föstudagur, 19. október 2007

Fimmtudagur til frægðar

Á fimmtudögum vöknum við alltaf snemma (eins og alla aðra daga reyndar), borðum, lærum og drífum okkur í skólann. Júlía skellir sér í hagfræðitíma í 75 mínútur og ég eyði þeim tíma í háskólabókabúðinni. Það er yfirleitt of stuttur tími fyrir bókabúðarráp en ég læt mér það duga til að fá ekki leið á búðinni strax. Svo hittumst við u.þ.b. klukkan 2:15 pm fyrir utan Dairy Queen og pöntum tvo miðlungs stóra mjólkurhristinga, einn súkkulaði og einn vanillu.
Eftir það skoðum við borgina.

Á leiðinni í skólann í gær rákumst við á bekkjarfélaga hagfræðisjénísins, hann Leo.
Leo er frá Alþýðulýðveldinu Kína. Hann hefur samt verið með annan fótinn í Kanada síðustu 3 ár. Konan hans hefur eytt dálitlum tíma hérna líka en býr núna í Kína með tvíburana þeirra og fimm þjóna til að stjana við sig. Leo útskýrði sko fyrir okkur að fyrir 500 CAD á mánuði getur hann haft fimm þjóna í Kína eða borgað tvisvar sinnum það fyrir einn þjón hér. Ég held að þau séu svolítið rík í Kína.
Svo sagði hann okkur að hann væri að fara í viku ferð til fjölskyldunnar eftir miðsvetrarprófin því tvíburarnir eru að verða eins árs. Þá er hefð hjá Kínverjum að leggja fjölda hluta fyrir framan börnin og sá hlutur sem börnin taka fyrst upp á að segja til um hvað þau verða í framtíðinni, þ.e.a.s. taki þau upp peningaseðil verður það bissness, bók vísar á menningarvita, matur á matmann o.s.frv.
Það verður gaman að vita hvað gleður augu tvíburanna hans Leo.

Eftir skóla, með mjólkurhristing í hönd, tókum við lestina niðrá Sólarsíðu (Sunnyside) og röltum í gegnum bakgarða að íþróttahöll Krulluklúbbs Calgary. Meira um það hjá Cosmopolitanklúbbnum.

Nú er ég farinn að sækja um atvinnuleyfi og svo er það feitur börger á diner hérna rétt hjá.

Have a good one...

Engin ummæli: