þriðjudagur, 25. desember 2007

Gleðilega hátíð.

Gleðileg jól kæru lesendur og takk fyrir öll kommentin á liðnu ári.

San Francisco jól eru skrítin en góð. Byrjuðum aðfangadag snemma á skæpinu, hringdum á Eyrarbakka, Flateyri og í Hafnarfjörð. Um það bil sem við skelltum á var verið að hringja inn jólin á Íslandi en hér var klukkan bara 10 um morgun og við þutum með leigubíl í óperuhúsið á balletsýningu á Hnotubrjótnum hans Helga Tómassonar (með smá aðstoð frá Tchaikovsky og San Francisco ballettinum).
Eftir dásamlegt show kíktum við í bæinn á jólaösina við Union Square en þreyttumst fljótt á því og þurftum að leggja okkur á hostelinu fyrir jólasteikina.

Á slaginu 6:38 PM á Kalifornískum tíma var kallað í mat í kjallaranum á gistiheimilinu og allir gestir og starfsfólk settust saman að snæðingi. Matseðillinn hljómaði uppá svínakjöt, kartöflumús, gular baunir, aspars og bjórgnægð.
Eftir þessa ljúfu matarveislu var svo sest við barinn og skálað í kampavíni.
Áður en langt um leið var svo tekin ákvörðun um að skella sér á karaoke bar. Skipulagðir Svíar smöluðu hópnum í 5 leigubíla en þegar við komum á áfangastað var auðvitað harðlokað. Leigubílstjórarnir kepptust við að finna aðra bari fyrir okkur en allt kom fyrir ekki, við enduðum aftur á hostelinu 20 mínútum og 20 dölum síðar. Þar settumst við aftur á barinn og spjölluðum við þennan alþjóðlega skríl langt fram á nótt.

Annars er búið að vera afskaplega ljúft hérna í borginni við flóann. Við fengum 4 tíma leiðsögutúr um borgina á öðrum degi. Hún Diane sem stjórnaði því flutti hingað frá New York fyrir átta mánuðum. Íbúðin hennar var ekki tilbúin þegar hún kom svo hún fór á hostel, þótti það svo gott að hún sagði upp íbúðinni og býr hérna ennþá.
Með henni fórum við upp og niður nokkrar hæðir, í gegnum litlu Ítalíu, snæddum á Caffe Trieste þar sem Francis Ford Coppola sat löngum stundum og breytti bókinni um Guðfaðirinn í kvikmyndahandrit, lærðum um "beat" kynslóðina á The Beat Museum, röltum um húsasund Kínahverfisins, smökkuðum á framleiðslunni hjá Golden Gate Fortune Cookie Factory og skoðuðum rándýr listaverk í töff galleríum.

Afskaplega afslappað eftir 42 tíma rútuferð frá Calgary með viðkomu í Vancouver, Seattle, Portland og Sacramento, í samfloti með móðursjúkum og skapstyggum mæðrum, húsmæðrum á leið til Las Vegas, konu sem nýtti tímann í að læra spænsku og æfa sig á fiðlu og dularfullum Seattle búa á leið til Tijuana með einungis stál skjalatösku.

Núna liggjum við uppí rúmi og erum að narta í jólamat... örbylgjupopp, súkkulaðikex og kók í dós, alltsaman úr sjálfsala þar sem allt er lokað.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hóhóhó Gleðileg Jól!

Nafnlaus sagði...

Gleðileg jól.Takk fyrir jólakortið.
Kveðja Guðný og Palli.

Nafnlaus sagði...

jájá gleðileg jól og passið ykkur á tígrisdýrinu sem gengur laust þarna í SF

Nafnlaus sagði...

Gleðileg jól!
Takk fyrir jólakortið, mjög skemmtileg mynd, sérstaklega jólaleg;)
Vonandi hafið þið það sem allra best í útlandinu, hlakka til að hittast á nýja árinu.
Mbk, Bósan

Kolbrun Yr sagði...

gleðileg jól...sjitt sanfran marr! usss

Eva sagði...

Hej bæði tvö,

gleðileg jól og gaman að heyra af ykkur. Var að senda þér, Júlla, jólakortið mitt sem aðrir fengu með venjulegum pósti en ég var ekki viss um að það myndi komast til skila ef að ég sendi það á "Júlía Björnsdóttir, San Fransisco". Vona að þið hafið góð áramót!

oskaringi sagði...

GLEÐILEG JÓL frá Efstalandi :D