(það er önnur færsla fyrir neðan sem þið eigið líklega eftir að lesa líka ;)
Nýja árið byrjar í miðju ferðalagi en ég býst samt ekki við því að það verði jafn mikið flakk árið 2008 og er búið að vera þetta síðastliðna ár.
Á nýársdag 2007 flaug ég skítþunnur heim til Danmerkur eftir vel heppnaða jólareisu til Íslands. Fyrstu fimm vikum ársins eyddi ég í skólanum og í að flytja með Óla, Sigga T og Kolbrúnu í nýja íbúð en 9. feb. flaug ég svo, nýorðinn kvartaldargamall, til Bangkok með tveggja daga viðkomu hjá Diðrik í Tokyo.
Í Bangkok hitti ég svo Egil og Hildi og skoðaði með þeim menningu, hof og strendur Thailands og Kambodíu í þrjár vikur. Rákumst svo óvænt á Daða og Ástu inni á frekar sóðalegu internet kaffi í höfuðborg Kambodíu og þau slógust í för með okkur. Frekar ljúft allt saman.
Ég held að það minnisstæðasta frá þessu ferðalagi hafi samt verið 6 tíma leigubílaferðin frá landamærunum til Siem Reap á skrjáfþurrum moldarvegi í sól og logni með ótrúlega mikilli trukkaumferð og frammúrakstri og 3 metra skyggni á köflum. Að sitja vinstramegin frammí í hægrihandar umferð við þessar aðstæður er svolítið taugatrekkjandi. Fyrirgefið mamma og pabbi að mér finnist gaman að ferðast svona...
Eftir Tokyo var það svo vika í kaffihúsa- og safnahangsi í París. Hitti Kötlu þar í Evrópuaðlögunarviku áður en ég fór heim til Køben í vinnu og allt það.
Í DK beið mín glæný íbúð, sem að Siggi og Óli voru búnir að gera frekar heimilislega, og glæný vinna. Skrítið að koma heim úr svona löngu ferðalagi og beint í nýtt líf. Og líka frekar skrítið að búa og vinna með sömu góðu vinunum. Einhvernvegin gekk það samt með afar litlum pirringi og við skemmtum okkur nú yfirleitt frekar vel saman.
Um páskana tók ég Íslandsreisu til þess að pakka öllu dótinu mínu á Spítalastígnum því að M&P voru búin að kaupa hús í Hafnarfirðinum. Man ekki betur en að ég hafi farið næstum beint á flugvöllinn af Sirkus klukkan 5 á aðfaranótt annars í páskum.
Af hverju enda allar ferðir til Íslands svona?
Í maí skrapp ég í sólarhrings vinnuferð með Óskari til Þýskalands.
Stuttu síðar kíktu M&P í heimsókn til DK og við skutumst í fjölskylduferð til Svíþjóðar að kíkja á ættingja. Skemmtilegur rigningargöngutúr í miðbæ Gautaborgar með viðkomu í listasafninu stendur uppúr.
Viku seinna var ég svo kominn í helgarferð til Íslands í kvartaldarafmælisveislu hjá Didda. Þau Kata með barn og nýja íbúð. Allt að gerast þar. Til hamingju með það!
Í Júní rigndi mikið í Køben eftir frekar gott vor. Einn af þessum rigningardögum hélt hann Bibbi Brók skólafélagi minn og vinur frekar skemmtilegt útifestival. Í miðjum skóginum í Amager Fælled fann ég hann og alla þrjá gestina sem voru mættir. Nokkrum klukkutímum síðar var stytt upp og Bibbi Bróks Jungle Festival virkilega komið í gang. Og einn af þessum tugum gesta var mjög skemmtileg stelpa sem er næstum jafn skrítin og ég.
Þessarri skemmtilegu stelpu fór ég svo með á annað festival (Trailer Park Fesitval) helgina eftir ásamt því að baka pönnukökur í skírnarfögnuðinum hennar til heiðurs Isabellu Henriettu Ingridar Margrethe prinsessu af Danmörk.
