Þá erum við hjónin komin heim úr fyrstu utanlandsferð ársins. Skruppum í dagstúr yfir Øresund, nánar tiltekið til Malmö.
Til þess að komast þangað tökum við sömu lest og þegar ég fer í skólann. Eini munurinn er að maður fer út þremur stöðvum síðar (ca. 12 mínútum lengri ferð). Það væri í raun fljótlegra fyrir mig að fara til Malmö en í skólann því að ég tek strætó frá lestarstöðinni að skólanum og sá strætó er yfirleitt korteri of seinn á morgnana.
Um leið og við komum til Útlandsins skelltum við okkur á hinn margverðlaunaða veitingastað Moosehead við Lilla Torg. Það tók okkur þó smá stund að átta okkur á því hvernig staður þetta væri því að hann stendur við lítið gamalt torg, er innréttaður sem skemmtistaður, býður uppá knattspyrnu í beinni útsendingu og á matseðlinum eru ýmsir tælenskir réttir í bland við hamborgara úr elgskjöti. Svo virtist einnig sem að kúnnahópurinn væru einungis Danir. Furðulegur staður. Við fengum okkur borgara.
Eftir matinn kíktum við í tvær-þrjár búðir. Þá áttuðum við okkur á því að meirihluti fólksins í miðbænum væru Baunar í sjoppingleiðangri. Og það var sko ekki fátt fólk í bænum.
Þar sem við erum nú ekki hörðustu aðdáendur þeirra "Rauðu-og-Hvítu" flúðum við inní næsta listgallerý. Þar fær maður yfirleitt frið fyrir þeim.
Okkur til mikillar ánægju var gallerýið að opna ljósmyndasýningu. Þegar við höfðum litið yfir ósköpin (og drukkið pínu hvítvín) komumst við að því að í dag var að opna okkur áður óþekkti Skánar Fotobiennal. Og við glöddumst.
Nú höfðum við sko úr hvorki meira né minna en 34 ljósmyndasýningum að velja í þessarri stuttu heimsókn yfir Sundið.
Þá hófst mikill ratleikur um borgina að grafa upp hin ýmsu gallerý og verslanir sem buðu uppá sýningar. Enduðum svo á hinu frábæra listasafni Malmö Konsthall. Sáum margt skemmtilegt og margt skrítið.
Mæli með Malmö.
Þegar við komum heim rakst ég svo á þessa síðu á netinu og óskaði þess að ég hefði fæðst u.þ.b. 20 árum fyrr svo að ég hefði getað lært að vera alvöru ljósmyndari. Finnst frekar leiðinlegt að filman sé að deyja.
Bið að heilsa í bili.
laugardagur, 28. febrúar 2009
Malmö
Birt af
Þórir
kl.
17:56
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli