miðvikudagur, 24. október 2007

Stund milli stríða

Þá er helmingur húsverkanna búinn í dag. Innkaupin komin í ísskáp og aðra skápa, fötin komin í þvottavélina og uppvaskið að þorna á grindinni. Þetta er akkúrat stundin sem ég nýt þess mest að opna einn svellkaldan bjór.
Og í þetta sinn er það Red Stripe sem er hvorki meira né minna en bruggaður í Kingston á henni Jamaicu (eyjunni sem brúnkukremsmódelið á háskólabarnum í U of C langar svoooo mikið að heimsækja, sjá hér).

Annars höfum við verið afar léleg í bjórdrykkjunni hérna í Alberta. Fórum reyndar á (sport)bar um daginn (því allir barir hérna eru sportbarir) og uppgötvuðum okkur til mikillar ánægju að þar var boðið uppá Erdinger á dælu og pöntuðum okkur um leið tvö glös af þeim glæsi drykk. Okkur var þó afar brugðið þegar barþjónninn bar fyrir okkur bjórinn í "long drink" glösum og afar kolsýrubættan í kaupbæti. Það var gott fyrir manninn að við erum ekki Þjóðverjar því að við hefðum líklega gengið í skrokk á honum fyrir að skemma þvílíka þjóðargersemi. Í staðin drukkum við eins mikið af þessu sulli og við gátum og pöntuðum síðan flöskubjóra í næsta umgang.

Í fyrramál ætlum við að taka bílaleigubíl og keyra alla leið uppí þjóðgarðinn Jasper, gista þar eina nótt og ganga eins og við getum. Svo erum við boðin í hrekkjavökupartý í olíuborginni Edmonton (sem er höfuðborg Alberta fylkis). Þess má geta að íshokkílið borgarinnar heitir Edmonton Oliers og skartar svörtum búningum og hringlaga merki með gylltum olíudropa. Lífið hérna gengur einungis útá olíu!

En nú þarf ég að stökkva niður í þvottaherbergi og skella fötunum í þurrkara, ganga svo frá leirtauinu og undirbúa matseldina. Í kvöld verður boðið uppá svínakótilettur í raspi og bjór með í tilefni af því að Júlía er búin í miðannarprófum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

djöf..sins lúksus líf í olíunni. húsverk, drykkja og sjá um leirtauið. mig langar að vera heimavinnandi húsmóðir.
en Edmonton Oliers, múhahhhahaa. þvílíkt rugl, keyptu treyju...!

have more fun. kv atli

Nafnlaus sagði...

nákvæmlega farðu á leik gagtu í treyju og öskraðu "oliers!oliers!oliers!oliers!" á götum borgarinnar!!!! go oliers!