þriðjudagur, 16. október 2007

Svartagullsgaldurinn

Í gær kusu Calgarians sér nýja borgarstjórn. Mayor Dave Bronconnier hélt velli sem borgarstjóri og byrjar því sitt þriðja kjörtímabil núna í vikunni. Í okkar kjördæmi, ward 8, varð Madeline King að lúta í lægra haldi fyrir honum John Mar. Við Júlía studdum herra Mar heils hugar því hann virðist traustur maður. Þó er aðal ástæðan fyrir brotthvarfi frú King líklega þetta óskiljanlega YouTube video sem hún auglýsir á heimasíðunni sinni.
Aðal áherslur kosningabaráttunnar í okkar kjördæmi voru byggingaframkvæmdir, hækkun glæpatíðni á síðustu árum og aðstæður heimilislausra (sem eru þónokkuð margir hérna í miðbænum). Hún Madeline hefur greinilega ekki verið að standa sig í stjórninni.
Við horfðum aðeins á kosningavökuna þegar masters-neminn kom heim í gærkvöld eftir langan skóladag. Okkur var þó afar brugðið þegar útsendingu lauk um tíu leytið og einungis ca. þriðjungur atkvæða talinn. Greinilega ekki mjög mikill áhugi fyrir þessu kosningaveseni hérna í hreinstu borg heims.

Og talandi um hreinleika borgarinnar. Ég hef verið að safna í ljósmyndaseríu um sorp hérna úti og fór í göngutúr í framköllunarstofuna í gær. Á leiðinni þræddi ég bakgarða hverfisins og smellti af í gríð og erg. Einn hinna innfæddu gaf sig á tal við mig (eins og flestir sem verða á vegi manns hérna) og spurði af hverju ég væri eiginlega að taka myndir. Ég sagði honum frá þessarri sorphugmynd minni. "There's alot of that lying around." sagði hann þá og hélt áfram ferð sinni.

Á meðan ég gekk um bakgarða og almenningsgarða þá var Júlía í messu í skólanum. Þar var á ferð milljarðamæringur sem messaði yfir háskólanemum um kapítalismann sem ræður öllu í þessu olíu og hátæknilandi. Ég er nú bara farinn að hafa áhyggjur af því að saklausa stjórnmálafræðingssálin fari að hrífast með bissnessflóðinu, fari að glugga í The Financial Times á leið sinni í skólann og kíkji á verð olíutunnunnar um leið og hún gangi útúr skólastofunni.
En ég verð víst að taka henni hvernig sem hún er, olíusjúk eður ei.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er ekki bara bæði betra... að vita verð olíutunnu og djúss (og mjólkur)...?

Annars var þessi milljarðamæringur ótrúlega skemmtilega ríkur og sagði það sama og Hannes Hólmsteinn í tíma í stjórnmálafræðinni í gamla daga: Peningar veita manni ekki hamingju - en - er ekki betra að vera óhamingjusamur á Benz en Trabant?

Mér líður best á hjói, verst að þeim er alltaf stolið af manni.

Skál fyrir John Mar!

Nafnlaus sagði...

Þetta youtube video er alveg glórulaust.
Ég studdi John Mar. Eðal gæi? Eða er það ekki?
Kveðja Diðrik