fimmtudagur, 15. nóvember 2007

Ferðasaga: 1. hluti

Ég er frekar ósammála konunni sem Júlía var að hlusta á í lestinni um daginn. Samkvæmt námsmærinni þá sagði hún eitthvað þessu líkt: "...I hate traveling! 5 hours maximum for me." Þó er ég sammála setningunni sem hún endaði á. "It would be nice to see the world though...", hvernig svo sem hún ætlar að fara að því á fimm tímum.

En ferðaþráin rak okkur til Vancouver fyrir helgi og þar sem við höfðum ekki efni á að fljúga þá tókum við rútuna, 15 tíma þangað og 18 tíma til baka. Ég skil reyndar ekki af hverju við vorum 3 tímum lengur á leiðinni heim því að við stoppuðum í nákvæmlega sömu krummaskuðunum.

Við lögðum af stað um hálf tólf leytið á miðvikudagskvöldi, vöknuðum við bílstjórann um 3 að nóttu þar sem hann sagði okkur að "This will be Golden, this will be Golden." Þar ,inní miðjum Klettafjöllum, stukkum við út og keyptum Glosette súkkulaði rúsínur og hoppuðum svo aftur inní Gráhunds rútuna. Ég man ekki meira eftir mér þá nóttina fyrr en rétt eftir birtingu þegar við rendum inní Kelowna. Þar borðuðum við nestið okkar og ég varð þess heiðurs aðnjótandi að einhver skítugur "redneck" í köflóttri skyrtu og með derhúfu gekk inná mig þegar ég var á salerninu. Skemmtileg lífsreynsla það og svaka sniðugt að vera ekki með lás á klósetthurðunum.
Nokkrum tímum síðar sáum við svo hálft rassgat á konu sem var að beygja sig eftir kartöfluflögu sem hún hafði misst í gólfið. Það var ekki fögur sjón.

Um klukkan 3 á fimmtudaginn vorum við svo komin í menninguna í Vancouver. Restin af deginum fór í smá göngutúr og "All you can eat" á sushi stað. Verst að við vorum ekkert svakalega svöng...

Engin ummæli: