föstudagur, 16. nóvember 2007

Ferðasaga: 3. hluti - Dim Sum, Burrito, Yakitori

Það var frekar óvænt veður á laugardeginum. Heiður himinn og logn! Vancouver búar voru jafn hissa og við.

Um leið og morgunkaffinu hafði verið kyngt röltum við um Gastown, sem er elsta hverfi borgarinnar, og Chinatown sem er einn sá stærsti í heiminum. Allt þetta hverfi er eins og einn stór markaður. Skrítinn matur í skrítnum krukkum, ferskur fiskur og kjöt og allskonar þurrkað dót. Við keyptum okkur harðfisk. Í hverfinu er einnig fyrsti "authentic" kínverski lystigarðurinn sem var reistur utan Kína. Í þeim garði gæddum við okkur á smá Dim Sum (eggja tertu nánar tiltekið) og skoðuðum stóra fiska synda í hringi í tjörn þar.

Eftir allt þetta Kínahverfis upplifelsi steig Júlía svo í hundaskít á meðan ég var að taka mynd af brunastiga. Svo tókum við EXPO lestina sem er metró kerfið þeirra Vancouveríta og var byggt, eins og svo margt annað, fyrir EXPO sýninguna sem var haldin þar árið 1986.
Lestarferðin var ansi skemmtileg. Við fórum yfir nokkrar stórar brýr og sáum fullt af verslunarmiðstöðvum, iðnaðarhverfum og skrítnum íbúðarhúsum. Stukkum svo út þegar við sáum auglýstan flóamarkað.

Á markaðnum var ansi margt fólk og haugar af allskonar drasli. Við römbuðum á ansi merkilegan karl sem var að selja hluta af stereoscope safninu sínu. Hann sýndi okkur allskonar græjur í kringum það t.d. Kodak Stereo myndavél, fullt af View-Masterum og stereoscope ljósmynd sem hann hafði tekið af Miklagljúfri á tvær vélar með 100 metra millibili.

Þegar við vorum orðin þreytt á markaðsgramsinu fengum við óstjórnlega löngun í mexíkóskan mat. Það var þó ekki hlaupið að því að finna svoleiðis en eftir langa leit fundum við einn lítinn og góðan stað. Júlía var komin í kokteilana eftir ca. 13 sekúndur og stuttu síðar voru bornar á borð fyrir okkur tvær burritos sem vóu u.þ.b. pund hvor.

Eftir matinn og tvö-þrjú hanastél til viðbótar ætluðum við sko aldeilis að finna okkur bar. En í Kanada eru engir barir nema sportbarir. Þeir bjóða hinsvegar uppá nóg af klúbbum en þar sýna þeir yfirleitt líka íshokkí og amerískan handbolta eins og sportbarirnir.
Staðurinn sem við römbuðum inná á endanum er japanskur, með karaoke í stað íþrótta! Þar sátum við og sulluðum í G&T og Sake Latte (eins og hvítur rússi nema sake í stað vodka) á meðan misfærir söngvarar spreyttu sig um allan sal. Ég pantaði mér meira að segja smá kvöldnasl (1 pund af mexíkóskum er greinilega ekki nóg), venjulegt Yakitori og svo Tori Hatsu (grilluð kjúklingahjörtu) á teinum.
Held að Diðrik sé ánægður með mig núna...

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vá hvað þú hefur gott minni Þórir, meira að segja hundaskítinn sem ég gleymdi um leið og ég skolaði hann af í pollinum við kúkahrúguna!

Nafnlaus sagði...

Hehehe, Nice, ég elska yakitori. Torihatsu: 鳥ハツ; tori: kjúlli, hatsu:hjarta.

Ég elskaði að éta kjúklingahjörtu í Japan. Fokk hvað það er gott. Annars verða bara rjúpnahjörtu um jólin hjá mér!

hehehe
Gott að heyra að það sé gaman hjá ykkur.

Nafnlaus sagði...

hey bibban og gnúsinn þakka sko fyrir kortið....svona gleður mann mikið þegar vinir manns sjá sér ekki fært um að vera með manni....en skál fyrir ykkur...og góð ferðasaga...komiði svo bara heim

Nafnlaus sagði...

Já kærar þakkir fyrir kortin. Og gaman að sjá myndir líka.

Við sjáumst bara á næsta ári.

Ój og Sigge

Nafnlaus sagði...

hey - mig langar líka í kort;)

gaman að lesa sögur frá ykkur. sér maður ykkur eitthvað um jólin? (það má vonast til að plönin breytist..hehe)