Júlía er nefnilega frekar mikið fyrir dönsku konungsfjölskylduna.
Rómantísk safn/sushi Malmø dagsferð og þriðja festivalið (Roskilde Festival) okkar Júlíu á þremur helgum einni viku síðar.
Enn ein Íslandsförin var í júlí. Þá eyddi ég viku á landinu góða. Fór í árlega útilegu í Brynjudalinn, keyrði á Strandir með Jónasi og Þorbirni, skrapp í ársafmæli hjá Vilhelm Namasyni, tók góða göngu með Agli og Atla og lenti í óvæntu brúðkaupi hjá Gunna frænda og Maju.
Í ágúst fór ég í helgarmenningarreisu til Íslands á Menningarnótt í Reykjavík. Sorry allir þeir sem ég hitti ekki þar. Ég var upptekinn!
Í byrjun sept. fór Júlía til Calgary og ég var heimilislaus eftir að við strákarnir sögðum upp íbúðinni. Ég fékk að gista hjá Kobba og Sóley (TAKK!!!) og Ingu Rún og Braga (TAKK!!!) og í byrjun okt. var ég kominn til Kanada líka. Þar er okkar fyrsta íbúð og við fórum í gönguferðir um Klettafjöll, heimsóttum Dave (interrail félaga okkar Óla) og skoðuðum olíufylkið Alberta auk þess að taka vikuferð til Vancouver, æfa krullu, spila squash og renna okkur í bobsleða.
Í lok bissnessskóla annarinnar stigum við svo uppí Greyhound rútu og keyrðum í 42 tíma alla leið til San Francisco þar sem erum búin að vera um jól og áramót og ætlum að eyða fyrsta mánuði ársins sem er að hefjast.
Allt í allt þá tel ég 17 flug á þessu ári og yfir 100 klukkustundir í rútum.
Takk kærlega fyrir síðasta árið og þau sem á undan komu allir mínir frábæru ferðafélagar, vinir og fjölskylda... þið vitið hver þið eruð!
Og ég dáist að ykkur sem nenntuð að lesa þetta allt! Ef þið hafið einhverju við að bæta þá endilega hendið því inn í komment. Ég get ekki munað allt sem skeður á svona viðburðaríku ári...
6 ummæli:
Ég verð nú bara að minnast á það þegar froskurinn pissaði á Egil í Kambódíu. Hiklaust hælæt ársins.
Ég trúi því varla að þú hafir gleymt að nefna það Þórir.
gaman að hafa kynnst þér Þórir:)
mér finnst líka vert að nefna að þú braust rúm sem við bragi vorum með í láni og reyndir að borga fyrir það með því að lána okkur handónýtt og sýkt rúm í staðinn sem fór stuttu seinna á haugana.... það alla vega er eitt af því sem stendur upp úr hjá mér á árinu. hehehe en það er nú löngu fyrirgefið:) hlakka til að sjá ykkur vírdós
vá ég ætti að fá verðlaun fyrir að lesa til enda :)
greinilega mjög skemmtilegt ár hjá þér og ykkur. vonandi verður 2008 ekki síðra.
tschuss
rut
góður þórir meira svona, þú ættir að gera svona um hverja helgi með highlights vikunar myndskreyt og kannski nokkur ljóð. ánægður með þig.
Geðveikt, hverjum er ekki nákvæmlega sama hvernig árið hefur verið hjá þér?
Hvenær kemurðu heim? Það er aftur á móti stóra spurningin!
Ég myndi vera sáttur við að ná 1/4 af þessum ferðalögum. En allavega takk fyrir gott ár og hafið það gott þangað til að leiðindalífið byrjar aftur!
Ég krefst hittings þegar ég kem heim í sumar.
Skrifa ummæli