teikningar og ramma úr gömlum teiknimyndum. í gær löbbuðum við upp í Haight, sem er hverfið þar sem hipparnir söfnuðust saman árið '67. Þar skoðuðum við fullt af second hand búðum, borðuðum eggjaköku, skoðuðum plötubúðina Amoeba og sögðum nei takk við gamlan hippa sem bauð okkur LSD.
Við þurftum þó að vera komin snemma heim því að við vorum búin að ákveða að fara á fyrirlestur í Apple búðinni sem er nokkrum götum frá okkur. Hann Michel Gondry kom nefnilega til þess að segja okkur frá framleiðslu nýjustu myndar sinnar, Be Kind Rewind og sýna okkur brot úr henni. Svo mætti annar aðalleikarinn óvænt en það er hann Mos Def. Þeir vissu ekki hvor af öðrum hérna í borginni en gistu víst á sama hótelinu. Mos Def var á leiðinni útá flugvöll þegar hann rakst á Gondry og ákvað að taka seinna flug til að koma að spjalla við okkur.
Þessi uppákoma var alveg þess virði að bíða í tvo tíma í röð fyrir utan búðina, sérstaklega vegna þess að við vorum framarlega og fengum sæti þegar við komum inn.
Við urðum samt fyrir smá áreiti af heimilislausum manni sem bað okkur um klink. Þegar við neituðum honum um það þá öskraði hann á stelpuna fyrir framan okkur: "Come on! You know what year it is? It's 2008! Come on, give me a dollar!"
Við veltum því fyrir okkur hvort að hann hafi alltíeinu fattað hvaða ár er, áttað sig á því að það er verðbólga í landinu og því hækkað kröfurnar úr smápeningum í heilan dal?
Við fórum líka í bíó um daginn að sjá nýju Coen bræðra myndina, No Country for Old Men. Líklega besta mynd sem ég sé á þessu nýja ári, fyrir utan kannski ofarnefnda Gondry mynd. Farið að sjá þær báðar við fyrsta tækifæri.
En nú þarf ég að hætta því forvalið í New Hampshire er að byrja og ég þarf að horfa á CNN í nokkra klukkutíma. Og kannski panta eina Brooklyn Style frá Dominos í gegnum netið...
5 ummæli:
vá það er nóg að gera hjá ykkur þarna í SF. hlakka til að fá ykkur til köben
en yfirleitt gefum við heimilislausum klinkið okkar... bara ekki þessum dónahagfræðingi!
það kemur mér ekki mikið á óvart að þú hafir staðir fyrir partíi á gamlárskvöld!
M.
hey
Hvenær er von á fólinu heim?
í febrúar...
Skrifa ummæli