Á Íslandi eru jólin hátíð ljóss og friðar en við ákváðum að jólin okkar í "The Sunshine State" yrðu að japönskum sið. Þar í landi fíla þeir virkilega þessa miklu verslunarhátíð en jóladagur er samt aðallega til þess að fara á stefnumót. Og þar sem við vorum spurð um daginn hversu lengi við værum búin að deita þá ákváðum við að fara út á deit að borða sushi á jóladag, að japönskum sið.
Við urðum líka afskaplega hissa þegar við skoðuðum matseðilinn hjá Sushi BOOM! og sáum að þeir bjóða uppá djúpsteikta Kaliforníurúllu og urðum að prufa það.
Sushi uppgötvun ársins! Og ekki seinna vænna, árið alveg að verða búið.
Í tilefni af því (og í framhaldi af japanska jólaþemanu) fórum við í dag á Asian Art Museum að hringja inn japanska nýárið. Þar var múgur og margmenni í röð að bíða eftir að banka trédrumb í risastóra bjöllu. Við ákváðum að þetta fólk væri mun betur fallið til þess að hringja inn nýtt ár og að bíða í röð svo við skoðuðum bara safnið í rólegheitum í staðinn. Stórglæsilegt safn sem sýnir menningarsögu Asíu eftir menningarsvæðum. Í lobbíinu voru svo listamunkar frá Tíbet að stunda iðju sína. Afar ljúf menningarbomba.
Eftir á smökkuðum við langþráð Eggs Benedict (sem er yfirleitt einungis boðið uppá um helgar) og sáum rottu hlaupa inní eitt af flottustu Viktoríu húsunum í borginni.
Annars erum við búin að vera nýta tímann á milli jóla og nýárs í að skoða menningarflóruna í borginni en auk Asíusafnsins kíktum við á Craft+Design safnið, þar sem voru til sýnis ljósmyndir af listamönnum á San Francisco svæðinu auk verka eftir sömu listamenn, og vörðum svo hálfum degi á SFMOMA þar sem Ólafur Elíasson er aðal númerið með tvær sýningar og Jeff Wall var með hálfa hæð undir risastórar baklýstar ljósmyndir auk þess að safnið er með frekar flott kolleksjón til sýnis.
Svo leiðist okkur nú ekki að skoða útgáfu annarra í safnverslununum og kannski splæsa í eitt eða tvö póstkort.
Við fórum líka í svaka hjólatúr yfir Golden Gate brúnna og yfir til Sausalito og ferjuna þaðan til baka yfir flóann. Eftir þessa miklu hreyfingu komum við dauðþreytt heim á hostelið og fórum þaðan beint í pöbbarölt með öðrum íbúum og einum starfsmanni. Enduðum dansandi full og örugglega mjög skemmtileg.
Og svo ættu ljósmyndaferils hjólin að fara að rúlla. Ég er búinn að vera að sanka að mér tækjum og vitneskju síðustu árin en í gær tók ég stórt skref í átt að frægð og frama þegar ég keypti mér mínar fyrstu flauelsbuxur í 15-20 ár.
Ef að þið sjáið mig svo með axlabönd þá ætti að vera orðið stutt í að það hangi myndir eftir mig á veggjum einhvers temmilega virts sýningarrýmis.
2 ummæli:
Þú átt eftir að vera mega heitur í þessum flauelsbuxum með axlabönd.... góðar myndir gaman að sjá e-h annað en calgary hehe. Annars hafið það bara mega gott yfir áramótin!
eru þessar flauelis buxur með strípum í landscape?
Ha? HA? ef svo er þá var ég búinn að pæla í að pannta mér þær fyrir 2 árum, ekki einusinni fara að halda að þú hafir verið að uppgötva heiminn félagi!!!
PÆLING!!!!!
Skrifa ummæli